Síðan hvenær var það réttlætanlegt hjá sælgætisframleiðendum að vita ekki hvað er í vörunum sem þeir senda frá sér? Ég var að borða Florida bita frá Góu áðan og tók eftir því að aftan á kassanum stóð “Gæti innihaldið snefil af heslihnetum eða möndlum”.

Ég veit að það stendur að það gæti innihaldið snefil en hvurslags gæðaeftirlit er það? Er uppskriftin mismunandi eftir dögum? Ætli þeir séu með kassa af “leyniefninu” sem enginn veit hvað er í nema mamma Jóns sem vinnur í framleiðsludeildinni? Þeir þyrftu þá að gefa fyrirvara fyrir ýmsu öðru ef þeir eru ekki vissir hvað er í þessu.

Nú er ég hættur að kaupa vörur sem “gætu” innihaldið eitthvað, sama hvað þetta hugsanlega efni þetta er.


Þið hélduð kannski að ég væri hættur núna en svo er ekki. Ég á nóg af nöldri eftir.

Í dag uppfærði ég Firefox hjá mér og adblock virkar ekki með útgáfu 1.0.4. Nú þarf ég að horfa á þessar helvítis auglýsingar út um allt.


Ég hata líka að hafa næstum slitið liðbönd í ökkla og þurfa að vera í ökklaspelku framan af sumri. Knattspyrna og paragliderflug eru ekki eitthvað sem ég get stundað af krafti næstu mánuði. Það er heldur ekki til að bæta ástandið að ég get ekki tekið verkjalyfin sem ég ég fékk uppáskrifuð, þau valda mér svo miklum magaverk að verkurinn í löppinni er skömminni skárri.

Af hverju þurfti Southampton svo að falla niður í Coca-Cola Championship? Nú verður miklu meira vesen að nálgast leiki hjá mínu liði í sjónvarpi. Það er líka ömurlegt að akkúrat núna er verið að sýna á SkjáEinum leikmenn og stuðningsmenn WBA fagna því að þeir hafi haldið sæti sínu í Úrvalsdeildinni.

Vona að ég verði ekki svona ósáttur þegar ég fæ út úr prófunum á miðvikudag.