Báðir turnar World Trade Center í New York eru hrundir. Tvær flugvélar flugu á turnana rétt fyrir klukkan níu í morgun að bandarískum tíma, einmitt þegar fólk var að mæta til vinnu, eða rétt fyrir klukkan eitt að íslenskum tíma.

Þá flaug flugvél á Pentagon, byggingu bandaríska varnarmálaráðuneytisins í Washington, og er hluti byggingarinnar hruninn. Fréttir bárust jafnframt af eldi í Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna í Washington, en þar sprakk sprengja í bifreið fyrir utan bygginguna.

Búið er að rýma Hvíta húsið og allar stjórnsýslubyggingar í Washington. Þá er verið að rýma fleiri háhýsi og opinberar stofnanir vítt og breitt um Bandaríkin í kjölfar hryðjuverkaárásanna á World Trade Center og Pentagon.

Bandaríska leyniþjónustan CIA er búin að rýma höfuðstöðvar sínar.

Bandarísk stjórnvöld reikna með því að erlendir hryðjuverkahópar standi að árásunum, frekar en bandarískir hryðjuverkamenn.

George Bush forseti Bandaríkjanna ávarpaði þjóð sína rétt í þessu og fordæmdi harðlega það sem hann kallaði hryðjuverk gegn bandarísku þjóðinni, en tvær flugvélar, þar af önnur af gerðinni Boeing 767, flugu á World Trade Center í New York fyrir skemmstu.

Í fréttum CNN kom fram að önnur vélin sem flaug inn í World Trade Center fyrir skemmstu er frá bandaríska flugfélaginu American Airlines, af gerðinni 767, og lagði upp frá Boston. Talið er að henni hafi verið rænt í þessum tilgangi.

Talið er að um fimmtíu þúsund manns hafi verið í byggingunni. Ekkert hefur enn komið fram um hversu margir voru um borð í vélunum tveimur sem flugu á turnana tvo, né heldur hversu margir hafa látið lífið eða slasast í húsunum og á jörðu niðri, en mikið brak úr vélunum og húsunum hrundi niður við árekstrana, en talað er um þúsund eða fleiri.

Gengið er út frá því að um hryðjuverk sé að ræða, þótt ekkert hafi fengist staðfest um það enn. Þá hefur heldur ekki fengist staðfest að vélinni frá Boston hafi verið rænt, þótt mestar líkur þyki á því. Ekki er heldur vitað hvort Boeing-farþegaþotan hafi verið sú fyrri eða sú seinni sem flaug á bygginguna, en þær flugu á World Trade Center með 18 mínútna millibili.

Búið er að snúa við öllum farþegaflugvélum á leið frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þær vélar sem hafa ekki nægt eldsneyti til að lenda á Íslandi munu millilenda á flugvöllum í Evrópu til eldsneytistöku. Flugi sem vera á seinnipart dags í dag hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Ómar Ingvarsson aðstoðara flugvallarstjóri í Keflavík segir að Keflavíkurflugvöllur sé vararflugvöllur fyrir flug til og frá Bandaríkjunum. Menn séu í viðbragðsstöðu, en ekki sé búið að funda um málið.

Undirbúningur er hafinn að móttöku fjölda manns í Keflavík. Verið er að undirbúa að slá upp búðum fyrir farþega sem verða strandaglópar hér á landi.

Allar brýr yfir á Manhattan-eyju í New York eru lokaðar og sömuleiðis neðanjarðarlestargöng þangað.