Tvö tíu ára tælensk börn hafa uppgötvað að þau voru afhent röngum fjölskyldum á fæðingardeildinni. Jeerawuth Boonyoo og Orawan Chanthong, drengur og stúlka sem ganga í sama skólann, fengu þær fréttir í gær að þau hafa alist upp hjá fjölskyldum hvers annars. Það voru skólafélagar þeirra sem bentu á að þau voru ekkert lík fjölskyldum sínum.

Bæði fæddust þau 14. maí 1995 og báðar mæður þeirra féllu í yfirlið skömmu eftir fæðinguna. Talið er að í ringulreiðinni hafi börnin óvart víxlast.

Fjölskyldurnar hafa ákveðið að leyfa börnunum að ákveða sjálf hvort þau vilja vera áfram hjá uppeldisfjölskyldunum eða flytja til blóðforeldranna.