Ég var að enda við að horfa á keppnina ungfruisland.is og ég verð nú að segja að þetta var hin allra besta skemmtun. Held að ég hafi sjaldan séð jafn hallærislega keppni satt að segja.

Í fyrsta lagi þá veit ég ekki betur en að aðstandendur þessarar keppni hafi upphaflega ætlað sér að brjóta upp hina hefðbundnu Ungfrú Ísland keppni sem var gagnrýnd fyrir að vera gamaldags og með ofuráherslu á glamúr og fegurð. Persónuleiki stúlknanna var ekki mjög áberandi þar. Þessu átti ungfruisland.is að breyta. Keppnin átti að vera nútímaleg án allra klisja og mikið var rætt um að stúlkurnar væru allar sterkir karakterar, sjálfstæðar, gáfaðar o.s.frv. Ekki gat ég þó í þessari keppni séð fara mikið fyrir persónuleika stúlknanna.

Sýningin var samsett af stuttri kynningu af stúlkunum og síðan nokkrum tískusýningum með tilheyrandi skrípalátum. Í fyrstu tískusýningunni var áherslan greinilega á kynímyndina; stúlkurnar áttu að vera hrikalega sexy, dillibossuðust um sviðið með áhugaverðum lesbíutöktum og sleikjuputtum. Sumar voru nú frekar stífar verð ég að viðurkenna á meðan aðrar nutu sín ágætlega. Allt fannst mér þetta nú samt sem áður ósköp klént og gervilegt. Önnur tískusýning, sem mér fannst einstaklega skemmtileg, var sýningin þar sem sportfötin voru sýnd. Við systurnar sátum hér og gjörsamlega örguðum úr hlátri yfir þessum snilldarhæfileikum í jazzballett-flashdance stúlknanna. Sérstaklega var lokaatriðið í þeirri tískusýningu alveg frábært, en þar kom ein og ein fram á sviðið og sýndi eitt glæsispor áður en þær svifu út af og hurfu sjónum.

Sýningin í heild minnti ýmist á langt Popptívímyndband eða þá að maður hvarf aftur til níunda áratugsins í nostalgíudraumum. Sjaldnast vissi maður hver stúlknanna væri hver. Hattar og hárgreiðsla ofan í augu gerði manni ekki auðvelt fyrir að greina á milli og andlitsmyndirnar sem birtust á skjánum til að “auðvelda” manni sms kosninguna voru svo sannarlega ekki að hjálpa til. Allavegana vissi ég aldrei hver það var sem var frammi á sviðinu hverju sinni.

Að mínu mati er þessi keppni engin minni gripasýning heldur en Ungrú Ísland. Í stað glamúrsins og sakleysisímyndarinnar í Ungfrú Ísland er hér í staðin á ferðinni sexykroppa ögrandi djammlook. Kvenlíkaminn er ekkert minni söluvara í þessari keppni en öðrum.
Kveðja,