Þunglyndi Upplýsingum þessum er ætlað að auka þekkingu og skilning fólks á þunglyndi en þúsundir Íslendinga líða af þeim sjúkdómi dag hvern.

Þunglyndi er sjúkdómur, sem orsakast af röskun í boðefnakerfi heilans. Það er mikilvægt að skilja milli sjúkdómsins þunglyndis og þess trega eða dapurleika sem við öll getum fundið fyrir, t.d.í sambandi við sorg eða missi.

Áhugaleysi:Hinn sjúki finnur fyrir tómleika og missir áhugann á daglegum athöfnum sínum. Hann glatar smátt og smátt ánægjunni af vinnu sinni og tómstundum. Lífið verður sífellt gleðisnauðara og hinn sjúki vinnur störf sín eingöngu af nauðsyn.
Dapurleiki:Hinn sjúki finnur fyrir leiða án þess að skilja hvers vegna. Hann verður einnig grátgjarn án sýnilegrar ástæðu.
Úthaldsleysi:Hinn þunglyndi á erfitt með að hafa frumkvæði, að byrja á einhverju. Á umhverfi sitt virkar hann nánast latur.
Sektarkennd:Hinn þunglyndi þjáist af sektarkennd yfir að hafa ekki komið því í verk sem hann hafði ætlað sér og finnst hann vera byrði á umhverfi sínu. Jafnframt getur hinn þunglyndi fundið til mikillar vanmáttarkenndar og fundist hann óþarfur. Oft leiðir hann hugann að því sem farið hefur úrskeiðishjá honum í gegnum tíðina.
Viðkvæmni: Hinn þunglyndi hugsar oft um hvað hann hafi staðið sig illa í lífinu og hve lítilsigldur hann sé. Jafnframt verður hann oft viðkvæmari fyrir athugasemdum frá umhverfinu. Hann er auðsærður og móðgast oft.
Þreyta og máttleysi: Þunglyndinu getur fylgt þreyta frá morgni til kvölds. Magnleysi er mikið og erfitt getur reynst að takast á við dagleg störf.
Reiði: Enda þótt þunglynt fólk ásæki sjálft sig gjarnan og taki oft á sig fráleitar sakir getur það einnig látið reiði og ergelsi ná tökum á sér og þannig sýnt á sér áður óþekktar hliðar. Slíkt fólk getur orkað sem vanstillt á umhverfið.

Allir geta orðið þunglyndir!!

Áleitnar hugsanir sækja á um daginn sem í hönd fer og allt sem eftir er að koma í verk. Jafnframt á hinn sjúki erfitt með að koma sér fram úr rúminu að morgni. Allt virðist erfitt og óyfirstíganlegt.

Flestir einstaklingar sem lenda áföllum geta leyst úr vanda sínum með því að tala við sína nánustu, vini, nágranna og aðra. Þegar við hittum fólk sem er í vanda, er það fyrst og fremst hlutverk okkar að hlusta, aftur og aftur þótt við höfum heyrt söguna fyrr, stundum margsinnis. Sá sem hefur lent í slíku áfalli vinnur á vissan hátt úr því með því að tala um hvað gerst hefur. Við verðum að gera okkur það ljóst, að við getum ekki huggað þann sem fyrir áfallinu hefur orðið að öðru leiti en því að vera til taks og veita honum stuðning.

Gangur þunglyndis: Algengast er að þunglyndi fari hægt af stað og versni smámsaman. Hinn þunglyndi verður erfiður, eigingjarn, ímyndunarveikur og framtakslaus; hann staðnar smátt og smátt. Sjúkdómurinn getur orðið lífshættulegur m.a. vegna vökvataps og þyngdartaps. Ómeðhöndlað þunglyndi getur í undantekningartilvikum dregið sjúkling til dauða. Alvarlegustu afleiðingar þunglyndis eru þverrandi lífslöngun og sjálfsvígshugsanir.

Sjálfsvígshugleiðingar: Þunglyndi getur verið svo alvarlegt að einstaklingurinn óskar sér einskis annars en að fá frið með því að stytta sér aldur. Aðrir hafa sektarkennd og finnst þeir byrði á meðborgurum sínum og ættingjum greiði gerður ef þeir svipta sig lífi. Sjálfsvígshugleiðingar skal alltaf taka alvarlega ekki síst hjá þeim sem eru nokkuð við aldur.

