í vinnunni í dag brá mér heldur betur í brún þegar Ómar Ragnarsson labbaði inn á kaffi stofu, já hann kom í vinnuna mína í dag að kynna nýja stjórnmálflokinn Íslands hreyfingin, mér líst bara helvíti vel á þetta og ég segji bara fyrir mig að ég er búin að finna flokkinn sem ég mun kjósa í kosningunum, hvaða flokk munnt þú kjósa?

ég læt stefnulýsingu flokksins fyljga með.

Íslands hreyfingin…

vill fjölbreytt, framsækið, skapandi og réttlátt samfélag. Samfélag þar sem frelsi einstaklingsins, samábyrgð, menntun og sjálfbærni tryggja lífsgæði fólksins

leggur áherslu á að friða miðhálendið, stöðva frekari stóriðju og að staðið sé við alþjóðasamninga í umhverfismálum. Landsins gæði eru auðlindir sem þarf að nýta af ábyrgð og framsýni, svo komandi kynslóðir geti einnig notið þeirra

trúir á frumkvæði og hugvit fólksins og telur að ríkidæmi Íslendinga felist í þeirri menningu sem hér er, verkkunnáttu og náttúrugæðum

telur að þjóðin sé tilbúin að gera nýjan sáttmála um umhverfismál, atvinnulíf og velferð þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi

lítur svo á að hin mikla umhverfisbylgja sem fer nú yfir heiminn feli í sér mikla ábyrgð en líka tækifæri

vill að hætt verði að líta á börn, aldraða og öryrkja sem afgangsstærð í samfélaginu

Nóg komið af álbræðslu
Hætta skal við fyrirhugaða uppbyggingu álvera í Helguvík, Húsavík, Straumsvík og Þorlákshöfn. Sú stóriðja sem nú er stefnt að krefst nær allrar virkjanlegrar orku landsins, mikilla náttúrufórna, veldur gríðarlegri mengun og efnahagslegum óstöðugleika, þrengir að annarri atvinnustarfsemi, skerðir möguleika okkar í hátækni og nýsköpun og ýtir undir einhæfni. Þessi stefna er óskynsamleg og mun skaða ímynd lands og þjóðar.

Friðun miðhálendisins
Íslendingar geta lagt mikilvægan skerf til umhverfismála á alþjóðavettvangi með því að vernda landslag sem er einstakt á heimsvísu.
Hvergi í heiminum er jafn stórt safn ólíkra náttúrufyrirbæra á jafn litlu svæði og hér á Íslandi. Miðhálendi Íslands er stærsta óbyggða víðerni Evrópu. Verndun þess varðar ekki bara okkur heldur heiminn allan. Miðhálendið er best nýtt fyrir okkar kynslóð og komandi kynslóðir með útivist, náttúruskoðun og rannsóknum.

Sjálfbær nýting hafsins
Lífríkið í sjónum umhverfis landið er auðlind sem okkur Íslendingum hefur verið trúað fyrir. Fiskimiðin ber að nýta með sjálfbærum hætti án þess að skaða lífríkið. Veiðistjórnun þarf að taka mið af veiðiþoli fiskistofna og ástandi sjávar og sjávarbotns á hverjum tíma. Stórefla þarf rannsóknir í sjávarlíffræði, einnig rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á fiskistofna og aðrar sjávarlífverur.

Umhverfisstefna sem virkar
Íslendingar vilja eiga hreinasta og heilnæmasta land í heimi. Fyrsta skrefið í þá átt er að standa við allþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum. Jafnframt þarf að móta umhverfisstefnu sem er sjálfbær og nær til allra þátta samfélagsins; samgangna, orkunotkunar, skipulagningar sveitarfélaga og borgar, losunar úrgangsefna og landnýtingar. Stórauka þarf uppgræðslu og stefna að nýtingu afrétta í samræmi við beitarþol þeirra. Gera þarf heildarskipulag yfir skógrækt þannig að hún falli sem best að landslagi og gróðurfari á hverjum stað.

Ísland í fremstu röð frumkvöðla og nýsköpunar
Efnahagsleg velgengni ólíkra svæða í heiminum ræðst nú af frjórri hugsun, frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Eitt mikilvægasta verkefni samtímans er að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf sem meðal annars getur nýtt sér auknar kröfur um sérhæfða þjónustu og vaxandi umhverfisvitund í heiminum. Þar getur Ísland skipað sér í fremstu röð.

Breyta þarf sjávarútvegsstefnunni
Handfærabátar,allt að 6 tonn, fái frjálsan aðgang að fiskimiðunum.
Skapa þarf betri grundvöll fyrir vistvænar veiðar sem krefjast minni orkunotkunar og gagnast hinum dreifðu byggðum landins. Bæði verði tekið mið af uppbyggingu í greininni á undanförnum árum og byggðaþróun í landinu.

