Hverjir eru of feitir?
Næringarfræðingur nokkur hefur verið, líkt og margir aðrir, að reyna að finna út ástæðu þess hvers vegna Íslendingar hafa fitnað á undanförnum árum. Birtust skoðanir fræðingsins í Morgunblaðinu. Fræðingurinn sagði að ástæðan væri sú að fyrirmyndirnar væru of feitar. Hvaða fyrirmyndir? Það er nú alveg nóg að fletta tímariti, kveikja á sjónvarpi eða fara í bíó til þess að sjá að flestar svokallaðar fyrirmyndir hafa ekkert hold utan á sér, nema ef vera skyldi á brjóstunum. En hverjir eru þá fyrirmyndir feita fólksins, veltir næringarfræðingurinn fyrir sér? Það eru stjórnmálamennirnir, segir hann. Stjórnmálamennirnir eru allt of feitir. Má vera, einhverjir þeirra eru feitir, aðrir ekki. Þeir eru bara misjafnir eins og flest annað fólk. En mér er bara spurn, er nokkur maður á Íslandi sem gerir í því að líta út eins og stjórnmálamaður? Aldrei nokkurn tíma hef ég heyrt auglýsingu sem býður upp á fitunarkúra: ,,Langar þig til að verða eins feitur og ráðherra? Við erum með lausnina”. Þetta er að mínu mati algjört kjaftæði. Ég mundi segja að ástæða offitunnar væri of óhollur matur, of mikil fita og sælgæti og of lítið af hreyfingu. Og svo að lokum: Næringarfræðingurinn benir á að Halldór Ásgrímsson virðist hafa tekið sig á í ræktinni og er greinilega á fullu í hollustudeildinni. En, hverjum er ekki sama? Hvað finnst ykkur?