Sólin skín á augnlokin mín. Hvað er klukkan? ÞRJÚ?! WTF… farið mitt er pottþétt farið. Hehe. Farið farið. Af hverju er samt ekkert í gangi? Enginn á Arnarhóli, enginn á Lækjartorgi.

Ég er nývaknaður - vaknaði í strætóskýlinu við Lækjartorg og labbaði upp að strætóskýlinu við Arnarhól í Hverfisgötu í glampandi, glimrandi sólskini. Í gær keypti ég lítra af vodka í fríhöfn í útlöndum fyrir pínku pons af pening. Fullkomlega óútsofinn fór ég í partí þar sem við helltum því í einhverja skál ásamt öðrum minna áfengum vökvum. Ég man eftir að hafa labbað úr húsinu en ekki í hvað og hvert leiðin lá eftir það. Algert og óbrotið blackout.

Ég rölti upp eftir Hverfisgötunni heim á leið. Kannski ég brjótist aftur inn heima með því að klifra inn um svalirnar, enda ekki enn kominn með lykilinn. Fyrir utan Ellefuna er þybbinn maður að hrópa á eftir leigubíl, en allt er til einskis, og hann hjúfrar sig að húsinu. Ég finn til með honum, enda blindfullur sjálfur og sé ekki fram á að verða hressari næstu tímana.

Alla leiðina undra ég mig á hvað er ótrúlega lítið á seyði. Klukkan í símanum mínum sýnir 14:50 og samt er ekkert í gangi nema geðbiluð sólin og götuhreinsivagn.

Á Hlemmi stöðvar mig danskur túristi og spyr hvenær Hlemmur opnar. Hlemmur lokaður?! Hvað er klukkan eiginlega? Tíu mínútur yfir átta. Hvað í fjáranum gerðist í nótt? Af hverju stillti ég klukkuna fram um sjö og hálfan tíma? Af hverju er batteríið að verða búið? Af hverju hringdi ég í mömmu klukkan hálftvö?

Það var plan hjá mér, á meðan ég var enn með réttu ráði í gær, að klára inneignina mína svo ég gæti ekki gert heimskulega símagrikki. Það hefur greinilega ekki virkað. Sem betur fer er símtalaskráin frekar stutt.

Mér fallast hendur og segi túristanum að ég hafi ekki grænan grun, snýst á hæl (ekki skrítið að farið mitt hafi ekki svarað í símann klukkan átta að morgni laugardags!) og geng uppeftir í háskólann. Þar er þó internet og vatn. Óútsvefn á óútsvefn ofan hafa gereyðilagt augun í mér. Og hvar get ég fundið tannbursta?

Gegnt BSÍ pissa ég í runna og brosi framan í konu sem skokkar framhjá með barnavagn.

Í N1 við göngubrúna ætla ég að kaupa mér Serrano eða Subway en hætti við og fæ mér Trópí sjöu. Af hverju er ég með þrjúþúsundkall í vasanum?

Fyrir utan háskólann kemst ég að því að háskólatorg er lokað og læst. Borðin og stólarnir standa uppstöfluð saman fyrir utan, fastkeðjuð. Ég sest á stólastaflann, halla mér yfir borðin og sofna.

Lögberg er lokað líka svo ég labba yfir Suðurgötuna og staðfesti að Háskólabíó er lokað líka, sem og VR-II. Letigarður sömuleiðis svo ég leggst í grasið fyrir utan VR-II og sofna aftur. Sólin skín enn. Ég vakna skjálfandi hálftíma síðar og ligg í nokkurn tíma með lokuð augun. Þegar ég opna þau eitt skiptið er maður gangandi framhjá. “Ertu að bíða eftir lykli?” Næs! Hann hleypir mér inn og ég hleyp í vatnskrana, bursta tennurnar með pappírsþurrku og finn mér tölvu til að auglýsa eftir gærkvöldinu. Því það er mér algerlega horfið.