Á síðustu 7 dögum er ég búin að vinna 5 og vera í skóla 5. 4 daga byrjaði ég í skólanum kl. 8 og var búin um 15:30, fór í vinnuna kl. 4 og kom heim 12. Það þýðir að ég hef verið í skóla+vinnu í 15 tíma 4 daga vikunnar, skóla í 6 tíma (styttri föstudagur) og vinnu 8 tíma. Það þýðir að ég hef verið í skóla/vinnu 72 tíma á 7 sólarhringum og nánast öllum afgangnum eyddi ég í að reyna að minnka heimavinnubunkann minn og sofa.

Skemmtilegt?

Í gær fattaði ég allt í einu að ég átti að fara að vinna. Ég tók mig til eftir skóla og ætlaði að fara að leggja af stað. Þá fattaði ég allt í einu að það var allt á kafi í snjó og bylur úti! Ekki séns að labba alla leið út í vinnu í þessu veðri! Ég sá strax eftir því að vera ekki komin með bíl, og ekki heldur neinn vinur minn (ekki þeir sem eru með bílpróf). Ég fór nú samt til vinar míns sem er með bílpróf og hann ætlaði að reyna að redda bíl hjá vini sínum til að skutla mér (ég var ekki að fara að keyra ókunnugan bíl í þessu veðri, er ekki það vanur bílstjóri). Hann fann auðvitað ekki vin sinn og ég ætlaði bara að gefast upp. Lagði af stað gegnum snjóskaflana í gallabuxum og strigaskóm (því ég hef ekki enn komist heim til að ná í útifötin mín, enda ekki búin að vera heima síðan í byrjun október). Svo allt í einu heyri ég að vinur minn kallar, hann var búinn að fá bíl. Eftir að hafa eytt smá tíma í að skafa af bílnum og hita rúðurnar svo hægt væri að sjá smá út keyrðum við út í vinnu. Þá hélt ég að ég væri sloppin, myndi bara eyða deginum inni í að afgreiða fólk. En ég reiknaði ekki með einu.

Auðvitað vildi enginn taka bensín sjálfur í þessu veðri. Ég sat inni í þremur peysum tilbúin að fara í úlpu og vetlinga til að fara út að dæla.

Ég lenti í ýmsu í sambandi við það.

Einu sinni þurfti ég að fara út að dæla fyrir konu sem bað um fyrir 5000 kr. Hún gat auðvitað ekki lagt með tankinn hjá dælunum svo ég þurfti að teygja slönguna og það var erfitt að sjá skjáinn, þurfti að rýna á móti bylnum og fylgjast með því hvenær kæmi upp í 5000 kr. Þá fattaði ég að slangan var eitthvað biluð (líklega bara vegna frostsins), maður getur smellt einhverju til að maður þurfi ekki að halda inni allan tímann. Þetta einmitt virkaði ekki svo ég þurfti að standa í frostinu, halda þessu inni, alveg að frjósa á puttunum, snúa í vindinn og reyna að fylgjast með skjánum. Það var sárt.

Seinna kom maður sem vildi diesel á bílinn sinn. Ég stóð og beið eftir því að tankurinn fylltist, en þá tók ég allt í einu eftir því að það lak úr slöngunni og allt fauk á buxurnar mínar! Sem betur fer var ég ekki í uppáhalds buxunum mínum, þá yrði ég brjáluð!

Ég hef aldrei tekið eftir neinum vandræðum með þessar dælur svo ég býst við því að þetta tengist eitthvað veðrinu.

Svo kom kona sem vildi líka láta fylla bílinn. Ég fór út og ætlaði að opna bensínlokið. En hvar var það? Bíllinn hafði snúið þannig að það hafði snjóað á hliðina sem bensínlokið er á, og ekki nóg með það heldur hafði snjórinn frosið svo það var ekkert smá vesen að kroppa snjóinn af. Ég fann þó lokið á endanum og setti bensín á bílinn.


Ef ég hefði ekki verið í sérstaklega góðu skapi þennan dag og ef ég hefði ekki verið að vinna með glöðustu manneskjunni á þessum vinnustað (þýsk stelpa sem virðist alltaf vera í góðu skapi :O) hefði ég örugglega ekki komist í gegnum daginn. En það sem truflaði mig mest var eiginlega hvað var lítið að gera. Flestir komu bara til að taka bensín, kaupa sköfur og mæla frostlöginn.


Núna er ég loksins hætt að skjálfa, enda búin að vera í tvemur peysum í allan dag þegar ég hef ekki legið undir sæng og reynt að sofa aðeins. Ég er búin að sofa lítið og sinna skólanum enn minna síðustu daga, enda ekki mikill tími með allar þessar aukavaktir (ég þoli ekki að geta ekki sagt nei við fólk :S) Núna þarf ég að eyða öllum deginum í að læra. Er á eftir í flestu og á eftir nokkur verkefni. Þarf t.d. að gera 2 ritgerðir, spurningar úr nokkrum köflum í sögu, stórt verkefni í sögu, nánast heilan kafla í stærðfræði og ein heimadæmi, eðlisfræðiheimadæmi og spurningar úr 5 köflum í jarðfræði auk þess að vera að fara í próf í flestu í næstu viku.


Úfff … Þetta er erfitt líf …