Ég var að blaða í gegnum ljóðabók um daginn og fann þetta ljóð eftir Steingrím Arason og ákvað núna að smella þessu inn á vefinn núna:

—————————————-
“Þetta kvæði var kveðið árið 1919 og selt á fyrsta sumardag á götum Reykjavíkur, er Bandalag kvenna hóf fjársöfnun í þarfir barna borgarinnar. Upp úr þessari viðleitni óx Sumargjöf og hátíðahöld sumardagsins fyrsta.

STÓRMÁLIÐ STÆRSTA

Hvert er stórmálið stærsta?
Er það stórpólitíkin hæsta,
að lyfta Íslandi í veldi valda,
sem virðingu frjálsra ríkja halda,
að fá því atkvæði á alheimsþingi,
svo allur heimur því lofdýrð syngi?
Nei, það er ei stórmálið stærsta.
Því líttu á fortíð með ljóma af sögum,
með leiði ríkja frá upphafs dögum.
Þau buðu birginn öllum álfum
og alheimskraftinum jafnvel sjálfum.
Er valdið var glæstast, dómsorð dundi
og dýrðin öll eins og spilaborg hrundi,
því prjál er ei stórmálið stærsta.

En hvert er þá stórmálið stærsta?
Að stinga upp forðabúrið læsta,
að ausa úr lindum lands og unnar
leyndum fjársjóðum náttúrunnar,
að láta hvert vatnsafl vélum snúa,
fá verksmiðjulýð og borgargrúa?
Nei, það er ei stórmálið stærsta.
Hin sanna gæfa er af göfgi runnin,
ei gulli keypt né í vélum spunnin,
við hliðina á auð rís eymd og voði,
svo andinn kafnar í matarsoði;
og æðra takmark á íslenzk snilli
en aurasöfnun og magafylli.
Gróði er ei stórmálið stærsta.

En hvert er þá stórmálið stærsta?
Að styðja og bjarga hinu smæsta.
Manngullið nema, móta, skýra.
Í manndómsátt hverri hönd að stýra.
Að fá hverju auga framsýn bjarta,
fylla samúð hvert mannlegt hjarta.
Já, það er stórmálið stærsta.
Sé gull það ávaxtað, ekki grafið,
er auðlegð vís, eins og djúpt er hafið.
Sú þjóð, sem elst upp við andlegt frelsi,
fær ytra sjálfstæði, brýtur helsi.
Ef helgast dáðum hver hönd, hver andi,
er heill og gæfa með þjóð og landi.
Uppeldi er stórmálið stærsta.”
—————————————–

Gleðilegt sumar!<br><br>——————————

ruglubulli 2003
,,Hvað er þetta líf sem allir virðast eiga en enginn notar?"
——————————