Loks kveð ég mér hljóðs, eftir langa þögn.

Ég hef pælt mikið í lífi Tolkiens, m.a. gatlesið út í gegn ævisögu hans (sem ég man ekki hvað heitir…) og er óður í allt sem ég fæ um hann á netinu. Í þessum textum ber á mörgum smáatriðum sem fæstir taka eftir, en ef maður les milli línanna kemst maður að ýmsu. Ég hef margreynt að útskýra fyrir fólki kenningu mína, en mér til mikillar undrunar hef ég talað fyrir tómum eyrum.

Mín kenning (athugið að þetta er aðeins kenning, ekki tilgáta) er sú að Tolkien hafi verið geimfari, og starfað stóran hluta af sinni ævi hjá NASB(National Agency Space Britain) auk þess sem hann virðist hafa stundað ritstörf með atvinnu sinni.
Samkvæmt skýrslum sem ég hef fundið á netinu, starfaði hjá NASB maður að nafni J.R.R.Tolkien, starfsferill hans spannaði rúm 40 ár, þar af 35 sem ræstitæknir.
Að vísu þurfa ræstitæknar hjá NASB og NASA (National Agency Space America) að hafa mikla menntun svo þeir klúðri ekki málunum þegar kemur að því að bóna örgjörva í geimskutlum, þannig að Tolkien hefur haft mikið vit á þessu öllu saman, sem bendir sterklega til þess að hann hafi fengið að fara út í geiminn.

Nokkrar hliðstæður við geimferðir og framandi plánetur má finna í ritverkum Tolkiens, en hann virðist hafa stundað ritstörf samhliða starfi sínu sem geimfari.
Í verkum hans koma fyrir álfar, sem hafa farið til himnaríkis síns eftir að hafa átt sína jarðnesku dvöl á “Miðgarði”, sem er landið þar sem allar sögurnar gerðust.
Þegar álfarnir sigldu til Amanslands (en svo hét þetta himnaríki) eftir að hafa lifað góðu lífi á “Miðgarði”, þá hafa þeir farið út í geiminn. Geimurinn er þannig nokkurs konar himnaríki í heimi Tolkiens, sem bendir sterklega til að hann hafi farið þangað, og haft mikinn áhuga á honum, öðruvísi færi hann ekki að láta hann birtast í verkum sínum.

Margir hafa líka komið fram með þá kenningu að “Gandalfur” (sem ég held að sé nokkurs konar galdramaður) sé Tolkien sjálfur, og endurspegli hann í mörgum sögum hans. Þetta má auðveldlega færa sér í nyt þegar leitað er að tengslum milli hans og Tolkiens. Eftir að þessi Gandalfur hefur í einni sögunni barist við einhvern stóran óvin, deyr hann, og fer til þessa Amanslands þar sem í hann er blásið líf aftur.
Að sjálfsögðu sjáið þið tengslin milli þessa og geimfarans, þeir eru sendir út í geiminn og svífa þar um rétt eins og Gandalfur gerði á sínum tíma. Um daginn fór ég á kvikmynd sem var gerð eftir þessari sögu Tolkiens, og þar sást Gandalfur á ferð sinni milli stjarnanna.

Því miður vill enginn trúa mér, þótt ég sé hérna með góðan rökstuðning sem enginn ætti að geta andmælt. Vitið þið nokkuð skýringa á því?

Og gerið það, ekki byrja að kalla mig hálfvita fyrir þetta, þetta er aðeins mín skoðun.

Hvurslags