Við ungu stúlkurnar erum oft í útvíðum buxum, gallabuxum, flauelsbuxum eða þessum þarna teygjanlegu sem eru oftast svartar. Þær eru alveg geggjaðar og fara næstum öllum vel. En að sjálfsögðu er um fleira að velja. Í búðinni Spútnik á Laugarveginum (og bráðum í Kringlunni) eru til sölu þessar víðu, flottu buxur sem maður bindur utan um sig. Þær eru æði, ég mæli með þeim. Þar eru líka svakalega flottar buxur í skopparastíl. Þær eru úr svipuðu efni og vindjakkar og fást í öllum mögulegum litum. Svartar sjást reyndar oftast. Útvíðu buxurnar eru mun þrengri (að ofan, auðvitað) og maður þarf að vera frekar lappalangur til að þær smellpassi. En ekki örvænta þó þær séu of síðar, það má auðveldlega stytta þessar elskur. Spútnik buxurnar eru allar í sömu stærð, allavega þessar sem maður bindur. Þannig að buxnatískan okkar er frekar frjáls, maður getur verið í þröngu eða víðu og hvorugt er púkó. Þannig að það er um að gera að finna rétta stílinn!