Detox Jónínu Ben er fyrirbæri sem flestir ættu að hafa heyrt um. Ekki er þó víst að flestir þekki vel til þessa fyrirbæris eða út á hvað það gengur. Fyrir þá sem ekki þekkja til málsins þá rekur Jónína Benediktsdóttir Detox hótel í Reykjanesbæ, sem hún kallaði “Detox-læknismeðferð” þar til landlæknir fór að gagnrýna meðferðina sem þar fer fram, núna er meðferðin einungis kölluð “Detox-meðferð” á vefsíðu stofnunarinnar (http://detox.is). Meðferðin gengur út á að þú skráir þig inn á þetta hótel (mælt er með að þú dveljir þar í tvær vikur, það er dýrara, þið skiljið), það er mælt með að þú hættir að neyta lyfja ef þú ert á einhverjum slíkum, það er mælt með að þú neytir einungis fimmhundruð hitaeininga á dag (þó svo að læknar og næringafræðingar mæli alfarið gegn því), þú stundar létta leikfimi fyrir öll getustig og þú ert í ánægjulegum félagsskap. Ef þetta allt saman dugar svo ekki til að laga heilsu þína þá er þér einnig boðið upp á svæða- og sogæðanudd og ristilskolun. Hið síðarnefnda felst í að hjúkrunarfræðingur dælir vatni upp í ristilinn á þér og sogar það svo aftur út, ásamt skítnum úr þér. Með þessu er þér lofað að þú munir ekki bara missa öll aukakíló heldur munt þú líka læknast af sjúkdómum sem þú hrjáist af, hvort sem það er gigt eða MS sjúkdómur. En ef þú ert í kjörþyngd og það ekkert að þér þá er þessi meðferð bara holl og góð, hvort eð er.

Maður þarf ekki að hafa meira vit heldur en þröskuldur til að sjá að það að láta skíthreina sig og japla á ávöxtum í tvær vikur er ekki að fara að lækna MS eða gigt, og ef þú léttist af því að neyta fimmhundruð hitaeininga á dag þá munu þau kíló sem þú misstir koma aftur um leið og þú ferð að borða rétt aftur. En það virðist sem að óþarflega margir séu einfaldlega ekki mikið gáfaðri en meðal-þröskuldur og láta selja sér auglýsingamennsku Jónínu Ben með því að drífa sig að eyða morðfjár í þessa meðferð sem á að vera lausn á öllum heimsins vandamálum. Bæði Jónína Ben og meðferðin sjálf hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni frá læknum, næringafræðingum og almenningi undanfarnar vikur og margir hafa kallað Jónínu Ben loddara og kuklara, en hún Jónína lætur ekki bugast og heldur því statt og stöðugt fram að hún vinni með erlendum læknum að þessari meðferð (þess má til gamans geta að það er ekkert neinsstaðar sem bendir til þess að pólsku læknarnir á bakvið þessa meðferð séu læknar í alvörunni) og að hún hafi áhuga á að vinna með læknum hér á landi (þrátt fyrir að hafa nýlega gert lítið úr þekkingu þeirra á mannslíkamanum, sakað þá um menntahroka og yfirlýst að sem íþróttafræðingur viti hún miklu meira um næringarþörf líkamans heldur en þeir).

Ég heimsótti Detox hótelið í Reykjanesbæ nýlega, skoðaði mig þar um og sá ýmislegt áhugavert (til dæmis verðskrá staðarins). En ég gat samt ekki séð að það væru þarna á ferð einhverjar töfralausnir við líkamlegum vandamálum fólks, það sem ég sá voru miðaldra, feitar kerlingar skoppandi um í léttri leikfimi fyrir öll getustig, rússneskan hjúkrunarfræðing að framkvæma ristilskolun og Gunnar í Krossinum. Þar sem ég hef nú séð þetta með mínum eigin augum er ekki hægt að saka mig um vanþekkingu á meðferðinni þegar ég segi að trú mín á þessu kukli sé nákvæmlega engin. Það eru til skottulæknar og kraftaverkahyski sem trúa því af öllu hjarta að það sem þeir leggi stund á sé virkilega öllum fyrir bestu en ég tel mig vel geta fullyrt það að þeir sem eru á bakvið Detox meðferðina séu ekki einir af þeim. Förum aðeins yfir verðskrá staðarins. Tvær vikur þarna kosta 182.000 krónur. Kostnaðurinn skiptist niður svona:

Gisting og aðbúnaður - 9000
Grænmetis- og ávaxtafæði - 2500
Fræðsla, ráðgjöf og leikfimi - 1500

Svo ef þú ert einn af þeim sem þarft meira en þetta til að læknast og grennast þá kostar hver ristilskolun þig 9900 krónur og kostnaðurinn við sogæða- og svæðanudd er eitthvað um 7000 krónur (ég man ekki upphæðina nákvæmlega).

Á meðan seinni heimsókn minni á þetta hótel stóð ákvað ég að ganga á starfsmann í afgreiðslunni, sem reyndist vera einn af nuddurum hótelsins, með spurningar. Ég byrjaði á því að spyrja hvernig það stæði á því að Jónína hefði áhuga á því að vinna með læknum hérlendis en það væru samt engir læknar þarna, hvorki hérlendir né erlendir, og benti á að ef það væru læknar að störfum þarna myndi draga virkilega úr gagnrýninni sem bæði Jónína og meðferðin væru að hljóta um þessar mundir. Svarið sem ég fékk var að Jónína vinnur með læknum erlendis og það er hjúkrunarfræðingur þarna. Þá spurði ég af hverju þessir erlendu læknar væru aldrei þarna, þar sem það myndi jú, draga verulega úr áðurnefndri gagnrýni. Þá er mér svarað með því að Jónína starfi með læknunum erlendis. Ég sá þá að ég myndi aldrei fá fullnægjandi svör við þessum spurningum og fór þá að tala um ristilkrabba, sagðist hafa heyrt að meðferðin ætti að minnka líkurnar á að fólk fái hann. Mér var þá svarað með því að meðferðin geri öllum bara mjög gott, þó svo það séu skiptar skoðanir um það. Sem að svaraði spurningu minni engan veginn, en ég væri að ljúga ef ég segði að þessi tilsvör hefðu komið mér á óvart. Það eina sem heimsóknir mínar í þessa stofnun gerðu var að auka vantrú mína á henni. Þessi meðferð er ekkert annað en gagnslaust kukl og fólkið á bakvið hana er samansafn af loddurum sem nýta sér sakleysi og jafnvel örvæntingu fólks sem veit ekki betur til þess að féfletta það.

Lifið heil og sæl - án detox.
Well, you may throw your rock and hide your hand, workin' in the dark against your fellow man. But as sure as God made black and white, what's done in the dark will be brought to the light.