Pils Einföld uppskrift af pilsi

Mér leiddist fyrstu dagana í sumarfríinu svo að ég ákvað að skella mér í það verk að búa til pils. Bara svona lítið sætt, stutt sumar pils úr rauðum flauelis buxum sem ég var hætt að nota og ég verð að segja að ég var bara nokkuð sátt við árangurinn. Ég ætla að reyna að lýsa eins og ég get í gegnum netið hvernig á að gera svona pils og ef það eru einhverjar spurningar þá endilega spurjið.

1. Veldu buxur sem eru nógu stórar á þig. Það skiptir ekki máli hvernig buxur það eru, ég notaði buxuru úr riffluðu flaueli og það kom ansi vel út. Ef áhugi er fyrir því að nota gallabuxur verður að vega og meta skálmarnar, því að ef þær eru snjáðar er ekki víst að það komi vel út, en eins og ég sagði þá verður hver og einn að meta það. Þetta pils er saumað í tveimur hlutum .

2. Klipptu skálmarnar af við klofið. Sprettu upp klofið og jafnaðu alla saumana. Ef allt gengur eftir þá áttu að geta farið í þetta ofur stutta pils og það á að vera of stutt á þig. Ef svo er ekki er um að gera að stytta það um nokkra sentimetra. En munið, það verður að gera ráð fyrir rassinum. Hann er stærri en framhlutinn.

3. Sprettu upp skálmarnar, eða klipptu saumana í sundur þannig að þú fáir út fjóra fleta. Taktu breiðari flekana og snyrtu þá til, þá fleka áttu eftir að nota í síðari hluta pilsins.

4. Næst þarf að fara að sauma flekana á. Það þarf að títuprjóna þá niður, eða sauma létt í höndunum svo að þetta tolli. Títaðu sitthvorn endann við saumana á “búknum” þannig að sentimetri standi fram og það passi við hliðar saumana á búknum. Einnig er gott að títuprjóna miðjuna en það þarf ekki að vera nákvæmt.

5. Stilltu saumavélina og byrjaðu að sauma þrjá sentimetra og búðu svo til fellingu sem snýr frá þér. Saumaðu aðra þrjá til fjóra cm og búðu til aðra fellingu sem snýr að þér. Þannig skal haldið áfram, sauma þrjá til fjóra cm og búa ýmist til fellingu sem snýr að þér eða frá þér. Passaðu samt að hafa fellingarnar ekki of djúpar, bara grunnar, um ½ cm eða svo.

6. Þetta skal svo endurtekið með afturstykkið, endarnir títaðir svo að þeir sammarkist saumunum á “búknum” og miðjan og svo byrjað að sauma. Þegar það er búið á að sauma hliðarnar saman.

7. Ef allt gengur eftir er komið pils. Kannski ekki alveg fullkomið. Næst þarf svo að sauma ofan í fellinarnar 2 cm svo að þær haldi sér. 2 cm fram og 2 cm til baka þannig að þær haldist betur.

8. Undir lokin þarf að falda pilsið. Þá þarf að merkja 2 cm með málbandi (pennastrik sem eru 2 cm frá kantinum með jöfnu millibili) allan hringinn. Þar eftir þarf að bretta einn cm upp á og annan cm upp á og títa niður og sauma saman með viðeigandi lit á tvinna, fótsbreidd frá brún.

9. Voilá! Ef allt gengur eftir þá er pilsið tilbúið…

Ókei, svolítið sein á því að búa til stutt pils núna en þetta á eftir að nýtast einhverjum. Meðfylgjandi er mynd af pilsinu. Ef það vakna upp einhverjar spurningar endilega spurjið. Það getur vel verið að eitthvað sé torskiljanlegt í þessum texta. Og já, hugi er ekki beinlínis myndavænt… Afsakið hvað þessar myndir (ef þær koma) eru óskýrar…

Og ég vil EKKI fá svör frá sumum sem segir bara Boring. Sleppið að lesa… Maður er orðinn þreyttur á þessum ákveðnum aðilum og þeir taka þetta til sín sem eiga.