Lesiði þetta þetta er frá mogganum


Eigendur danska glansritsins Se og Hør [Séð og heyrt] ákváðu í gær að reka ritstjóra blaðsins, Peter Salskov, en sú ákvörðun blaðsins að rifja upp hörmulegan dauðdaga foreldra danska knattspyrnumannsins Stigs Tøftings, sem er í danska knattspyrnulandsliðinu, fyrir nítján árum hafði vakið mikla hneykslun í Danmörku. Hafa sumar verslanir jafnvel fjarlægt blaðið úr búðarhillum.
Bettina Aller, formaður stjórnar félagsins sem rekur Se og Hør, sagði blaðið skulda hlutaðeigandi, og þá einkum Stig Tøfting og fjölskyldu hans, afsökunarbeiðni.

Í umfjöllun sinni hafði Se og Hør rifjað upp gamlar frásagnir af því að Tøfting, sem þá var þrettán ára gamall, hefði komið að foreldrum sínum látnum dag einn fyrir nítján árum er hann kom heim af fótboltaæfingu.

Hafði faðir hans þá myrt eiginkonu sína og móður Tøftings, áður en hann svipti sjálfan sig lífi. Mörgum þótti Se og Hør ganga allt of langt er það rifjaði þennan harmleik upp. Slógu sumir lögmenn því föstu að um brot á friðhelgi einkalífsins væri að ræða.

Danska knattspyrnulandsliðið, sem nú tekur þátt í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Japan og Suður-Kóreu, sendi frá sér yfirlýsingu, eftir að fréttir bárust um fyrirætlan glanstímaritsins, þar sem ritstjórar þess voru fordæmdir. Sögðu leikmennirnir að engar nýjar upplýsingar væri að hafa um það hvernig dauða Tøfting-hjónanna bar að fyrir nítján árum, og að Se og Hør væri því einungis að gera tilraun til að hafa sannkallaðan harmleik að féþúfu, nú þegar danska landsliðið stæði í eldlínunni.

Hyggst danska landsliðið framvegis hunsa blaðamenn Se og Hør með öllu og hafa leikmenn þess heitið því að þeir muni frá þessari stundu í engu svara fyrirspurnum og viðtalsbeiðnum blaðsins.

Ekki var þó að sjá að fréttirnar hefðu áhrif á frammistöðu Tøftings í landsleiknum við Senegal á fimmtudag, þar gerðu liðin 1-1 jafntefli.

Kaupmannahöfn. AFP.
© Morgunblaðið, 2002



Djöfull eru þeir vondi við eimingja tøfting….djöfulsis