Það er löngu vitað að Íslendingar geta ekki beðið eðlilega í biðröðum á afgreiðslustöðum, heldur enda tilraunir til slíkra raða yfirleitt í hálfhring utan um afgreiðsluborðið þar sem troðist er í þeirri von að maður verði afgreiddur næstur. Eins og gefur að skilja er þetta ósanngjarnt gagnvart þeim hógværu, sem kannski komu fyrst en fíla ekki að troða sér fremst í röðina.

Til þess að bæta úr því fæddist sú snilldar hugmynd að nota númerakerfi til að ákvarða í hvaða röð fólk ætti að vera afgreitt á afgreiðslustöðum. Hin einfalda fullkomnun kerfisins er frábær - þú tekur númer frá 00 - 99 og þegar komið er að þér er númerið kallað upp og þú færð afgreiðslu.

En nei, auðvitað geta Íslendingar klúðrað þessu eins og öllu öðru. Ég vinn á afgreiðslustað þar sem hefur verið notast við númerakerfi eins lengi og elstu menn muna. Þrátt fyrir það virðist ábyggilega um fjórðungur allra viðskiptavina ekki skilja þetta einfalda kerfi.

Fyrir það fyrsta, kalla ég “fjörutíu-og-átta!” og fæ svarið “ég er 49!” frá manni, sem ætlast til þess að ég afgreiði hann strax, þó að hann sé augljóslega ekki með rétt númer.

Í öðru lagi kalla ég oft sama númer þrisvar sinnum án þess að fá svar og ákveð þá að kalla það næsta. Þegar ég afgreiði næsta kemur venjulega sá sem ekki var að hlusta og grípur frammí, oft pirraður yfir því að ég hafi “sleppt” þeim. Ég sleppti þér ekki, hálfviti, þú ert bara með athyglisgáfu á við njálg.

Í þriðja lagi gerist það alltaf þegar mest er að gera að einhver grípur frammí og segir “heyrðu, ég tók ekki númer en ég held að ég sé næst.” Nei, þú ert ekki næst, heimska belja. Ef að þú værir næst hefðir þú kannski tekið eftir því að ég er búinn að vera kalla upp númer síðustu 5 til 10 mínúturnar.

Auk þess eru ýmis frammíköll og vesen frá fólki sem telur sig vera yfir númerakerfið hafið, eins og til dæmis konan sem hefur ekki fyrir því að leita að vörunni sem blasti við henni í stæðum þegar hún gekk inn í verslunina - hún grípur frammí þegar ég er að afgreiða og heldur að ég sé að fara að svara henni. Taktu númer, bíddu á meðan ég afgreiði þessa tuttugu sem eru á undan þér og svo skal ég svara spurningunni.

Svo eru það að sjálfsögðu svindlararnir, sem að litast um í notuðu miðunum eftir númeri sem hentar. Ég hef nokkrum sinnum fengið tvö svör við sama númeri og auðvitað verður svindlarinn grautfúll þegar upp um hann kemst. Aftast í röðina, væni.

Þetta fer svo illa í taugarnar á mér. Er þetta svona allstaðar eða eru viðskiptavinir verslunarinnar sem ég vinn í heimskari en aðrir?