Í gærkvöldi var ég að horfa á Gettu betur frá því ´89 held ég og hef kíkt aðeins á þættina sem voru á undan. Þó svo að efnið sé ekki skemmtilegt í þessum þáttum, hef ég bókstaflega grenjað úr hlátri. Fötin eru ógeðsleg!

Fyrir það fyrsta voru “kúkabuxur” eða pokabuxur ofsalega vinsælar ásamt fullt af plastskartgripum og svitaböndum. Skærir litir og allt úr joggingefnum voru það heitasta á tímabili, krumpugallarnir og apaskinnsgallarnir voru virkilega “inn” og síðan komu snjóþvegnu gallafötin. Oftast voru buxurnar svo þröngar að neðan að það lá við að það þyrfti að sauma buxurnar utan um ökklana á manni til að koma manni í þetta. Silkiblússur, allir litir, með vængjaermum og axlapúðum dauðans og míní pils (sem voru oftast bara eins og breitt belti).

Það er nefnilega staðreynd að tískan gengur í hringi og þá er ég bara að spá í. Haldiði að það sé ekki örugglega mjööög langt þangað til að þessi tíska kemur aftur? Til dæmis þegar hippatískan reið yfir hér fyrir nokkrum árum og útvíðar buxur og litríkar mussur voru það flottasta ásamt mjög þykkbotna skóm og viðeigandi hálsmenum sem náðu niðrá nafla, þá fengu foreldrar margra kast. Þeim þótti þetta svo ógeðslega halló að það hálfa var nóg. Okkur fannst við hins vegar vera alveg ógeðslega kúl og pældum ekkert í því sem foreldrarnir sögðu.
Ég fór að pæla í þessu í gærkvöldi. Hvenær ætli barnið mitt (sko þegar ég er búin að eignast eitt slíkt) fari á djammið í bleikum hælaháum skóm, grænum sokkabuxum, fjólubláu joggingpilsi og gulri joggingpeysu með svitaband, græna plast-smellueyrnalokka sem passa voða vel við rauðu misstóru plastperlufestina. Svo til þess að verða ekki kalt, er farið í snjóþveginn gallajakka með axlapúðum!

Þetta var bara svona smá pæling hjá mér. En ég mæli eindregið með að þið rifjið upp með vinum ykkar öll ógeðslega ljótu fatatímabilin í lífi ykkar. Trúið mér, þið eigið eftir að grenja úr hlátri :o)
Kv. Peewee.
P.s. Ég er sko fædd ´81 þannig að ég er ekkert að muna eftir fötum lengra aftur en til ´85. En endilega komið með umræðu um “ljótra-fata-tímabilið”. Bara til að létta yfir manni í skammdeginu :)