Fimm fyrirsætum hefur verið meinuð þátttaka í tískuvikunni í Madrid á Spáni á grundvelli þess að þær séu of grannar en aðstandendur tískuvikunnar hafa sett þau skilyrði fyrir þátttöku fyrirsæta að þær falli að viðmiðunum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um heilbrigða líkamsþyngd. Þá vísa forsvarsmenn tískuvikunnar “Pasarela Cibeles” einnig til spænskra laga um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn átröskunum.

68 fyrirsætum sem ætluðu að taka þátt í tískuvikunni var gert að stíga á vigtina og að því loknu var kjörþyngd þeirra og hlutfall líkamsfitu reiknað út. Sem fyrr segir var síðan fimm spænskum fyrirsætum meinuð þátttaka.

Áhrifamenn í tískuheiminum í París og New York hafa gagnrýnt aðgerðirnar og sagt þær hlálegar. “Vilji Jean-Paul Gaultier hafa feitar stúlkur í sýningu sinni þá mun enginn stöðva hann. Þegar Galliano hefur stúlkur í sýningu sinni sem ekki eru yfirmáta fallegar þá segir enginn neitt,” segir Didier Grumbach, forseti frönsku tískusamtakanna.

Þá segir Stan Herman, forseti samtaka bandarískra tískuhönnuða aðgerðirnar bera vott um mismunun.

Stúlkur sem tóku þátt í tískuvikunni í Madrid á síðasta ári lýstu því opinberlega yfir að þær gengju í táningastærðum og ættu á hættu að missa vinnuna þyngdust þær.
(MBL)