Það eru margir forvitnir um að panta á netinu því við viljum fæst vera í eins fötum og allir hinir. Sumum finnst þetta samt alltof flókið og nenna hreinlega ekki að standa í þessu og vegna margra fyrirspurna, bæði sem koma hér á huga og líka persónulega ætla ég að reyna að gera smá leiðarvísi.

Að finna fötin. Það eru endalausar “online-shops” til. Það er samt mikilvægt að velja virta og góða verslun sem er ekki að fara að stela af þér öllum peningunum! Þær þekktustu eru sennilega Ebay og Amazon og eru báðar mjög góðar, þótt ég mæli frekar með Ebay fyrir fatnað og Amazon fyrir bækur, geisladiska, dvd og annan varning. Einnig tel ég öruggt að versla hjá opinberum / official síðum fatamerkja, svo ef þið haldið mikið upp á fatamerki sem er kannski ekki hægt að fá hér á landi þá er gott að googla það og gá hvort að “official” heimasíða merkisins er með netverslun.

Það eina sem þarf að athuga er að búðirnar sendi til Íslands, það er mjög leiðinlegt að vera búin að finna fullt af dóti sem maður langar í og svo, úps, hún sendir ekki til Íslands! Þá er oft hægt að nota ShopUsa en það er dýr þjónusta og það er ekki alltaf hægt að nota hana, því sumar búðir krefjast þess að kortið sem maður borgi með sé líka Bandarískt eða frá þeim löndum sem þeir samþykkja.

Á ebay skrifar maður bara inn það sem maður vill finna í leitarrammann á forsíðunni, t.d. bara ‘dress’. Þar sem dress eitt og sér skilar 269747 niðurstöðum vill maður þrengja rammann aðeins, t.d. með því að setja einhver lit “red dress”, “green dress” eða efnið (satin, chiffon, silk) eða sniðið (babydoll, halterneck) eða einfaldlega merkið á fötunum sem maður er að leita að. Þegar maður leitar að einhverju kemur venjulega listi niður síðuna vinstra megin á skjánum þar sem stendur “narrow your results”. Þar myndiru t.d. velja hvort þú ert að leita að barnakjól, kvenmannskjól, dúkkukjól, fimleikakjól…. Þið skiljið hvert ég er að fara.
Ef þú finnur flík á ebay sem þér finnst flott er oft gott að fara í “View seller's other items” eða “View seller’s store” og þá er oft eitthvað fleira sem manni finnst flott. Kosturinn við að kaupa fleiri en eina flík af sama gaurnum er að þá er hægt að sameina sendinguna og maður þarf að borga minna í sendingarkostnað.

Til að kaupa flík sem þú hefur fundið þarftu að klikka á hana og yfirleitt er valmöguleikinn “Add item to shopping bag / cart” við hliðina á stærðarvalmöguleikum. “shopping bag” eða “shopping cart” er svo yfirleitt einhverstaðar uppi í hægra horninu (mismunandi eftir síðum þó) og þar klikkaru til þess að sjá hvaða föt þú ert komin með í körfun og hvað þau kosta samtals.

Á ebay er þetta aðeins öðruvísi því það eru ekki bara föt sem maður keypt þegar maður vill því það eru uppboð á fötunum. Þú getur séð hvað er langur tími eftir af uppboðinu þar sem stendur “time left”.
Best er að bjóða ekki í fötin strax heldur bíða þangað til það er stutt eftir af uppboðinu (helst ekki nema kannski mínúta en auðvitað getur maður það ekki alltaf!). Því ef flíkin er eftirsótt (t.d. merkjavara sem er verið að selja ódýrt) þá munu vera nokkrir að berjast um hana á síðustu sekúndunum og ef þú ert einn af þeim þá er rugl að maður hafi gert tilboð nokkrum dögum áður en uppboðinu líkur, því þá er maður bara að hækka verðið, etv. fyrir sjálfan sig!

Til að borga fyrir fötin er nauðsynlegt að eiga kredit kort. Fæstar búðir bjóða upp á aðra þjónustu. Á Amazon er hægt að nota kreditkortið beint þar sem öll viðskipti fara í gegnum Amazon og það er örugg síða.
Ebay hins vegar er bara milli aðili og þú ert að versla við alls konar fólk út um allan heim þar. Þess vegna notar maður Pay Pal á ebay. Þá nær fólkið ekki beinu sambandi við kreditkortið þitt, Pay Pal tekur pening af kortinu þínu og lætur fólkið fá hann. Þú þarft að búa þér til account á Pay Pal áður en þú getur farið að versla á Ebay. (paypal.com)
Það er líka nauðsynlegt á flestum, ef ekki öllum vefsíðum að maður búi sér til account þar svo maður geti verslað.

Þegar pakkinn kemur til Íslands stoppar hann yfirleitt í tollinum. Þá færðu bréf til þín frá póstinum þar sem stendur að þín bíði gjaldskyld sending og þú þarft að bregðast við því, Pósturinn þarf að fá sönnunargögn fyrir því hversu mikið dótið kostaði svo hann geti reiknað út hvað þú þarft að borga. Nokkrar leiðir eru færar þarna.
A)Þú getur farið með bréfið niður á tollmiðlun (Stórhöfða), skrifað undir það og látið fólkið í afgreiðslunni hafa. Þá ertu að samþykkja að sendingin verði opnuð til þess að leita að reikningi. Ef þú verslaðir á Ebay þá er mjög ólíklegt að sendingin innihaldi reikning svo ég myndi ekki gera þetta þá.
B)Þú getur sent email þar sem þú tekur annað hvort reikninginn/kvittunina eða paypal kvittunina sem þú fékkst senda í emaili þegar þú keyptir dótið og forwardar því á tollmidlun@postur.is og í “subject” seturu númerið á pöntunni (mjög mikilvægt). Númerið á pöntuninni samanstendur af tveimur bókstöfum, 9 tölustöfum og endar held ég alltaf á “is”.
C) Þú getur prentað út þetta email sem þú fékkst frá þeim sem þú keyptir af eða Paypal kvittunina og látið fólkið í afgreiðslunni hafa. Það er ágætt að gera það niður á stórhöfða í tollmiðluninni, þar er sér tölva fyrir þá sem eru að kaupa.
Upphæðina sem þú þarft að borga er hægt að reikna út á þessari vefsíðu.

Ég ætla ekkert að fara nákvæmlega út í nauðsyn þess að velja rétta stærð og þannig, munið bara að lesa vel það sem stendur um flíkina, til dæmis hvort hún sé ný eða notuð, hvort það vanti tölu á hana eða hvort að myndin sé “af svipaðri flík en ekki nákvæmlega eins”.

Ég vona að ég hafi gert þessu nógu vel skil, endilega spyrjið bara ef það er eitthvað…