Ég hugsa stundum um félagsleg málefni enda getur það verið góð skemmtun. Nú síðast er ég búinn að velta fyrir mér tveimur hugmyndum sem eru gjörsamlega í mótsögn en eru engu að síður eitthvað sem bróðurpartur væstræns samfélags býst við að geti átt sér stað samtímis. Þetta eru hugmyndirnar um jafnrétti og riddaramennsku.

Riddaramennska gefur í skyn að það sé skylda hvers karls að dekra og stjana við konuna sína með því að vera rómantískur, með því að borga fyrir hana, með því að gefa henni óvæntar gjafir eins og blóm og dýrar gjafir eins og skartgripi. Riddaramennska ætlast til þess að karlinn fórni eigin þægindum fyrir þægindi konunnar; Ef konunni er kalt, afhendir karlinn henni jakkann sinn. Ef konunni er illt, nuddar karlinn hana. Ef konan þarf að komast inn um hurð, opnar karlinn fyrir henni. Ef konan þarf eitthvað, fórnar karlinn sínu. Til að kóróna allt ætti karlinn að eyða mánaðarlaunum í að kaupa handa henni stórkostlegan trúlofunarhring.

Riddaramennska gefur sem sagt í stuttu máli ráð fyrir því að karlinn eigi stöðugt að vinna sér inn ást konunnar en að konan eigi sjálfkrafa rétt á ást karlsins. Jafnrétti gefur í skyn að kynin séu jöfn, þannig að í stað riddaramennsku ætti rómantík og kurteisi að vera gagnkvæm.

En þetta eru mínar vangaveltur, hvað finnst ykkur? Finnst ykkur riddaramennska eðlileg í dag eða er hún jafn úrelt og hugmyndin um að konur eigi heima í eldhúsinu? Ef ég segði ykkur að þið getið aðeins fengið annað hvort riddaramennsku eða jafnrétti, ekki hvort tveggja, hvort mynduð þið kjósa?