Jahá við búum í skrýtnu þjóðfélagi…

Mbl.is…

Nautakjöt fæst vart orðið í Bónusi og innlendur markaður annar ekki eftirspurn. Þetta segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, og gagnrýnir ákvörðun Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra, að hafna beiðni um innflutning á kjöti frá Argentínu.

„Við erum óhress með að svona innflutningur sé bannaður meðan íslenska framleiðslan annar ekki eftirspurn,“ segir Guðmundur og bætir við að neytendur líði fyrir skortinn á nautakjöti enda hafi verðið hækkað um tugi prósenta.

„Við höfum þurft að selja nautahakk á 1.300 krónur kílóið en það ætti alls ekki að fara yfir þúsund krónur.“

Guðmundur segir að Bónusverslanirnar séu langt frá því að fá inn það magn nautakjöts sem þær þurfa. „Mér finnst mjög skrítið að innflytjendur fái ekki að flytja inn kjöt á þessum tíma og þegar forsendurnar eru þessar,“ segir Guðmundur.


Og…

Nautið Guttormur var fellt í morgun. Guttormur, sem vakið hefur mikla athygli í Fjölskyldu og húsdýragarðinum í Laugardal, var 12 vetra og hefði orðið 13 vetra 12. október næstkomandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsdýragarðinum hefur Guttormur, sem um tíma var þyngsta naut landsins, þjáðst af gigt í langan tíma, hafi hann átt erfitt með gang og verið mjög veikur og því var ákveðið að fella hann. Guttormur verður grafinn í gæludýragrafreit í Kjós síðar í dag.

Guttormur var með þyngstu nautum á landinu. Þyngstur mældist hann eitt tonn. Þegar hann var vigtaður fyrir tæpri viku síðan hafði hann lést nokkuð og var 860 kíló.

Í bígerð er að reisa Guttormi minnisvarða enda segja starfsmenn Húsdýragarðsins, að þeir efist um að jafn geðgott naut komi í hans stað.