Sæl og blessuð, öll sömul.
Ég var að spá í því hvers vegna flest dagblöð, sjónvarpsdagskrár og sjónvarpsstöðvar eru með myndir úr tískuheiminum, þar sem yfirleitt birtast þær myndir sem eru svæsnastar af þeim sem komu fram á sýningunum sjálfum og niðurlægja konur einna mest.
Ég held að hér sé einhver stórmisskilningur á ferðinni. Líklega er til fólk sem hefur áhuga á tísku og vill sjá tískusýningar og pæla í því hvernig hægt er að búa til ný og skemmtileg föt. En er þetta ekki misnotkun á tísku að klippa úr henni afkáralegustu myndirnar og birta þær þar sem allir sjá, hvort sem þeir hafi áhuga á tísku eða ekki? Fyrir mig, sem aldrei fer á tískusýningar og fer ekki oft út í búð að kaupa mér ný föt, þá finnst mér mjög pirrandi að þurfa alltaf að lenda í þessari ,,tískuniðurlægingu" þegar ég fletti dagblöðunum, sjónvarpsdagskránum eða sé úr tískusýningum í sjónvarpi. Þær myndir sem ég sé oftast lýsa sér aðallega í því að það sést í bert hold á konunum, sérstaklega í brjóstin á þeim og þær eru gerðar ákaflega afkáralegar. Er það nokkuð tíska? Að mínu mati þá er það komið út í klám og klám er BANNAÐ!!!
Ég held að þeir sem sletta þessu inn í dagskrána sína eða blöðin standi í þeirri trú að þetta sé eitthvað sem fólk vill sjá en ég ég stend í þeirri trú að það sé misskilningur. Ég vil ekki sjá þetta, ég vil ekki að börnin mín alist upp við þetta, ég vil ekki að foreldrar mínir sjái þetta og ég vil bara alls ekki að nein manneskja þurfi að sitja uppi með þennan misskilning allt í kringum sig.
Ég vona að þessi grein geti leitt til leiðréttingar á þessum stóra misskilningi og fólk fari bara annað hvort að sleppa þessum tískusýningarafmyndun eða sýni einhverja betri mynd af tískuheiminum.
Með von um betri heim,
Blomster.