Heimfrægir Hönnuðir: René Lacoste Jean René Lacoste (2. júlí 1904 – 12. október 1996) var frægur tennisleikari sem var uppá sitt besta seinni hluta þriðja áratugar seinustu aldar. Á sínum tíma var hann hluti af “Skyttunum Fjórum”, fjórum frönskum tennisleikurum sem komu Frakklandi á kort tennisíþróttarinnar, og árin 1926-7 var hann efstur á lista yfir bestu tennisspilara heims.

Þrátt fyrir mikil afrek í heimi tennisíþrótarinnar er það ekki megininntak þessarar greinar, því René Lacoste var, eins og margir vita, upphafsmaður Polo bolsins. Hann bjó til fyrsta polo bolinn í kringum tennisinn því honum fannst hefðbundnu, síðerma og stífu peysurnar sem voru við lýði á þeim tíma óþægilegar. Vinur hans, Robert George, teiknaði handa honum krókódíl sem settur var á tennisbolina hans eftir að hann hafði fengið viðurnefnið “Le Crocodile” eða “Krókódíllinn”.

Lacoste seinn lýsti því hvernig hann hefði fengið viðurnefnið “Krókódíllinn”. Einu sinni fyrir mikilvægan leik fyrir franska liðið hafði fyrirliði liðsins lofað honum skjalatösku úr krókódílaskinni ef hann ynni leikinn. Leikinn vann hann og þegar fjölmiðlarnir komust að veðmálinu var nafnið fest við hann.

Árið 1933 stofnaði hann La Societe Chemise Lacoste eða “Bola fyrirtæki Lacoste” með André Gillier, eiganda og forstjóra stærsta vefnaðarfyrirtækis Frakklands og saman framleiddu þeir polobolina sem Lacoste hafði notað á vellinum. Það var ekki fyrr en árið 1951 sem þeir breikkuðu úrvalið frá einlitum tennis- golf og siglingarbolum til litaðra og fallegra bola. Árið eftir, 1952, fluttu þeir vöruna út til Bandaríkjanna og seldu hana undir slagorðinu “the status symbol of the competent sportsman” eða eins og það myndi ef til vill útfærast á íslensku “tákn hins hæfa íþróttamanns”.

Þegar sonur René Lacoste, Bernard Lacoste, tók við rekstri fyrirtækisins árið 1963 seldust árlega um 300 þúsund flíkur. Hátindi vinsælda sinna náði fyrirtækið á sjöunda áratuginum, en þá var það mikilvægur hlutur í fataskáp “preppy” fólksins. Bolirnir voru svo mikilvægir að þeirra var getið í “The Official Preppy Handbook” ársins 1980. Á þeim árum bættust við vörur í vöruúrval fyrirtækisins, en það hóf að meðal annars að framleiða stuttbuxur, skó, úr og sólgleraugu.

Vinsældir fatnaðarins ruku upp nýlega þegar hönnuðirinn Christophe Lemair hóf að hanna fyrir fyrirtækið, með það að leiðarljósi að skapa nútímalegri og fínni föt en fyrir voru. Árið 2005 seldust yfir 50 milljón hlutir úr röðum Lacoste í yfir 110 löndum. Auknar vinsældir merkisins má að hluta til draga til þess að ungir tennisleikarar hafa keppt í fötum frá þeim, og einnig hefur tvöfaldi golfmeistarinn Jose Maria Olazabal sést opinberlega í Lacoste vörum.

Bernard Lacoste varð alvarlega veikur snemma árið 2005 og færði formanns titilinn yfir á yngri bróðir sinn. Bernard lést 21. mars síðastliðinn í París.

Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/René Lacoste
http://en.wikipedia.org/wiki/Lacoste (company)
http://www.infoplease.com/spot/renelacoste.html

Meiri upplýsingar um vörurnar frá Lacoste, og komandi línur má finna á www.lacoste.com