Settist fyrir framan sjónvarpið núna áðan og ætlaði að horfa á eitt stykki Friends þátt sem eru sýndir á Stöð 2. En það er ekki það sem ég ætlaði að skrifa um heldur ætlaði ég að tala aðeins um ömurleg slagorð ýmissa fyrirtækja og söluvara.

Það fyrsta sem mér dettur í hug er einmitt auglýsingin sem kemur alltaf á undan hverjum Friends þætti en það er bílaauglýsing frá Renault. Og slagorðið er eitt það allra versta sem ég hef nokkurntíman heyrt:
“Renault - býr til bíla”
JÁ ÉG VEIT AÐ ÞIÐ BÚIÐ TIL BÍLA! Þetta er nú einu sinni bílaauglýsing!

Þegar ég sá bílinn koma inn í myndina og kellingin fór að tala um hvað Renault væru frábærir bílar hugsaði ég ekki “Hmmm…. enn ein sjampóauglýsingin”.

Ég veit ekki hvort að maðurinn sem samdi þetta slagorð hafi verið fullviss um að fólk væri svo ótrúlega heimskt að það þurfi að taka það sérstaklega fram að Renault búi til bíla eða að hann sé bara einfaldlega hálfviti sjálfur.

Þetta jafnast næstum á við hina ömurlegu auglýsingu: “Ostar og smjör - meira fjör” sem má sjá við Hjallalyftuna uppi í Hlíðarfjalli. Þó er það henni til refsilækkunar að auglýsingin er milljón ára gömul og fólk því ekki jafn meðvitað um gildi markaðssetningar þá og það er í dag. Hún er því afsökuð. Renault auglýsingin er það ekki.<br><br>

…og að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði