Karlmenn í "Kvennastörfum" Ágætu Hugar

Ég hef lengi vel ætlað að deila reynslu minni af starfsvali mínu og nú er tíminn kominn. Ég vona að þessi grein veki sérstaklega karlmenn til umhugsunar um hvernig breikka má sjóndeildarhringinn og íhuga leiðir í lífinu sem þurfa ekki að vera bundnar við það hefðbundna.

Þegar ég var í 9. bekk, sem nú er þekktur sem 10. bekkur, var lagt fyrir okkur hefti með mögulegum námsleiðum í framhaldsskóla og þá áttum við að íhuga hvað við vildum gera í framtíðinni eða leggja drög að því og taka einhverja stefnu. Svo eftir smá umhugsun var hverjum og einum boðið að lýsa því fyrir bekknum hvað hann/hún vildi læra. Það vakti strax athygli mína að flestir voru að velja Náttúrufræðibraut, viðskiptabraut, málabraut og íþróttabraut. Ég velti því fyrir mér hvort það væri einhver sérstök ástæða fyrir því að flestir völdu sér þessar leiðir eða hvort þetta væri bara eitthvað sem væri tilviljunum háð. Þegar röðin kom að mér, eftir að vera búinn að fletta í gegn um námsvísinn, hafði ég tekið þá ákvörðun að velja eitthvað sem gæti vakið áhuga minn og jafnframt verið eitthvað nýstárlegt fyrir mér. Ég valdi Sjúkraliðabraut. Fyrstu viðbrögð sem ég fékk frá nánasta umhverfi var að ein stelpan aftarlega í bekknum gargaði:

“OJ, Skeina Gamla Fólkið!”

Þá hugsaði ég, nú fyrst að það er hluti af þessu starfi þá verð ég bara að taka því og varð enn ákveðnari. Einhverra hluta vegna vissi ég sáralítið um þessa starfsgrein, það hafði enginn minnst einu orði á hana í kynningunni og hvað þá minnst á að þetta gæti verið hentugt nám fyrir karlmann. Áhuga mínum var þó einhverra hluta vegna beint algjörlega að þessum kosti og ég var ákveðinn í að láta ekkert stöðva mig.

Þennan sama dag, þegar ég kom heim úr skólanum, var ég að velta því fyrir hvernig foreldrar mínir myndu taka þessu fyrst að öll viðbrögð innan skólans höfðu verið afar neikvæð. Þegar ég sagði þeim frá ákvörðun minni reyndu þau að telja mér í trú um að þetta væri ekki hentugt fyrir mig, lág laun og svoleiðis, en mér varð ekki haggað. Ég held að þau hafi séð fyrir sér, eins og svo margir foreldrar, einhvern glæstann frama í starfi eins og læknir, lögfræðingur, kaupsýslumaður eða bara eitthvað annað. Nú var ég búinn að fá aðeins betri hugmynd um hvað það er sem sjúkraliðar gera, m.a. hjálpa veiku fólki, og mér leist mjög vel á þá hugmynd. Á endanum sáu foreldrar mínir að ég var harðákveðinn og fóru að styðja mig í ákvörðun minni.

Þannig, eftir ýmsar hindranir, byrjaði ég í námi í framhaldsskóla og lauk síðan Sjúkraliðaprófi árið 1993 frá VMA og lauk svo stúdentsprófi 1994 eftir hvatningu frá móður minni um að eiga það upp á framtíðina. Ég var vitanlega eini strákurinn í bekknum og það tók ekki langan tíma að venjast því, bæði kennarar og samnemendur voru mjög hrifin (hrifnar) af því að karlmaður skyldi velja sér þessa leið. Ég er þó ekki eini karlmaðurinn í þessu starfi, sem betur fer, ég veit um ýmsa sem hafa valið eins og ég.

Í dag er ég starfandi á litlu hjúkranarheimili á kjalarnesinu sem heitir Víðines, áður var þar starfrækt vistheimili sem hét bláa bandið. Við erum tveir, karlmenn, sem vinnum þar og það sést betur með hverjum deginum sem líður að þetta virkilega er starf fyrir bæði kynin. Þá er ég ekki að tala kostinn við karlmenn af því að þeir eru svo sterkir eða þvíumlíkt, til þess höfum við hjálpartæki, nei, vegna þess að bæði félagsleg og andleg nálgun verður svo miklu breiðari og ríkari fyrir vikið. Auðvitað kemur fyrir að kvenkyns skjólstæðingur er ekki örugg með að hafa karlmann til að hjálpa sér með persónulegar athafnir, en það kemur með trausti og virðingu. Þegar það er til staðar er ekkert sjálfsagðara.

Ég veit það vel að bæði vistfólk og samstarfsfólk er mjög ánægt með, og þykir það dýrmætt, að vera með karlmenn líka í þessu starfi. Hluti starfsins, eins og komið hefur fram, er að hjálpa fólki með persónulega hluti og sumum vex það í augum að þvo gamla fólkinu á prívat líkamshlutum eða jafnvel bara að bursta tennurnar. Þetta eru allt saman hlutir sem maður yfirstígur með rétta viðhorfinu, það lærist og fyrir vikið verður maður bæði ríkari og víðsýnni á andlega sviðinu.

Margir eru að tala um að laun sjúkraliða séu lág, sérstaklega sjúkraliðar sjálfir eins og eðlilegt getur talist. Þó að maður vilji gjarnan fá hærri laun og að sjúkraliðastéttin verði metin að verðleikum þá finnast mér launin alls ekki slæm, því er að þakka þrotlausri kjarabaráttu Sjúkraliðafélags Íslands.

Þegar allt kemur til alls er þetta starf alveg eins fyrir karlmenn eins og fyrir konur. Ég læt það verða mín lokaorð í þessari grein og vona að fleiri karlmenn eigi eftir að skoða þetta nám með opnum hug eins og ég og örfáir útvaldir hvafa gert.

Hægt er að skoða námsmöguleika á vefsvæði SLFÍ eða <a href="http://www.slfi.is">Sjúkraliðafélag Íslands</a>

Með Kveðju
POE