Ferðaþjónusta í fremstu röð
Ferðaþjónustan er ein af styrkustu stoðum íslensk atvinnulífs en hefur notið lítils skilnings stjórnvalda. Nauðsynlegt er að landnýtingaráætlanir verði gerðar með hagsmuni ferðaþjónustunnar í huga og aðgengi að ferðamannastöðum verði stórbætt.

Skattar hagstæðir atvinnulífi og umhverfi
Skattar eiga vera sem hagstæðir fyrirtækjum og umhverfinu. Einfalda skal regluverk og eftirlitskerfií og lækka kostnað kringum stofnun fyrirtækja og rekstur. Efla þarf upplýsingagjöf til nýrra fyrirtækja.
Skattkerfið hvetji fyrirtæki til að styðja við menntun, listir, menningu og góðgerðastarfsemi.

Umhverfisvitund skapar ný sóknarfæri
Vaxandi umhverfisvitund færir atvinnulífinu sóknarfæri til nýsköpunar og nýrra markaða. Þróun hugbúnaðar og tækja til orkusparnaðar, nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi og hágæðaferðaþjónusta eru nokkur dæmi um slík tækifæri. Rannsóknir og vísindastarf á sviði orkunýtingar og umhverfismála búa yfir miklum möguleikum vegna sérstöðu landsins.

Eitt atvinnumálaráðuneyti
Mismunun atvinnuvega og sértæk atvinnumálaráðuneyti eru tímaskekkja.
Iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti má sameina í eitt atvinnumálaráðuneyti sem vinnur að því að skapa hagstæð almenn skilyrði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi.

Skattlagning skal miða að jafnvægi og jafnræði
Einfalda og lækka skal skattlagningu einstaklinga með því að afnema tekjutengingu bóta, með hækkun skattleysismarka og tengingu þeirra við launavísitölu. Þeir fjármagnseigendur sem eru hvorki launamenn eða einkahlutafélög skulu reikna sér launatekjur. Lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja skulu vera undanþegnar tekjuskatti.

Húsnæðiskerfi sem hentar öllum
Aðgangur að húsnæði á að vera tryggður öllum án tillits til efnahags. Íbúðalánasjóður skal einbeita sér að lánum til tekjulágra og fjármögnun félagslegra leiguíbúða. Stimpilgjöld verði afnumin.

Auka þarf lífsgæði aldraðra og öryrkja
Auka þarf lífsgæði aldraðra og öryrkja og sníða velferðarkerfið að þörfum þeirra sem þurfa á því að halda. Hækkun grunnlífeyris, afnám tekjutenginga, aukið val um búsetu, atvinna með stuðningi og persónuleg liðveisla eru nokkrir þeirra þátta sem auka lífsgæði, samfélagslega þátttöku og hagkvæmni.
Málefni fatlaðara verði á höndum sveitarfélaga og málaflokknum tryggt fjármagn.

Endurskipulagning velferðar- og heilbrigðiskerfis
Hægt er að einfalda velferðarkerfið og gera það skilvirkara með endurskipulagningu Tryggingastofnunar og endurskoðun laga um almannatryggingar. Skilgreina þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og aðkomu einkaaðila að kerfinu. Æskilegt er að ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála verði sameinuð og nýtt velferðarráðuneyti stofnað. Áhersla verði lögð á að færa þjónustuna í auknum mæli til sveitarfélaga og einkaaðila.

Fjölbreytilegar námsleiðir
Eitt helsta verkefni stjórnvalda er að efla og treysta skólastarf á öllum stigum, tryggja menntun þjóðarinnar og búa í haginn fyrir öflugt vísinda- og rannsóknastarf. Þörf er á fjölbreytilegum námsleiðum fyrir nemendur með ólíka hæfileika til að öðlast verkmenntun og bókþekkingu. Efla skal verknám, listnám, skapandi hugsun, siðræna hugsun og umhverfis- og lýðræðisvitund nemenda strax á unga aldri.
Minnka skal miðstýringu og gera skólum kleift að verða sjálfstæðari bæði hvað varðar námsstefnu og fjármál. Sjálfstæðir skólar skulu njóta jafnræðis við opinbera skóla. Fjármagn fylgi hverjum nemanda frá lögheimilissveitarfélagi samkvæmt grunnskólalögum. Sjálfstæðir skólar á grunnskólastigi skulu ekki innheimta skólagjöld af nemendum sínum.

Mennt er máttur fyrir innflytjendur
Kunnátta í íslensku og helstu þáttum samfélagsins er mikilvæg fyrir nýja þjóðfélagsþegna til að aðlagast og verða virkir þátttakendur á öllu sviðum íslensks samfélags. Efla þarf þennan þátt á öllum skólastigum og bjóða innflytjendum að kostnaðarlausu.

Íslensk menning og náttúra
Efla ber rannsóknir á íslenskri menningu og náttúru. Einnig skal að því stefnt að nýta sérstöðu landsins við þekkingarsköpun og miðla henni til verr settra þjóða, eins og t.d. í sjávarútvegsmálum, orkumálum og jafnréttismálum.

