Mig langar að benda ykkur á ef þið hafið lesið nýjasta “tilboðblaðið” frá BT-tölvum, og eruð að spá í að versla af þeim, að lesa fyrst eftirfarandi (varúð langloka):

Ung dóttir mín er undanfarna mánuði búin að vera að safna sér fyrir Gameboy Advance SP leikjatölvu og er að verða komin með nóg til að geta keypt hana. Þegar nýjasta “tilboðsblaðið” frá BT-tölvum datt inn um lúguna þá sá ég að þeir voru með mynd af leikjatölvunni og sá fyrir mér að hún hefði e.t.v. lækkað nægilega mikið til að dóttir mín gæti farið og keypt hina langþráðu vél.
Þegar ég skoðaði blaðið nánar sá ég að vélin var verðmerkt á 12.669 og leit út fyrir að hafa lækkað úr 13.660. Hljómar eins og heill 1000 krónu afsláttur ekki satt?
Málið var samt að tölvan hefur kostað 12.990 undanfarna mánuði og hafði skv. mínum útreikningum því bara lækkað um tæpl. 300 kall (12.990-12.699). Þar sem ég kannaðist ekki við þetta 13.669 verð þá hringdi ég að gamni í BT og spurði hvenær hún hefði kostað 13.669 og hélt kannski að þetta væru einhver mistök. Í samtali mínu við BT fékk ég mjög forvitnilegar upplýsingar um viðskiptasiðferði þeirra:
BT-tölvur setja í “tilboðsblöðin” verð í brotnum og heilum römmum þannig að maður skyldi ætla að það þýddi verð fyrir og eftir lækkun (brotinn rammi=gamla háa verðið, heill rammi=nýja lága verðið). Staðreyndin er hins vegar sú að “fyrir” verðið þarf ekki endilega að vera síðasta verð á viðkomandi vöru heldur bara upphæð sem varan hefur EINHVERN TÍMANN kostað hjá BT!
Dæmi: þið sjáið í BT-blaðinu t.d. MP3 spilara á 20.000 sem lítur út fyrir að hafa verið að lækka úr 40.000. Þá gæti hann hafa kostað 40.000 fyrir ári þegar hann var nýkominn á markaðinn, hafa lækkað í 30.000, síðan í 25.000 og hafa að lokum endað í 20.000 fyrir einhverjum mánuðum. Semsagt 20.000 kall er ekki tilboð, heldur bara þeirra venjulega gamla verð.
Ég spurði starfsmann BT hvort þetta væri almenn regla um verðin í bæklingum þeirra og þá fékk ég enn kostulegri upplýsingar!: Stundum nota þeir ekki einu sinni gömul verð frá sér sem “fyrir” verð, heldur nota verð sem þeir vilja meina að sé almennt verð á markaðnum.
Dæmi: DVD mynd kostar 4.990 hjá Okurmyndbönd ehf. en sama mynd kostar (og hefur alltaf kostað) 3.990 hjá BT. Þá gæti myndin verið auglýst í næsta BT blaði á 3.990 og í brotnum ramma á bak við 4.990 og þá liti út fyrir að BT hefði lækkað myndina um 1000 kall þó að hún hefði aldrei lækkað um krónu hjá BT.
Til að allra sanngirni sé gætt þá tek ég fram að BT-tölvur nefna ekki berum orðum að vörurnar hafi lækkað, heldur nota bara þessa heilu og brotnu ramma sem eiga augljóslega að láta líta út eins og um lækkun sé að ræða (kíkið bara á BT blað ef þetta er orðið ruglingslegt hjá mér).

Ég segi fyrir mína parta að ég hef lesið ótrúlega marga pósta með kvörtunum yfir BT, en ef þetta er ekki allt saman stór misskilningur hjá mér og starfsmanni BT, þá er BT ekki bara með lélega þjónustu heldur einnig með viðskiptasiðferði á lægsta plani!

Ef einhver starfsmaður BT les þetta þá væri gott að fá þeirra hlið á þessu.

Ps. Ég kvartaði líka við Neytendasamtökin