Lord of the Rings: The Two Towers Ég ætla að hefja umsögnina á því að vara við spoiler-um því ég er ekkert að halda þeim aftur.

Ég beið fyrir utan Nexus í 5 klst og fékk betri sæti en ég bjóst við. Á undan mér voru u.þ.b. 100 manns og ég óttaðist mjög að lenda í lélegu sæti. En þetta hófst og fimmtudaginn sömu vikuna var ég kominn inn í Laugarásbíó að bíða eftir að þeir opnuðu dyrnar. Ég tók eftir nokkrum gaurum sem stóðu við dyrnar á salnum og virtust ekki eiga heima hérna og mig grunaði að þetta væru dyraverðir(who wouldn´t?). Jæja mér skjátlaðist ekki og þessir sömu menn leituðu á fólki þegar það gekk inn í salinn til að vera vissir um að engin “sjóræningi” væri meðal vorra nörda. Loksins var maður sestur í sætin og nokkrir trailerar sýndir áður en gamanið hófst. Ég gerði þau mistök að fara á klósetið þegar síðasti trailerinn fyrir mynd var sýndur og því missti ég af New Line merkinu : ( En hvað um það, nóg af þessu rugli í mér.

Myndin sjálf er alls engin vonbrigði og á ýmsan hátt betri en FOTR. Mér finnst erfitt að bera þessar tvær saman vegna þess að í FOTR vorum við að kynnast hlutunum, sjá karakterana og kynnt fyrir ýmsum persónum. Í TTT dýfir PJ okkur strax inn í söguna án neinna frekari útskýringa og þeir sem fylgdust ekki vel með FOTR gera sér kannski ekki strax grein fyrir því sem er að gerast. Það voru kannski ýmsir hræddir um að TTT ætti erfitt með að halda við FOTR og sumir treystu jafnvel ekki PJ fyrir að færa Gollum og Ents á skjáinn, en það tókst. Ýmsar sögubreytingar voru gerðar á myndinni en fyrsti hálftíminn er nánast óbreyttur.

**Spoilers**

Myndin hefst á atriðinu þar sem Gandalf berst við Balrog og er nokkuð öflugt atriði. Við sjáum samt ekki hvernig bardaginn endar(ekki núna) og strax eftir þetta komum við að Frodo og Sam.

Frodo var mun minna í þessari mynd heldur en þeirri fyrri og einnig Gandalf. Hringurinn er búinn að taka Frodo mun traustari taki og hefur Frodo breyst til muna og eitt skiptið missir hann sig alveg og ræðst á Sam. Frodo er allt önnur persóna í þessari mynd en Sam er nokkurn veginn eins, alltaf jafn traustur og vinalegur. Eins og flestir vita þá ferðuðust hobbitarnir tveir með verunni Gollum……..hann er hreint út sagt bara snillingur í þessari mynd, besta CGI persóna sem ég hef hingað til séð og röddin sem Andy Serkis tókst að kalla fram á einhver óútskýranlegan hátt gaf mér hroll. Við sáum mun minna af hobbitunum tveimur og Gollum heldur en í bókinni og mér fannst þeir alltof fljótir að ferðast að hliði Mordors, en kannski var þetta nauðsynlegt þar sem ekkert spennandi var að gerast milli þeirra þarna á milli. Gollum/Sméagol samtölin komu vel út og jafnvel fyndin á pörtum, reyndar vorkenndi ég Gollum rosalega stundum. Sérstaklega þegar Sam kom fram við hann eins og græna slímuga ógeðslega veru: )

