Úff, hvar á ég að byrja.

Hvernig er það þegar maður bara nennir ekki að vera til? Ég er ekki að tala um að mig langi ekki að lifa, ég er ekki að fara að taka líf mitt, en líf mitt er bara svo glatað. Jólin virðast vera svona tími þar sem ég horfi yfir líf mitt og sé hvað ég er að gera ógeðslega lítið með líf mitt. Ég á minningar frá síðustu 2-3 jólum þar sem ég bara sit fyrir framan tölvuna og græt.

Ég er í yfirvigt, heng í tölvunni allan daginn, rétt slefa yfir 4,5 í skólanum, veit ekkert hvað ég ætla að gera í framtíðinni og um daginn horfði ég á stelpuna sem ég er búinn að vera með á heilanum í 2 ár slefa upp í annan gaur. Og það glataða er að ég held að hún hafi alveg haft áhuga á mér í byrjun, ég bara er alltof óöruggur með sjálfan mig til að gera eitthvað í því.

Ég hef verið í einu sambandi á lífsleiðinni, sem endaði á því að hún dömpaði mér vegna þess að ég gerði aldrei neitt, við höfðum ekki einusinni farið í sleik. Að vísu var ég 13 ára en síðan þá hef ég varla getað haldið uppi samræðum við stelpu.

Ég á einn svona alvöru vin (ég ætla að kalla hann Jón) og alveg jafnaldra í skólanum sem ég get sest hjá, en yfirleitt er það bara strætó heim beint eftir skóla og beint í tölvuna. Og ég tala nú ekki um þegar ég sleppi síðasta tíma bara afþví að ég nenni ekki að vera þarna.

Einu skiptin sem ég er ekki heima í tölvunni er þegar ég fer með Jóni að éta eitthvað, því það er það eina sem við gerum saman. Og oft er það bara afþví að ég nenni ekki að taka strætó heim og fæ hann til að skutla mér eftirá. Ég held að líf mitt væri skárra án Jóns. Ég er með vinnu, en öll mánaðarlaunin mín fara í mat handa mér og Jóni. Ég held hann skuldi mér hátt í 100.000 kall, ef ekki meira. Ef ekki væri fyrir Jón held ég að ég myndi ekki éta svona mikið af rusli og hreyfa mig eins lítið og ég geri. En ég og Jón erum búnir að vera vinir síðan í fyrsta bekk svo það er erfitt að slíta tengslin.

Mér finnst félagslífið mitt samt vera að skána. Ég byrjaði að drekka í sumar og hef verið aðeins meira “in” síðan þá. Í svona 9. bekk keypti ég mér fartölvu og einangraðist eignlega þar. Þegar vinir mínir voru allir að slá sér upp og í partýum og svoleiðis, var ég heima í Max Payne.

En aftur að þessari stelpu. Hún er sú yndislegasta í heiminum, sjitt ég er að fella tár. Síðan fyrsta og eina sambandið mitt endaði hafði ég ekki lent í neinum svakalegum crushes, allavega engu sem ég gerði neitt í. Sumarið eftir 10. bekk ákvað ég að ég þyrfti að fara að koma mér á séns og tók bara skástu stelpuna í vinnunni og ákvað að ég væri hrifinn af henni. Ég fékk að vita að hún væri líka hrifin af mér en ég er greinilega svona misheppnaður að það varð ekkert úr því. Þessi stelpa er samt ágæt vinkona mín í dag.

