Ég heilsa ykkur.

Mitt álit á bíómyndunum tveimur (Föruneyti hringsins og Turnunum tveimur) fer hér á eftir.

Þessar bíómyndir eru báðar alger snilld. Þvílíkt og annað eins hefur maður varla séð áður. Ég reyni nú að rökstyðja þessa fullyrðingu betur.

Leikarar eru almennt að leika mjög vel. Elijah er að gera mjög góða hluti sem Frodo og sérstaklega kemur vel fram hvernig hringurinn er að ná tökum á honum. Hinir leikararnir eru ekkert síðri.
Jafn góðan tökustað væri varla hægt að finna annars staðar í heiminum. Ósnortin náttúra Nýja Sjálands sem minnir mjög á ævintýraheim. Það fer t.d. fiðringur um mann þegar maður sér persónurnar ganga þar um.
Einnig eru tæknibrellur mjög góðar. Tónlistin er einnig einstakleg og maður er nánast á leiðinni út í næstu hljómplötuverslun að kaupa geisladiskinn með tónlistinni.
Förðunin líka á toppnum. Maður fær t.d. hroll með því einu að horfa á Legolas. Hann er of svalur. Eyrun mjög vel gerð. Gimli líka. Svo má ekki gleyma öllum orkunum!
Þessar bíómyndir eru byggðar á einum þekktustu ævintýrasögum veraldar, þannig að söguþráðurinn er byggður á meistaraverki. Hér leynast þó megingallar myndanna, að margra mati. Söguþráðnum hefur verið breytt talsvert, ýmsum ástaratriðum bætt inn. Ég er þó engan veginn á móti þessu. Þetta gerir það að verkum að myndirnar verða samblanda af miklum hasar og spennu auk örlítillar ástar og væmni. Ég lít svo á að ef mönnum tekst að sviðsetja væmnisatriði (tónlistin spilar stórt hlutverk þarna) á þann hátt að áhorfendur tárist í augun, að þá hafi vel takist til. Atriðið hefur heppnast. Þetta finnst mér t.d. eiga við um það þegar Frodo er að kveðja Bilbo áður en Hringurinn fer Suður (í Föruneyti hringsins) og líka þegar Frodo og Sam faðmast á bátnum í lok Föruneytisins.

En loks er rétt að staldra við atriði sem tengist í raun ekkert gæðum kvikmyndanna sem slíkra. Athugum hvort að það sé eitthvað sem réttlætir það að kvikmyndaframleiðendur taki meistaraverk á borð við þetta sem hér um ræðir og breyti því eftir þörfum og setji það síðan fram í formi kvikmyndar. Ég hef því miður ekki hugsað mikið í grennd við þetta og læt ég því ykkur, lesendur góða, um að hjálpa mér við það.

En þetta var rökstuðningur minn á fullyrðingunni sem ég setti fram fyrst. Þvílíkt og annað eins hef ég aldrei séð áður og það er spurning hvort slíkt verði að sjá í framtíðinni aftur. Því finnst mér við geta talist heppin að hafa fæðst og verið á lífi á tímum þessara afbragðsgóðu kvikmynda.

Endilega látið skoðanir ykkar í ljós, gagnrýnið rökstuðninginn minn ef þið sjáið ástæðu til og endilega hjálpið mér við að svara spurningunni hvort það sé eitthvað sem réttlæti breytingarnar á söguþráðnum.

Ég kveð í bili.

Evklíð, sonur Naukratesar.