Þetta er ekki mín grein. Ég sá hana á er.is og birti hana með leyfi greinarhöfundar.


Þið, sem haldið því fram að það sé skynsamlegt að samþykkja Icesave, hafið alfarið rangt fyrir ykkur. Flest ykkar hafa verið mötuð upplýsingum án þess að kynna ykkur hina hliðna á málinu. Það er bráðnauðsynlegt þegar kjósa á um svo stóra ákvörðun sem þessa.

Í fyrsta lagi liggur alveg gífurleg óvissa í kringum upphæðina sem við Íslendingar eigum að borga ef við samþykkjum samninginn. Þetta veltur allt á eignum Landsbankans, sem engum er kunnugt um að svo stöddu.

Í öðru lagi er upphæðin bundin gengi krónunnar því við borgum í erlendum gjaldeyri. Þessir 50 milljarðar gætu auðveldlega orðið að 200 milljörðum ef krónan lækkar um 20%. Þó mætti mæla á móti þessu með því að ef krónan hækkaði myndi lánið minnka… hvað er þetta orðið að, einhverju fjárhættuspili?

Í þriðja lagi er ekki ódýrara fyrir okkur að borga samninginn. Það að fara til dómstóla kostar undir milljarð á ári, og hver þjóðaratkvæðakosning kostar um 100-500 milljónir. Þessar upphæðir eru dropi í hafið miðað við hvað við “eigum” að borga.

Í fjórða lagi er það ákvæði að ef Íslendingar lenda í vanskilum með önnur lán sín geta Bretar og Hollendingar gjaldfellt allt þetta. Það þýðir að þeir geta krafist allrar upphæðinnar strax, þ.e. ekki leyft okkur að borga þetta árum saman. Þess má geta að þetta ákvæði er ekki vaninn í milliríkjasamningum.

Í fimmta lagi er verið að láta okkur borga meira en lágsmarksinnistæðutrygginguna. Skv. lögum um innistæðutryggingasjóðinn þá á sá sem fær greitt úr honum á að framselja alla sína kröfu á bankann til innistæðutryggingasjóðsins en þannig er það ekki skv. þessu samkomulagi. Hann framselur bara þeim hluta sem nemur lágsmarkstryggingaverndinni.

Ég hvet ykkur öll til að taka meðvitaða ákvörðum um örlög okkar ástkæra lands.