Pælingar mínar um tísku Ég er ekki hrifin af þessu fyrirbæri sem kallast tíska. Jú ég viðurkenni það alveg að ég er hrifin af sumu sem er í tísku í dag, og sem hefur verið í tísku, en ég mun aldrei skilja þetta með að fylgjast með tískunni eða vera alltaf í tísku.

Ég hef séð fólk hérna á Huga spyrja aðra notendur hvað sé og hvað sé ekki í tísku. Ég spyr aftur á móti til hvers? Af hverju þarf fólk að vita hvað sé í tísku? Af því að
A) Ef manni bráðvantar að vera alveg eins og allir aðrir, þá er nóg að kíkja í Kringluna og sjá hvernig allir eru
B) Fólk á að klæða sig eins og það vill. Það er fátt jafn hallærislegt og að sjá tvær stelpur í nákvæmlega eins fötum. Eins skóm, eins sokkabuxum, eins allt-of-stuttu-pilsi-í-janúar, eins skyrtu og með eins hatt. Eða hvað sem er. Mig langar að æla.


Mér finnst þetta vera ótrúlegt, að sjá 12 ára stelpur í pilsi sem passar betur sem trefill, með ógeðslega appelsínugula gervibrúnku með aflitað hár og makeup sem minnir helst á Picasso verk.


Merkjavara.
Bara af því að einhver flík / aukahlutur komi frá einhverjum flottum framleiðanda þýðir ekki sjálfkrafa að varan sé æðisleg. Alveg eins og að illa þekktir low budget framleiðendur geta gert alveg mjög flott föt. Fólk sem er eingöngu að eltast við einhver merki ætti að víkka aðeins út sjóndeildarhringinn og skoða fleira. Því föt þurfa ekki að kosta mikið. Ég held að enginn sé að fara að hætta að umgangast þig því þú átt ekki vans skó eða tösku eins og er framan á nýjasta tölublaði Vogue.

Svo er hin hliðin. Fólk sem reynir og reynir og reynir að vera öðruvísi, svo fólk taki alveg örugglega eftir því að það sé öðruvísi. Þetta byrjaði með einhverjum nokkrum að reyna að vera öðruvísi en restin. Í MH til dæmis er þessi “öðruvísi” hluti orðinn svona sirka helmingurinn af skólanum. Ég er ekkert að skíta á MH, ég tek hann bara sem dæmi af því að það er skólinn minn. En come on, þetta er ekkert öðruvísi lengur. Þetta er alveg eins.

Nú geri ég mér vel grein fyrir því að fólk á eftir að ausa skít á mig fyrir þessa grein. Ég á það sterklega á hættu að vera kölluð feitur bitur feministi, en svo er ekki. Ég er þannig að ég klæðist því sem mér finnst þægilegt. Oftar en ekki má sjá mig í karlmannsfötum, mér finnst sniðin oft þægilegri. Víðar gallabuxur, til dæmis. Í augnablikinu er ég í hvítri skyrtu og lokuðu vesti, en ég er sjaldan í því lengur eftir að sumar af vinkonum mínum fóru að klæða sig í eins. Ég kaupi mér föt sem mér finnst þægileg, flott-en-ekki-eins-og-allir-hinir-eru-í, og ég byrja ekki á því að skoða merkið, áður en ég máta flíkina. Ég er ekki nein sérstök “týpa”, og ég sé ekkert að því að eiga peysu í mörg ár. Uppáhalds peysan mín hefur verið í mikilli notkun síðastliðin 4 ár.


Það sem ég vildi koma á framfæri með þessari grein er eingöngu mínar skoðanir. Mér finnst það óendanlega hallærislegt að til dæmis henda út fötum af því að þau eru “svo hrikalega 2006”, og ég fæ gubb í munninn þegar ég sé eins klæddar 13 ára stelpur að reyna að vera miklu eldri en þær eru. Fólk á bara að klæða sig í eitthvað þægilegt (það er ekki eðlilegt að finna fyrir einhverskonar sársauka eða óþægindum eftir að vera í einhverri flík í einn skóladag!) sem passar vel, og fólk á ekki að setja verðlágmörk og hanga í sérverslunum sem selja bara eitthvað einstakt merki. Sýnið smá sjálfstæði.