Ætlar að róa í kringum Ísland á sjókajak
Breskur umferðarlögregluþjónn, Sean Morley, hyggst verða fyrstur manna til þess að róa í kringum Ísland á sjókajak næsta sumar. Morley hefur áður slegið met í kajakróðri en hann réri eitt sinn meðfram úthafsströndum þeirra byggðu eyja sem tilheyra Bretlandi og Írlandi.

Fréttavefurinn This is Cornwall hefur það eftir Morley að hann eigi von á því að verða barinn af háum öldum og hvössum vindum við strendur „lands íss og elds“ eins og Morley kallar það, en vegalengdin umhverfis landið er samkvæmt fréttavefnum um 1.500 mílur eða 2.415 km.

Lögregluþjónninn fertugi er þó ekki fyrstur til þess að róa í kringum Ísland á sjókajak því félögunum Nigel Foster og Geoff Hunter tókst það í sameiningu árið 1977. Takist Morley hið sama mun hann verða fyrstur til þess að gera það einn síns liðs. Skotinn Jonathan Burleigh komst þó nærri því að klára slíka sjóferð fyrir tveimur árum síðan en varð að binda endi á för sína þegar um 240 km vantaði upp á sökum veðurs.

Morley hyggst leggja af stað í maí. „Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessari ferð. Hún hefur mun meira þýðingu fyrir mig en að setja heimsmet,“ segir hann í viðtali við fréttavefinn. Ísland sé ótrúlega fagurt land og Íslendingar séu þekktir fyrir gestrisni. Stærsta áskorunin verði við suðurströndina þar sem gríðarstórar öldur berji strendurnar án afláts. Ferðin muni reyna á hæfni hans, reynslu og úthald til hins ýtrasta.

Róður Morley meðfram bresku og írsku ströndunum tók hann sex mánuði enda vegalengdin um 7.250 km en sá róður var í góðgerðarskyni. Íslandsróðurinn verður einnig í góðgerðarskyni og vonast Morley til þess að safna í það minnsta tíu þúsund sterlingspundum í þeirri ferð.


Eftir þessa frétt sem ég sá í wwww.mbl.is þá hlýt ég að mega spyrja hvar eru íslensku sjókajakhetjurnar? Eigum við bara að vera sofandi á verðinum yfir þessu og láta einhvern Breta verða fyrstur til stela af okkur metinu?
Ég meina pæliði svo þegar íslendingur ætlar að gera þetta loksins þá segjum við auðvitað “Big deal, einhver Breti var á undan þér. En þú varst samt fyrsti íslendingurinn sem þorðir loksins”.

En þar sem þetta verður á næsta ári þá eigum við ennþá tækifærið að verða undan áætlun ekki satt?