Ég prófaði að pota í hausinn á mér með spurningunni “Hvernig er hægt að vera öðruvísi þegar allir eru mismunandi?” og þetta lak út.


Það virðist einkenna manneskjur að því betur sem maður kynnist þeim, því einstakari verða þær. Það sama gildir líka um dýr, bækur, hjólastóla og grjótstykki. Það er orsök og forsenda persónulegra tengsla við hluti, dýr og persónur að þau virðast öðlast dýptir við nánari athugun, þegar þær voru augljóslega til staðar áður. Þær eru uppgötvaðar með því að potast til í þeim. Það er því skiljanlegt að engum er sérstaklega hlýtt til smáslummu af vatni, nýrra bíla eða auðs A4 ljósritunarpappírs. Vatnið er samfellt og einsleitt. Nýir bílar eru hluti raðar sinna líka og aðeins með rannsókn og prófun á eiginleikum slíks getur maður numið dýptir hans. Því betur sem hann er aðskiljanlegur öllum hinum bílunum, því persónulegri verða tengslin við hann. Nýbílalyktin þarf að hverfa og kannski maður fái sér einkanúmer, smávægilegar bilanir verða hluti “persónuleika” bílsins. Vatnið verður ekki áhugavert fyrr en maður frystir það og greinir þannig frá öðru vatni. Í tilfelli A4 blaðanna eru eins og í nýja bílnum dýptir sem maður getur kannað, hafi maður aðgang að smásjá, en ekki slíkar sem aðskilja þau frá öllum hinum. Til þess þarf maður að beygla það, lita, rífa eða áletra. Við pissum á fjöldaframleiðsluna til að gefa henni okkar eigin ilm.

En ekki allt er fjöldaframleitt. Allt grjót lítur eins út, en þegar vel er að gáð er hver klumpur með sína eigin lögun, sínar eigin holufyllingar, sína eigin veiku bletti, sprungur, holur, litbrigði og gljáa. Snöggt á litið eru flest lömb nauðalík, en smábóndi getur vel lært svipi kindanna sinna, þekkt skapgerðir þeirra og kæki. Það dýpkar skilning hans á viðkomandi kind, og slíkur skilningur á fjölda kinda dýpkar skilning hans á kindum almennt. Með auknum skilningi kemur aukið rúm til að setja sig í spor þeirra og því aukið rúm til að deila tilfinningum þeirra. Slíkt hlýtur að auka vináttu og jafnvel ást, þótt hún sé kannski ekki gagnkvæm. Í ljósi hæfni manneskjunnar í manngervingu ólíklegustu hluta (meira að segja tunglsins) er líklegt að bóndinn myndi reikna með einhverri gagnkvæmri tilfinningu í búdýrum sínum, þótt þau gætu allt eins bara hafa vanist viðurvist hans og þannig fælst hann minna. Það sama gildir um gæludýr, nánast sama hve einfeldingsleg. Barn sem tekur járnsmið ástfóstri gæti dýpkað skilning sinn á og því samúð sína með honum með langvarandi athugunum á atferli hans. En myndi það taka sig til og rannsaka fleiri járnsmiði eða jafnvel aðrar pöddur myndi það sjá að sá skilningur var ekki færður því persónulega. Járnsmiðurinn var þvingaður til sýningarinnar af eðli sínu sem hann deilir með öðrum járnsmiðum.

Samskipti við manneskjur eru svo öfgafyllsta dæmið um þessa dýptaleit, enda líklega að einu eða öðru leiti uppspretta allra hinna. Við erum svo vön samskiptum við manneskjur og öllu því atferli sem þeim fylgir að það flæðir yfir í aðra hluta lífsins. Mannleg samskipti eru okkur gífurlega mikilvæg og í þeim reynum við að öðlast sem dýpstan skilning á öðrum. Þessi þekking leyfir okkur, eins og í tilfelli bóndans, að setja okkur í spor annarra og sjá fyrir hvernig þau munu bregðast við mismunandi aðstæðum. Þar sem slík dýpt ræðst af öllum reynslum sem maður býr yfir getur hún verið gríðarleg. Sá hæfileiki okkar að geta metið fyrirfram viðbrögð annarra við ákveðnum atburðum er okkur og samfélagi ómissandi. Hann hindrar okkur til dæmis í að ganga upp að skapbráðum kjötskurðarmanni að störfum og segja við hann “ég svaf hjá konunni þinni!”

Við köfum daglega í þessum dýptum, en við fáum líka daglega fréttir af jafn ópersónulegum persónutengdum fréttum og mögulegt er. Hundrað manns dóu hér, þúsund manns eru atvinnulausir þar og tuttugu manns hafa fundið upp á þessu. Ástæða þess að hápersónulegar fréttir eins og stök dauðsföll eða afbrigðilegar fæðingar ná svo mikilli athygli í fjölmiðlum er að þar er dýptum viðfangsefnanna lýst, við fáum að setja okkur í þeirra spor. Þegar tvöhundruð manns dóu í eldsvoða í Kongó nýlega vegna sprungins olíubíls sáu fáir myndirnar af eftirköstunum. Tvö hundruð kolsviðin og stjörf lík, uppstillt á fátæklegu bæjartorgi, biðu þess að á þau væru borin kennsl. Hver og ein þessara manneskja hafði dýptir sambærilegar við hvert og eitt okkar.

Ég tek þetta dæmi ekki vegna þess að það er neitt merkilegra en hver önnur hamför. Ég mælist ekki til þess að við ímyndum okkur tvöhundruð persónur og göngum svo í gegnum þá sálarþján að drepa hverja og eina í huganum til að skilja ömurðina sem atburðurinn olli. Við höfum hvorki tíma til þess né gagn af því. En það er alltaf gagnlegt að hafa í huga þessa vídd slíkra ópersónulegra talna, á sama hátt og það er vert að gera sér grein fyrir því að fyrir nánast öllum í heiminum erum við líka slík dýptarlaus tala. Engu að síður erum við, eins og við vitum best sjálf, meðvituð og búin hafsjó af reynslu, hvort sem við erum offitusjúklingur á McDonald's, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu eða fangi á leið til aftöku.

Þetta magn reynslu skal þó ekki ofmetið. Stóran hluta reynslunnar deilum við með samlöndum okkar, aðeins minna hennar með samálfum okkar (“heimsálfa”, ekki “álfur”) og ögn minna með öllum í heiminum. Það mætti kalla okkur “mis-jöfn”, eða “öðru-eins”. Við erum öll flatt, teygjanlegt yfirborð og það þarf að potast aðeins í því til að komast að innri dýptum okkar. Við hengjum stundum hluti eins og klippingu okkar og föt á þetta yfirborð til að gefa út eigið efnisyfirlit, stundum til að fela það. Og því miður er í fljótu bragði ekkert sem mér dettur í hug til að vera öðruvísi í veröld fjölbreytileika en að hengja eins mikið utan á þennan flöt eins og maður getur til að auglýsa hvað er fyrir innan. En það er kannski ekkert góð hugmynd. Fólki finnst gaman að potast eftir því sjálft.