Hægt að koma í veg fyrir smit
Íslendingar eru betur settir hvað varðar fuglaflensusmit í alifuglum heldur en aðrar þjóðir í Evrópu. Sjaldgæft er að íslenskir hænsnfuglar gangi úti á Íslandi.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá því að Íslenskir farfuglar blandi í vetur geði við farfugla frá Síberíu, þar sem fuglaflensa geisar. Farfuglar sem koma frá Kína og Suðaustur Asíu bera flensuna á sumarstöðvar sínar í Síberíu. Níu milljónir vatna- og vaðfugla fara frá Síberíu til Evrópu á hverju ári og eiga þeir sér vetrarheimili á meginlandinu og Bretlandi - eins og fjöldi farfugla sem á sér sumarstöðvar hér á landi. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir andfugla bera fuglaflensuna með sér um allan heim. Hann sagði andfuglana vera náttúrulega hýsla veirunnar og því getur veiran borist hvert sem er þar sem um farfugla er að ræða.

Hann sagði að eina sem hægt er fullyrða varðandi smitleiðir er sú staðreynd að menn smitast af fuglum en veiran berst ekki á milli manna og því ekki hægt að fullyrða að veiran verði að faraldri hjá mönnum. Hann sagði ólíklegt að skotveiðimenn sem veiða sýkta fugla smitist af þeim. Hann sagði einnig að hægt væri að koma í veg fyrir smit meðal fugla hér á Íslandi með því að halda hænsnfuglum frá andfuglum. Hann benti einnig á að íslensk hænsn væru í lokuðum búrum og því lítil hætta á að veira komist í hænsnfugla.