Merry og Pippin eru allt öðruvísi í þessar mynd og ekki notaðir sem svona „comic relief“ heldur fer Gimli nú með það hlutverk. Þeir eru mun þroskaðri og eiga nokkur góð atriði. Þetta með næluna hans Pippins er á sínum stað og atriðið þegar þeir hitta Treebeard er mjög flott. Ég trúði ekki mínum eigin augum, þarna uppi á tjaldinu var gangandi tré með hendur, rödd og augu en einhvern veginn fannst mér þetta allt passa. Treebeard kom sem sagt frábærlega út og hinir Ents einnig. Sumir hefðu haldið að stórt gangandi, talandi tré kæmi ekki vel út á skjánum en það tókst, það lítur út fyrir að það sé ekkert sem PJ tekst ekki að gera. Entmoot á sér stað eins og í bókinni en nú ákveða þeir að þetta sé ekki þeirra stríða og ákveða að aðhafast ekkert. Merry og Pippin taka þessu ekki vel og Pippin tekst að plata Treebeard til að ganga á staðinn þar sem orkar hafa fellt niður tré og þar fyllist mælirinn hjá hirðingja trjáanna. Treebeard kallar á hina Ents og þeir ráðast á Isengard! Gott fólk ég sá tugi trjáa ráðast á Isengard! Ég sá tré sparka okum út og suður, ég sá tré kasta steinum í Orthanc og sökkva Isengard í vatni og ekkert af þessu kom illa út. Þetta er ótrúlegt, eitt flottasta atriði kvikmyndasögunnar. ATH ég veit að munur er á Ents og trjám en þetta lýsir mun betur hversu undarlegt þetta var.

Nú að Aragorn, Gimli og Legolas. Nú koma hæfileikar Aragorns sem Ranger mun betur fram og í einu atriðinu rekur hann í gegn flótta hobbitanna frá bardaganum milli Uruk-hai og manna Rohan, inn á milli sjáum við hvernig þetta gerðist í alvöru. Þetta atriði minnir soldið á atriðið í Boondock Saints þegar Willem Dafoe rekur í gegn einn byssubardagann sem bræðurnir áttu. Aragorn er mun mikilvægari karakter í þessari mynd og með tímanum sér maður að hann er að kyngja þeim stóra bita að hann sé ókrýndur konungur Gondors. **Major Spoiler** Það var eitt atriði sem mér fannst ónauðsynlegt en á leið fólksins til Helm´s Deep er ráðist á þau af orkum á wargs og Aragorn flýgur niður klett og látið líta út fyrir að hann sé dáinn en snýr síðan aftur til Helm´s Deep.**End of major spoiler** Ég veit ekki tilganginn með þessu atriði en það kom samt sem áður vel út. Hins vegar mátti sleppa þessum senum þar sem við hverfum aftur til Rivindell og heyrum samtöl Elronds og Arwen. Mér fannst í lagi að sýna að Aragorn hugsaði til Arwenar en algjör óþarfi að blanda Elrond inn í þetta.

Legolas finnst mér ekki vera jafn spennandi og hann var í fyrri myndinni. Það sést meira af honum og Gimla núna og er Gimli notaður sem aðhlátursefni til að brjóta upp spennunni sem ríkti stundum í loftinu. Þeir tveir eru bara á sínum stað og gegndu sínum hlutverkum. Reyndar voru tvö atriði sem stóðu upp úr hjá Gimla og eitt hjá Legolas, öll eiga þau sér stað Í Helm´s Deep. Þ.e.a.s. atriði þar sem Legolas talar við Aragon á Quenya og þið áttið ykkur strax á hvaða atriðum ég á við í sambandi við Gimla þegar þið sjáið bardagann við Helm´s Deep.

Atriðið þar sem Aragorn, Gimli og Legolas hitta Gandalf er öflugt og PJ skilar því í myndinni að, eins og í bókunum, Gandalf mundi ekki í fyrstu hvaða nafni hann var kallaður og það rifjast ýmislegt upp þegar þeir kalla hann Gandalf. Einnig fáum við að sjá í „flash back“ þegar Gandalf sigrar Balrog. Gandalf er mun minna í TTT heldur en í FOTR en á samt sem áður ýmis góð atriði. Þar ber helst að nefna endurkomuna en einnig atriði þar sem hann vekur Théoden frá álögum Sarumans og gerist eins konar særingarmaður, þar sem Théoden er að syrgja lát sonar síns stendur Gandalf hjá honum og segir ýmislegt hugljúft en lang besta atriði Gandalfs á sér stað í Helm´s Deep og kem að því seinna. Við fylgjumst smá með Gandalf í Edoras en síðan kveður hann bara, segir bless og hverfur(ekki svona asnalegt í myndinni).