En aftur að stelpunni. Ég sá hana fyrst þegar ég byrjaði í framhaldsskóla, hún er í sama árgangi og ég. Ég man eftir því að þegar við mættumst á ganginum horfðum við bara í augun á hvort öðru og ég fékk fiðring í magann þegar ég sá hana eða hugsaði til hennar. En aldrei hafði ég hreðjarnar til að tala við hana því, hvað hafði ég að segja sem hún hefði áhuga á? Hún skrifaði á Facebúkk síðuna mína “ég elska þig, viltu hitta mig?” En hvað gerði ég? Ég wimpaði út og sannfærði sjálfan mig um að vinur minn hefði komist á Facebookið hennar og gert þetta. Er eitthvað að mér? Þessi stelpa byrjaði svo að vinna á sama stað og ég og þá hugsaði ég með mér að tækifærið væri loksins komið. En eins og ég er þá tekst mér ekkert að halda uppi samræðum við einn né neinn þar sem ég er ekkert áhugaverður. Ég tala mikið við sjálfan mig og hugsa mjög mikið um það sem ég segi eða ætla að segja, þannig að það vellur ekkert spontanious útúr mér. Ég segi ekkert nema það sem þarf að vera sagt. Þessi stelpa varð svo bara “kunningi” minn, við tölum voða lítið saman en þó af og til á t.d. Facebook eða segjum hæ í vinnunni, sjitt ég verð að segja frá einu sem lýsir tilfinningum mínum gagnvart henni. Ég var einusinni að vinna, ógeðslega þreyttur og pirraður. Ég var að fara á klósettið inni á lager og þegar ég labbaði framhjá deildinni sem hún vinnur í, sagði hún hæ. Ég hafði ekki hugmynd um að hún væri að vinna, en bara af því að ég sá hana og heyrði í henni hvarf allur pirringur og öll þreyta og ég brosti og sagði hæ. Hún er svo æðisleg.

En ok. Nú þegar ég er loksins að byrja að koma mér inní félagslífið og var boðið í partý þar sem ég vissi að hún yrði ákvað ég að núna væri komið nóg. Og áður en ég næ að drekka mig nógu fullan til að þora að setjast hjá henni og spjalla, er hún komin inn í herbergi með einhverjum gæja.

Þessi stelpa er sú eina sem ég hef borið svona tilfinningar til. Ég fer að sofa og vona að mig dreymi hana. Ég er með fiðring í maganum þegar ég hugsa um hana og bara það að sjá hana fær mig til að brosa. Og það sem mér finnst svo æðislegt er að það er ekki bara útlitið sem ég hrífst af. Hún er engin Megan Fox fyrir hinum almenna shallow gæja, en fyrir mér er hún allt. Hún er alltaf brosandi, hún er alltaf hlæjandi, hún er æðisleg. Mig langar að vera með henni, ekki bara til að sofa hjá henni, bara til að vera með henni. Mér væri sama þó ég svæfi aldrei hjá henni, það væri þess virði. En það gengi aldrei upp afþví að ég kann ekkert að fara að þessu. Ég get ekki bara tekið upp símann og sagt “hey, kemuru í bíó í kvöld?” Og þó við færum út að borða, hvað myndi ég segja? Það var þögn í morgun þegar ég borðaði morgunmat með pabba mínum. Hvað er að mér? Ég vil vera þessi gaur sem talar helst of mikið. Þessi sem spjallar við alla í vinnunni og er vinur allra. Kommon. Í staðinn er ég heima hjá mér öll kvöld.

Vá hvað þetta er orðið langt, en mér líður ógeðslega vel að vera að skrifa þetta. Ég hef aldrei getað treyst neinum eða komist nógu nálægt neinum til að geta deilt neinu svona persónulegu. Ég á erfitt með að segja Jóni frá hverri ég er skotinn í.

Og þá kem ég að öðru. Ég er hræddur við mistök, og ég er hræddur við að aðrir viti að mér hafi mistekist. Ef ég t.d. segði Jóni hvað ég væri hrifinn af hinni og þessari og svo fer það í súginn, þá mistókst mér, og aðrir vita að mér mistókst. Ef enginn veit að ég reyndi, þá veit enginn að mér hafi mistekist. Það er líka eiginlega ástæðan fyrir því að ég hef ekki joinað neina líkamsrækt. Ég er hræddur um að nenna því bara ekki og allir vita að ég hætti í ræktinni og feilaði. Ef ég gæti flutt í burt, burt frá Jóni og burt frá fjölskyldunni, þá held ég að mér tækist alveg nokkuð vel upp.

Ég er að spá í að hafa þetta ekki lengra, þar sem þetta er orðið mun lengra en ég ætlaði. En þetta er alveg gífurlegur léttir því, eins og ég segi, þá á ég voðalega erfitt með að tjá mig face-to-face og sérstaklega með eitthvað svona. Og mér er alveg sama þó ykkur sé skítsama og nennið ekki að lesa þetta, takk samt.