Dömur, nú leita ég til ykkar í örvæntingu!

Ég hef alltaf átt í vandræðum með að vera dama. Og þá meina ég ekki dama á gamaldags, íhaldssaman hátt heldur bara gangvart einföldustu hlutum. Hér koma nokkur dæmi:

Ég get varla borðað eina máltíð án þess að sulla niður, hvort sem það er á sjálfa mig eða á gólfið. Eða þegar ég er með sítt hár þá annaðhvort fer það uppí mig með matnum eða það fer ofaní matinn þegar ég er að teygja mig eitthvað, eða ég treð brjóstunum eða olnboganum á mér ofaní diskinn í sömu aðgerðum.

Sama í hvaða formi ég er þá hef ég alltaf svitnað mikið. Allsstaðar. Öfugt við aðrar stelpur þá hef ég aldrei þolað að kaupa mér skó, vegna þess að það þýðir að ég þarf að labba frá búð úr búð í skóm, sem tekur tíma. Ég svitna svo á tánum að ég þori varla úr skónum mínum til að máta aðra skó vegna þess að ég er svo hrædd um að táfýlan gjósi upp! Ef ég er að hafa mig til þá svitna ég alltaf þegar ég er að setja meik eða einhvern farða á mig. Eyrun á mér verða eldrauð þegar ég er að því og sérstaklega þegar ég set í mig eyrnalokka. Ég svitna líka undir höndunum svo ég reyni alltaf að klæða mig síðast í outfittið svo ég verði ekki búin að svitna of mikið í það þegar ég er loksins búin að farða mig. Svo ef ég er að fara eitthvað þá held ég áfram að svitna á staðnum t.d. í lófunum og ef ég fer t.d. að dansa þá svitna ég sko big time. (Eftir að hafa lesið yfir þetta dettur mér í hug stress?)

Ég hef alltaf verið klaufi á hælum og hef aldrei gengið í þeim svona hversdags. Ég veit að þetta er bara æfing en ég á samt sem áður bara tvö pör og ég virðist alltaf ná því að skemma hælana. (Ég tek half-boots og stígvél ekki með). Mér finnst ég líka vera tilgerðarleg á hælum, eins og ég sé að reyna að vera eitthvað.

Klæðnaður almennt er svo bara hulin ráðgáta. Ég hef reyndar verið í stærð 8 - 20 og tel það helsta vandamál mitt að ég virðist ekki geta safnað mér nægilega mikið af flíkum vegna þess að ég er aldrei í sömu stærðinni. (Hvort sem ég er að grennast eða fitna). Þrátt fyrir að ég væri komin í kjörþyngd og var bara orðin grönn og fín þá varð ég ekkert meiri pæja fyrir það. Jújú kannski aðeins. En mér leið aldrei vel þegar ég hafði mig eitthvað meira til en vanalega, leið alltaf bara eins og kjána. Ég vann líka á leikskóla sem er ekki umhverfi fyrir fallegar flíkur (nema þú viljir fá slef, hor, leir, mat og ýmislegt annað á fallegu fötin þín) svo ég tel það hafi pottþétt haft áhrif, en ég fann mér samt sem áður aldrei minn stíl. Ég var yfirleitt í gallabuxum eða treggings, bol og gollu, strigaskóm og kannski jakka. Ef ég kaupi mér eitthvað þá kaupi ég svart því það fer við allt og þá er minna tekið eftir því ef ég nota flíkina oft. Reyndar er fjárhagur stór partur af þessu líka því nú er ég ráðsett kona með tvö börn og peningarnir mínir orðnir að ráðstöfunartekjum heimilisins.


Ég er reyndar svolítið picky á snyrtivörur. Alltaf ef ég kaupi mér eitthvað þá er það eitthvað flott merki því ég kaupi snyrtivörur vegna þess að þá er ég að tríta sjálfa mig og ég geri það ekki með einhverju cheap ass drasli. Samt hef ég aldrei náð að verða svona gella sem er alltaf með snyrtibudduna í veskinu. Ef ég set hana í veskið mitt þá hef ég aldrei fundið tækifæri til að taka hana uppúr (ég set ekki maskara yfir maskarann sem ég er með, eða meik yfir það sem ég er með? ég skil ekki tilganginn með þessu). Plús, ef ég er með snyrtibudduna í veskinu en þarf svo að nota það heima þá þarf ég alltaf að vera að færa allt á milli, finnst þægilegast að vera bara með budduna heima við vaskinn þar sem ég veit alltaf hvar hún er og hvað er í henni. Eiga stelpur kannski tvöfalt af öllu? Svo hef ég aldrei náð að eignast t.d. marga augnskugga vegna þess að ég hef ekki talið snyrtivörur sem nauðsynjar þegar ég er að ráðstafa peningunum mínum. Eitt sem ég væri til í að vita, hversu miklum peningum eruð þið að eyða í föt eða snyrtivörur á mánuði?