Théoden og Éowyn komu vel út. Bernard Hill fór vel með hlutverk sitt sem Théoden og kæmi mér ekki á óvart ef hann hlyti tilnefningu til óskars. Þegar við sjáum hann fyrst er hann gamall, ógeðslegur „fallinn“ konungur og getur varla talað en eftir smá „hvatningu“ frá Gandalfi(sem við höfum öll gott af) er hann orðinn stoltur konungur og er stórglæsilegur. Edoras kom mjög vel út og þar sást greinilega hvað þjóðin var búin að þurfa að ganga í gegnum mikið. Miranda Otto var glæsileg og falleg sem Éowyn og sást að hún hafði tilfinningar til Aragorns en einnig að hún sætti sig við að önnur væri nú þegar í spilinu. Eftir smá rökræður er loks stefnt til Helm´s Deep áður en komið er að Helm´s Deep er ráðist á þau af flokki orka á wargs en að lokum er komið að Helm´s Deep.

Konur og börn flúðu í hellana en mennirnir, allir frá ca. 10-70, tóku þátt í orustunni. Við sjáum unga drengi undir búa sig fyrir blóðugan bardaga gegn þúsundum af Uruk-Hais og þá sést fyrir alvöru hversu veikbyrð þjóð Rohans var orðin. Allt virtist vonlaust, enginn mannanna trúði að þeir ættu einhvern möguleika, meira að segja vinur okkar Legolas efaðist og lendir í smá deilu við Aragorn sem mér fannst vera flott atriði.

Áður í myndinni vorum við búin að sjá Elrond og Galadriel ræða saman um hvort álfarnir ættu að taka þátt í þessu stríði og viti menn álfarnir sendu aðstoð. Þessir álfar sem komu sögðust senda kveðju frá Rivendell en mér fannst þetta vera álfar frá Lórien þar sem Haldír var meðal þeirra, kannski bara frá báðum stöðum. En loks hefst bardaginn og ég get lofað ykkur að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum, þessi fjöldi, 10.000 Uruk-Hais saman komnir í þeim eina tilgangi að drepa og eyðileggja, þetta var massíft. Auðvitað gengur ekki allt upp eins og mennirnir vildu hafa það og smám saman hörfa mennirnir innar og innar. Í dögun eru Théoden og Aragorn ásamt fleirri mönnum lokaðir inni en atriðið þar sem þeir ákveða að ríða inn í óvina þvöguna er bara magnað. Théoden í þessum glansandi herklæðum í fararbroddi og Aragorn á eftir honum, ríðandi á hesti inn í þvöguna………..bara snilld. Stuttu eftir þetta sjá Aragorn og Théoen Gandalf í fjarska uppi á hæð og þetta er magnaðasta(kannski ekki besta) atriðið, þegar Gandalf og Éomer ríða niður hæðina með herskarann á eftir sér niður og til að mæta óvinunum, það er á þessum stundum sem ég vill bara ganga að PJ og faðma hann: )

Með loka atriðunum fara Gollum og Smégol að rífast og ég brosti gleitt þegar þeir áttuðu sig að þeir gætu ekki drepið Sam og Frodo og ákváðu því að fara með þá „to her “.

Samantekt:

Myndin er sannkölluð upplifun og marr festist algjörlega í myndinni og helsti gallinn var að hún var of stutt og vill því fá Extended Cut í hendurnar núna. Það var náttúrulega stór plús að ég var að sjá hana með öllum hlestu aðdáendum LOTR á Íslandi og því var stemmningin mögnuð. Ég á mjög erfitt með að átta mig á því hvort þessi sé betri en FOTR en ég lofa ykkur að hún gefur henni ekkert eftir. Leikurinn er frábær og tónlistin brilliant. Um fram allt vill ég þakka Peter Jackson innilega fyrir þessar myndir, ég get ekki beðið eftir ROTK, en það er nóg í millitíðinni til að hlakka til; ROTK trailerar, 1. DVD útgáfan, Extende Cut o.fl.

Pottþétt: ****/****