Núna hef ég áður skrifað um trúleysi mitt hérna, eða hvernig kristin manneskja varð trúlaus. Í mínu tilfelli þurfti hvorki mörg ár né mikið vit til þess að mér þættu hugmyndirnar um Guð, Jesú, heilagan anda, himnaríki og helvíti gjörsamlega fáránlegar. Aðrir, sem hafa farið í gegnum það sama og ég, þurftu fleiri ár og meira vit. Enn aðrir, þrátt fyrir mörg ár og mikið vit, fara aldrei í gegnum þetta og halda í sína trú alveg til dauðadags. Þegar ég varð fyrst trúlaus var ég afskaplega ignorant í þessum efnum. Ég var trúlaus og gerði einfaldlega ráð fyrir að flestir aðrir hlytu að vera það líka, því að mér þóttu hugmyndirnar um yfirnáttúrulega hluti svo fáránlegar. "Það trúir þessu enginn í alvöru“, hugsaði ég lengi vel. Ég hafði rangt fyrir mér. Það eru nefnilega mjög margir sem virkilega trúa þessu. Einhver hluti þeirra hefur boðun þessarar trúar að atvinnu og þiggur himinhá laun fyrir það. Það er ekki svo langt síðan ég fór að gera mér grein fyrir hversu margir virkilega trúa þessu og hvernig, þar af leiðandi, þessi trú þröngvar sér mikið upp á allt og alla, og hvernig margir sem trúa þessu eru fordómafullir í garð annarra trúarbragða og trúleysis. Fordómar í garð annarra trúarbragða eru ofar mínum skilningi, þetta er jú allt sama batteríið. Fordómar í garð trúleysis er eitthvað sem ég skil engan veginn. Hvernig sem ég reyni, þá fæ ég ekki skilið hvernig fólki getur þótt það slæmt að trúa ekki á neitt yfirnáttúrulegt.

Karl Sigurbjörnsson biskup, æðsti maður kirkjunnar, segir á opinberum vettvangi ”Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi“. Það er gríðarlega mikil fáviska og fordómar í þessum orðum herra Karls. Þetta er ekki eina dæmið um fordóma frá kirkjunni í garð trúlausra, en Sr. Birgir Ásgeirsson sagði, einnig á opinberum vettvangi, ”Heimskinginn segir: enginn er Guð“. Mér þykir gaman af því að nýleg rannsókn í Bretlandi sýnir að trúlausir eru almennt gáfaðri en trúaðir. Sr. Birgir ætti því að endurskoða þessi ummæli sín. Gáfumennið segir: enginn er Guð.

Ég á kristna ættingja, vini og kunningja. Langflestir þeirra hafa borið ýmsar spurningar á borð fyrir mig, trúleysingjann, og eru þær oftar en ekki fullar af svipaðri fávisku og fordómum og ummæli herra Karls og Sr. Birgis. Ég get þó auðveldlega fyrirgefið mínum nánustu, það er búið að innræta þennan hugsunarhátt í þau, þröngva honum upp á þau af mönnum á borð við herra Karl og Sr. Birgi. Það hlusta jú allir á stærsta krakkann í sandkassanum. Hér eru svo dæmi um slíkar spurningar:

Af hverju leyfirðu ekki öðrum að trúa því sem þeir vilja?"
Það er stór misskilningur að ég leyfi ekki öðrum að trúa því sem þeir vilja. Mér er alveg sama hvort Jón vestur í bæ trúi á Guð eða ekki. Það er trúboð Þjóðkirkjunnar sem ég er alfarið á móti, þar sem það veldur því að trúlausir og þeir sem aðhyllast önnur trúarbrögð heldur en kristni fá ekki að hafa sínar skoðanir í friði. Trúboð í grunnskólum finnst mér svívirða, þar sem það stendur í lögum að grunnskóli sé menntastofnun, ekki trúboðsstofnun og að þröngva þessum hlutum upp á börn sem hafa hvorki vit né þroska til að segja nei, takk er lágkúrulegt. Einnig er ég alfarið á móti því að ríki og kirkja tengist, þar sem það veldur því að þessi mismunun fær að lýðast. Ofurlaunaðir prestar Þjóðkirkjunnar virðast oftar en ekki telja sig yfir menn og lög hafna. Þegar aðskilnaður ríkis og kirkju næst, þá skal ég ekki tala oftar um trúleysi mitt opinberlega, þar sem ég mun ekki hafa neina ástæðu til.

"Trúleysingjar eru oft svo hrokafullir
Já, þvílíkur hroki að trúa ekki að heimurinn hafi verið skapaður undir rassgatið á mér og að Guð bíði mín svo með eitthvað fullkomið líf á himnum þegar ég dey. Hvernig fólk nær að tengja þetta við hroka er ofar mínum skilningi. Mér þykir það meiri hroki að telja þá sem trúa ekki heimska og ógn við samfélagið.

Finnst þér ekkert tilgangslaust að trúa ekki á neitt, engan æðri mátt eða eftirlíf?"
Nei. Ég þarf engan æðri mátt til að leiðbeina mér í gegnum lífið, ég get séð um það sjálf. Mér finnst tilhugsunnin um að það einhver æðri máttur til talsvert verri heldur en að hann sé ekki. Tilhugsunin um einhvern eða eitthvað sem fylgist ávallt með mér og öllu sem ég geri og segi þykir mér…ógeðfelld. Jafnvel öfuguggaleg. Ef mér byðist að ráða hvort það væri einhver æðri máttur eða ekki, myndi ég afþakka pent. Menn geta nefnilega séð um sig sjálfir og gefið lífi sínu tilgang sjálfir. Hvað varðar eftirlífið, eða skort á eftirlífi, þá þykir mér sú tilhugsun alls ekki slæm. Mér þykir tilhugsunin um að eitthvað í líkingu við draumlausan svefn taki við eftir lífið bara frekar notaleg. Ég hef engan áhuga á að lifa að eilífu, mér er alveg sama hvort það er í einhverju himnaríki eða hvort ég endurfæðist í öðru lífi. Hugmyndin um eilíft líf fær mig til að andvarpa. Maður spyr sig svo, hvor ætli lifi innihaldsríkara og tilgangsmeira lífi, trúleysinginn sem veit að það er bara þetta líf og svo ekkert meir eða trúmaðurinn sem sættir sig við leiðinlega hluti í lífinu því allt mun verða svo geðveikt frábært í himnaríki?

"Þig skortir kærleik"
Nei. Kristin trú boðar vissulega kærleik, en það virðist sem fullt, fullt af kristnum mönnum skorti þennan kærleik á allan hátt. Kristnir menn gera góða hluti því Guð segir þeim að gera það. Trúleysingjar gera góða hluti því þeim finnst það vera réttu hlutirnir til að gera. Þegar ég geri góða hluti þá er ég að gera þá því ég vil það og þá er ég ekki að hugsa um alla bónusana sem ég fæ fyrir vikið frá Guði þegar ég dey. Gerir það mig ekki að kærleiksríkri manneskju? Ég hefði haldið það.
Þetta virkar líka á öfugan hátt, kristinn maður gerir slæman hlut og felur sig bakvið trúnna. Eða segist jafnvel gera þá út af trúnni (sbr. Guðmundur í Byrginu). Trúleysingi gerir slæman hlut og felur sig ekki á bakvið trúleysið.

Tilefni þessarar greinar er páskadagur, dagurinn þar sem það reis í rauninni enginn upp frá dauðum.
Well, you may throw your rock and hide your hand, workin' in the dark against your fellow man. But as sure as God made black and white, what's done in the dark will be brought to the light.