Hinsegin dagar í Reykjavík hafa sent bréf til borgarstjórans í Varsjá í Póllandi til að mótmæla því að hann ætlar að koma í veg fyrir að samkynhneigðir íbúar borgarinnar geti farið í gleðigöngu („gay parade“). Eins og kunnugt er hefur slík ganga farið fram í ágústmánuði í Reykjavík undanfarin ár undir yfirskriftinni „Gay Pride“. Gangan fór fyrst fram í New York árið 1967.

Heimir Már Pétursson, formaður Hinsegin daga og varaforseti Inter-Pride, minnir borgarstjórann á í bréfinu að Pólland, sem nýverið gekk í Evrópusambandið, hafi þar með undirgengist lög um mannréttindi. Þessi mannréttindi nái líka yfir samkynhneigða. Pólsk stjórnvöld geti ekki valið hvaða réttindi þau virði og hver ekki.

Heimir Már segir það hryggilegt að í höfuðborg lands, sem áratugum saman laut alræðisstjórn þar sem mannréttindi voru ekki virt en sé nú frjáls vegna hetjulegrar baráttu þegnanna, skuli þeir þurfa að horfa upp á ákvarðanir um að banna gönguna. Skorað er á borgarstjórann að leyfa gönguna og sagt að málinu verði fylgt eftir allt til loka.

Að sögn Heimis Más kom kirkjan í veg fyrir það í fyrra að samkynheigðir og aðrir gætu farið í gleðigöngu. Fyrir um tveimur árum voru það hins vegar nýnasistar sem söfnuðu liði, um eitt þúsund manns, og börðu illilega á fjöuríu manns sem gengu Gay Pride. Á meðan hélt lögreglan sig fjarri. Í ár hafði fengist leyfi lögreglunnar en þá er það borgarstjórinn, trúlega fyrir tilstilli kirkjunnar, sem kemur í veg fyrir gönguna.

Heimir telur Hinsegin daga á Íslandi vera þá fyrstu til að mótmæla fyrirætlan borgarstjórans en hann á von á því að fleiri fylgi í kjölfarið.