Ein heild, eitt kjördæmi
Landið þarf að vera ein lifandi heild. Skynsamlegast er að líta á það sem eitt atvinnusvæði en þó þannig að landshlutar fái að eflast á eigin forsendum.
Traust og stuðningur við hugvit, frumkvæði, dugnað og menntun fólksins þarf að koma í stað ómarkvissra inngripa. Ekki er ástæða til að gera greinarmun á hagsmunum landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað snertir stjórnskipun, hagsmunirnir fléttast saman og eðlilegt er að landið verði eitt kjördæmi. Við þurfum á hvort öðru að halda.

Efling landsbyggðar forgangsverkefni
Verkkunnátta og staðbundin menningar- og náttúruauðlegð á hverjum stað veitir mikla möguleika. Með því að gera aðstæður hagstæðari fyrir atvinnu- og menningarlíf aukast lífsgæði og staðirnir verða eftirsóknarverðari. Til dæmis mætti gefa fyrirtækjum skattaafslátt fyrir að starfa á landsbyggðinni eins og þekkist í nágrannalöndum okkar. Stórefla þarf samgöngur og auka möguleika til fjölbreyttrar menntunar.

Aukið lýðræði
Aukið lýðræði, skoðanafrelsi og upplýsingagjöf verður fólki sífellt hugleiknara. Þjóðaratkvæði í mikilvægum málum er eðlilegur hluti þessarar þróunar og eins fullt aðgengi almennra borgara að upplýsingum úr stjórnsýslunni. Kanna þarf möguleika til persónukjörs í kosningum. Staðfesta þarf Árósasamkomulagið sem skyldar ríkisvaldið til að jafna aðstöðumun aðila þegar deilt er um framkvæmdir og stefnu.

Jafnrétti í reynd
Það er afar mikilvægt að ná þeim markmiðum á næstu árum að fullt launajafnrétti ríki á milli karla og kvenna í íslensku samfélagi. Þessum markmiðum þarf að ná fram með nýjum áherslum í jafnréttismálum. Afnám launaleyndar, algert launajafnrétti hjá opinberum aðilum og markviss kynjasamþætting í ráðum og nefndum hins opinbera eru nokkrar leiðir til að leysa vandann.

Fjölmenningarsamfélagið auðgar Ísland
Menning innflytjenda er kærkomin viðbót við þjóðmenninguna en ekki ógn. Hingað flytur hugrakkt fólk í leit að nýjum tækifærum, oft með góða menntun frá sínu upprunalandi. Fólk sem hingað flytur þarf að fá möguleika á að njóta sín til jafns við aðra íbúa landsins því að annars fer þjóðfélagið á mis við hæfileika þess og sköpunarmátt. Það verður að gera því kleift að læra íslensku og aðlagast umhverfinu til að hafa möguleika á þáttöku og áhrifum í samfélaginu. Koma verður í veg fyrir að fyrirtæki og einstaklingar misnoti sér erlent vinnuafl og notfæri sér þekkingarleysi erlendra starfsmanna á réttarstöðu sinni á vinnumarkaði.

Alþjóðlegt samstarf
Á tímum alþjóðavæðingar er afar brýnt fyrir smáríki eins og Ísland að vera aðili að alþjóðlegum stofnunum og sáttmálum sem tryggja öryggi, mannrétttindi og umhverfisvernd. Eins er brýnt að ástunda sjálfstæða utanríkisstefnu sem tekur mið af hagsmunum okkar innan Sameinuðu þjóðana, NATO og ÖSE. Athuga skal, á næsta kjörtímabili, hvort að hefja skuli aðildarviðræður við Evrópusambandið í ljósi þess að EES samningurinn úreldist á næstu árum. Skilgreina þarf samningsmarkmið með það í huga að Ísland fái undanþágu, eða langan aðlögunartíma að fiskveiðistefnu ESB.

Skilvirkt, nútímalegt stjórnarráð
Lagt er til að stjórnarráðið verði tekið til endurskoðunar. Kanna skal möguleika á því að samgönguráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti verði að innanríkisráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti verði að velferðarráðuneyti og landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar, og viðskiptaráðuneyti verði að atvinnuvegaráðuneyti.

Undir menntamálaráðuneytið falli allar menntastofnanir ríkisins sem í dag eru undir öðrum ráðuneytum. Umhverfisráðuneytið verði eflt með því að rannsóknarstofnanir s.s. Rannsóknardeild LBHÍ á Keldnaholti og Hafrannsóknarstofnun, verði færðar undir ráðuneytið sem og landgræðsla og skógrækt.

Utanríkisráðuneytið verði endurskipulagt með sparnað og árangur að leiðarljósi og starfsemi ráðuneytisins endurskilgreind í ljósi nýrra tíma og tækifæra.