Þessi frétt er tekin af <a href="http://mbl.is/mm/frettir/show_framed_news?cid=10 0&nid=834399“>mbl.is</a>
Starfsmenn bresku verslunarkeðjunnar Marks & Spencer vinna nú að framleiðslu á flíkum sem verða þeim eiginleikum gæddar að geta varað við yfirvofandi tískuslysi. Viðvörunin verður gefin af tölvukubbi sem koma á fyrir í fötunum og ætlað er að skanna allar flíkur viðkomandi til þess að ganga úr skugga um að þær eigi saman. Viðvörun við óæskilegri litasamsetningu væri gefin með hljóðmerki, svo dæmi sé tekið.
Hugsanlegt er að hægt verði að nota tölvukubb til þess að vara við fleiri óhöppum, til dæmis ef flíkur eru settar í þvottavél og stillt er á of háan hita. Einnig er hermt að forsvarsmenn M&S séu að athuga hvort koma megi tölvukubbum fyrir í matvælum sem vari neytendur við sé varan komin fram yfir síðasta söludag.
Netmiðillinn thisislondon.co.uk vitnar í viðtal í dagblaðinu The Times við nýjan aðalframkvæmdastjóra M&S, Roger Holmes. Kveðst hann ætla taka tæknina í þjónustu verslunarinnar, sem hingað til hefur verið þekktari fyrir íhaldssemi. ”Ég hef fullan hug á að nýta tækninýjungar og eftir því sem tölvukubbar verða ódýrari er auðveldara að koma þeim fyrir í matvælaumbúðum og fatnaði,“ er haft eftir Holmes í Times.
”Til skamms tíma var það viðhorf manna að tæknin myndi ekki leyfa slíkar hugmyndir fyrr en eftir fjöldamörg ár, en nú er hins vegar svo komið að við verðum að framkvæma og láta reyna á þessa möguleika," segir hann.

Er þetta eitthvað sem er spennandi? Að láta tölvukubb stjórna því í hvað við förum á morgnana. Hvernig verður framtíðin? Allir eins klæddir og tölvur stjórna tískunni…. Mér finnst þetta ekki spennandi framtíð!
Kv. EstHer