Ég á nokkur naglalökk og hef kannski ekki oft, en þó nokkrum sinnum gert tilraunir til þess að naglalakka mig. Ég á meirasegja svona dót til að setja á milli tánna :) En sama hvað ég reyni, þá fer alltaf allt útfyrir! Svo er ég búin með eina hendina og skoða hana, þá hef ég rekið mig í einhversstaðar og þarf að laga kannski 2 - 3 putta. Þá tek ég bómull og naglalakkahreinsi en einhvernveginn næ ég svo alltaf að taka naglalakkið af puttunum sem ég er EKKI að reyna að laga, bómullinn festist í naglalakkinu og þetta verður heljarinnar mess og ég þarf að taka allt naglalakkið af og byrja aftur. Svo hef ég nokkrum sinnum lagað naglaböndin og í eitt skiptið virkaði það svo vel og ég bara vá hvað ég er með eitthvað mikið af naglaböndum… Svo leit ég yfir það sem ég hafði verið að gera og þá var ég bara búin að grafa holu í nöglina, þetta var svo gott áhald að það tók skóf bara nöglina af mér án þess að ég tæki eftir því! Svo er ég að pæla hvort þetta sé eitthvað sem þið gerið reglulega eða bara stundum? Eins ef ég safna nöglum og þær eru orðnar ágætlega langar fyrir minn smekk þá fæ ég bara endalaust af sorgarröndum svo ég enda bara á því að klippa þær. Ef ég er með langar neglur og naglalakk þá verða þær bara skítugar undir (þó það sjáist ekki með naglalakkinu á en mér finnst það engu að síður ósmekklegt).

Hárið er síðan önnur ráðgáta. Ég er yfirleitt stutthærð eða með millisítt hár þegar ég er grönn, síðara þegar ég er með eitthvað utaná mér. Ég er með náttúrulega slétt hár, ekki rennislétt en samt sem áður frekar slétt. En hvernig sem það er dettur mér aldrei neitt í hug til að setja í það eða gera við það. Eina sem ég geri er tagl, hnútur eða úfinn hnútur (en er ekkert voðalega góð í því samt). Ég á ekki sléttujárn þó mig hafi langað í það í langan tíma. Ég er bara alltaf að hugsa ,,á ég eftir að nota það eða ekki" og á hverjum tíma fyrir sig finnst mér skynsamlegra að eyða peningunum í eitthvað annað. Tek það fram að ef ég kaupi sléttujárn á annað borð vil ég að það sé flott merki og frekar að það kosti meira og endist lengur heldur en eitthvað drasl.

Ég er eiginlega aldrei með skartgripi, nema til hátíðarbrigða. Ég kaupi helst settlega en litglaða skartgripi því ég er yfirleitt í öllu dökku og reyni að peppa outfittið upp þannig.

Svo eitt sem ég skil ekki… Þær stelpur sem eru vel til hafðar, jafnvel fínar dags daglega, í hælaskóm, farðaðar og með skartgripi… Hvað gerið þið þá þegar þið eruð að hafa ykkur til? Ennþá meiri farði og ýktara útlit eða hvað? Ef ég væri svona alla daga þá væri enginn munur á mér fín og ekki fín.

Svo ég bið ykkur dömur, gellur, jafnvel skinkur að hjálpa mér! Ég er samt ekki að biðja um matarræðis eða þyngdarstjórnunarráð. Ég hef gengið í gegnum tvær meðgöngur, verið í súperformi og engu formi. Ég veit alveg hvað ég þarf að gera og ég geri það þegar ég er tilbúin. Ekki fara að segja mér að borða hollar og hreyfa mig. Ég er að biðja um dömuleg tips, hvernig þið gerið hlutina og hvernig funduð þið ykkur sjálfar, ykkar stíl?

Er ég bara algjörlega gerilsneydd hæfninni til að verða dama? Eða leynast kannski fleiri þarna úti eins og ég?

Takk fyrir að lesa ;)