Ég vil taka það fram áður en nokkur maður les greinina að ég veit ekki hvort heimildirnar eru traustar eða bara algjört rugl. Málið er þannig að ég var að vafra um á Encyclopedia of Arda og rakst á þessa síðu hér: http://www.rockjakten.com/nazgul_html/index.html en þar sem ég tel EoA vera nokkuð trausta síðu taldi ég að þeir færu varla að láta einhvern rugl link upp á síðuna. Þó hef ég mínar efasemdir því ég hef ekki séð þessar upplýsingar neinsstaðar annarsstaðar á netinu. Ég tek samt áhættuna og endilega segið hvað ykkur finnst.

E.S. ef þið viljið ekki vita hvernig hann deyr…ekki lesa greinina.

Nákonungurinn – The Witch-King of Angmar

Nákonungurinn var prins, annar sonur konungs af Númenor sem hét Tar-Ciryatan. Eldri bróðir hans varð hinsvegar 13. konungur Númenor, kallaður Tar-Atanamir “hinn mikli” vegna þess hve ríkur hann varð. Hann var líka fyrsti konungurinn sem mótmælti banni Vala opinberlega. En svo ég snúi mér aftur að Nákonunginum þá fæddist hann árið 1820 á annarri öld og var nefndur Tindomul eða Sonur ljósaskiptanna því hann fæddist á meðan sólmyrkvi gekk yfir.
Seinna var Tindomul kallaður Er-Mûrazor eða Svarti prinsinn vegna þess að hann hár hans var svartara en nokkur hafði áður séð í Númenor. Er-Mûrazor var eins og bróðir sinn, ákaflega stoltur og bar hag Númenor fyrir brjósti en einnig mjög skapbráður og beitti oft ofbeldi án þess að hugsa sig tvisvar um.

Til Barad-Dûr skellti Svarti prinsinn sér síðan árið 1883 á a.ö. og varð lærlingur Saurons. Á næstu 115 árum jók hann gífurlega við kunnáttu sína á Svarta galdri og varð einstaklega máttugur “seiðkarl”. Hann varð annar á eftir Sauroni að mætti og Hringadróttinn treysti honum.
Á endanum lét prinsinn glepjast af loforðum Saurons um ódauðleika, valdi og ríkidæmi og tók við einum að máttarbaugunum níu. Þá fékk Myrkradróttinn anda prinsins og eftir það var hann nefndur Nákonungurinn. Eftir þetta var hann hvorki lifandi né dauður heldur var andi hans fullkomlega á valdi Sauron.

Á þriðju öld sendi Myrkradróttinn hann til Angmar og þar gerði hann sér járnvirki. Langt og strangt stríð háði hann við Arnor en á endanum vann hann stríðið við það ríki, en sá sigur stóð samt frekar stutt. Það kom her frá Gondor og Eriador sem eyddi Angmarshernum rétt hjá Annúminas. Eftir fall Angmars og járnvirkisins var bundinn endir á stríð í norður hluta Miðgarðs.

Nákonungurinn tók mikinn þátt í Hringastríðinu. Hann var með í að drífa her Gondors yfir Andúin. Eftir það fór hann með hinum Hringvomunum átta og leitaði að hringnum. Þó svo hann hafi verið mjög nálægt því að ná Hringnum aftur tókst honum það ekki og leit hans og hinna Hringvomanna endaði í Bruinen þar sem flóðbylgja mögnuð upp af Elrond og Gandalfi tók alla vomana.

Eftir þetta lét Sauron hann fara fyrir her Mordor og var helsta takmark hans það að fella Gondor. Hann sprengdi upp hlið Minas Tirith og þar tók Gandalfur á móti honum. Þeirra orðaslagur stóð þó stutt því Róhanar komu á meðan þessu stóð og þurfti hann að bjóða þá “velkomna”. En til að gera langa sögu stutta atvikaðist dauði Nákonungsins þannig að hann var stunginn á milli kórónu og skikkju af Jóvini dóttur Jómundar eftir að Káradúkur Brúnbukkur stakk hann í hnéð með blaði gerðu einmitt til þessa verks. Nákonungurinn var því drepinn af konu og hobbita en ekki manni alveg eins og spádómur Glorfindels sagði fyrir um. ( er ekki alveg viss um að þetta hafi verið Glorfindel, en er samt nokkuð viss)


Begga
.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,.,