Herra Ísland 2002 Keppnin um Herra Ísland árið 2002, var haldin fimmtudaginn 21. nóv. s.l. Keppnin var haldin á Broadway og 15 strákar tóku þátt. Keppninni var svo sjónvarpað beint á skjá1. Ég kom mér vel fyrir uppi í sófa, með vinkonurnar við hlið mér, og vorum við ákveðnar í að skemmta okkur vel yfir kroppasjóinu!

Keppnin byrjaði á því að strákarnir sprönguðu um sviðið í nokkurs konar lendaskýlu, annaðhvort að vanda sig að brosa, eða vera rosalega töff á svipinn. Næst komu þeir svo fram í fötum frá versluninni Hanz, tíndust inn þrír og þrír, og tóku svo smá afslappaðan “dans”, reyndu að vera slakir og fíla sig inn í tónlistina. Það tókst bara ágætlega þó sumum finndist þetta greinilega frekar hallærislegt. Næst komu piltarnir fram á nærbuxunum einum klæða, þar sem þeir voru kynntir með nafni og hvaðan þær væru. Að lokum komu þeir svo fram í smóking, og einnig var sýnt úr óvissuferð sem þeir höfðu farið í áður.
Ekki get ég neitað því að þetta var nú frekar fyndið, því sumir voru svo mikið að vanda sig að vera cool og halda töffarasvipnum.

Kynnar kvöldsins voru þau Bjarni Ólafur Guðmundsson og Mariko Margrét Ragnarsdóttir. Mér fannst Mariko vera svolítið klaufaleg, og ruglaðist hún meira að segja þegar hún var að segja nafn Sverris Kára Karlssonar,þegar hann hlaut einn aukatitil.

Dómnefndina skipuðu:
Íris Björk Árnadóttir, Queen Of The World og Miss Skandinavia 2002.
Sigurjón Ragnar, ljósmyndari
Þórunn Högnadóttir, förðunarmeistari
Pétur Ívarsson, verslunarstjóri í Boss
Elín Gestsdóttir, framkv.stj. Fegurðarsamkeppni Íslands

Loks voru svo úrslitin ljós, Sverrir Kári Karlsson, 22 ára Kópavogsbúi, var valinn herra Ísland árið 2002. Í öðru sæti varð Jón Björvin Hermannsson, 22 ára Reykvíkingur og í þriðja sæti Elís Bergmann Blængsson, 21 árs Borgnesingur.

Þetta var hin ágætasta skemmtun, og var bæði blístrað og hlegið mikið þetta kvöld!