Stundum fá einstaklingar, er líða af þunglyndi, þá tilfinningu að dauðinn einn geti leyst þá undan þjáningum. Nauðsynlegt er að taka alvarlega slíkri tilfinningu og hafa samráð við lækni um viðbrögð. Strax og þunglyndi léttir hverfur þessi tilfinning.
Sjálfsvíg eru alvarlegustu afleiðingar þunglyndis. Um helmingur allra þeirra einstaklinga er fremja sjálfsvíg, líða af þunglyndi. Talið er að um 10% þeirra er þjást af einkennum þunglyndis fremji sjálfsvíg.

Viðbrögð aðstandenda verða gjarnan sjálfsásakanir eða gremja. Oft mætir þó sjúklingur skilningi einkum þegar einkennin verða þung og augljós. Þegar orsakir eru margþættar og einkennin verða áberandi má t.d. heyra “hún hefur rétt á því að vera þunglynd, hún hefur gengið í gegnum svo margt”. Með slíkum skýringum er gjarnan gengið fram hjá þeirri staðreynd að viðkomandi einstaklingur réði ekki lengur við vandamál sín og þurfti því aðstoðar við.

Þar sem þunglyndi getur leitt til verulegra hugarfarsbreytinga bregðast einstaklingar stundum við á annan hátt en til er ætlast. Jafnvel vinahót og hvatning t.d. “vertu nú duglegur þá líður þér betur” getur verkað neikvætt. Þunglyndi er sjúkdómur sem menn hrista ekki af sér.

Mælt er með eftirfarandi:
•Haldið eins eðlilegum samskiptum og mögulegt er.
•Oft fer sjúklingur ekki að ráðum læknis.
•Nauðsynlegt er að hvetja hann til að fylgja meðferð eftir.
•Látið lækni strax vita ef sjúklingur fer að tala um lífsleiða eða sjálfsvíg. Það er alrangt sem stundum er haldið fram, að sjúklingar er tala um sjálfsvíg, fremji þau ekki.
•Hvetjið sjúkling til göngu eða hreyfingar.
•Bendið á neikvæða þætti í hugsun einstaklings, án þess að vera gagnrýnin.
•Látið einstaklinginn vita að hann þjáist af þunglyndi og að einkennin stafi af því. Brosið og verið hvetjandi. Talið vingjarnlega við sjúkling og hrósið honum þegar tilefni gefst til.
•Sýnið honum að ykkur er ekki sama um hann og látið hann njóta hlýju og virðingar.

Rétt er að forðast eftirfarandi:
•Ásakið ekki sjúkling vegna einkenna hans.
•Bíðið með viðkvæm mál þangað til að sjúklingur hefur náð sér.
•Forðist umræður er geta dregið úr sjálfsmati sjúklingsins.

Þunglyndi leiðir oft til þess að einstaklingar verða ekki ráðþægir, hafna jafnvel aðstoð, sýna vanþakklæti og óþolinmæði. Stundum þurfa því aðstandendur jafnvel ekki síður aðstoð og leiðbeiningar en sjúklingarnir.

Mikilvægt er að aðstandendur örvi hinn þunglynda til þess að trúa því að hann nái heilsu á ný. Aðstandendur geta gegnt mikilvægu hlutverki við að styðja hinn þunglynda, sérstaklega í að taka lyf sín reglulega og útskýra, að þau hafi bætandi áhrif en séu ekki einhverjar taugatöflur sem sljóvgi einkennin. Það er mikilvægt að aðstandendur særi ekki hinn sjúka með athugasemdum um að hann geti sjálfur rifið sig upp úr þessu. Annarsvegar vegna þess að það er ekki á valdi sjúklings og hins vegar vegna þess að ef hann fær slík skilaboð getur það leitt til þessað hann fái neikvæða sjálfsmynd og sektarkennd.

Hvaða aðstoð geta nánustu aðtandendur veitt?
•Hafðu trú á þeim sem er haldin þunglyndi: “þér á eftir að batna….” “ það er hægt að hjálpa þér….”
•Sparaðu ráðleggingarnar: “ Ef ég væri í þínum sporum þá…” “Taktu þig nú saman og….”
•Farðu ekki útí miklar vangaveltur um ástandið: “ hvernig stendur á því að…”

Algengur misskilningur og fordómar
•Þetta líður hjá
•Þetta eru bara taugarnar
•Þú getur áræðanlega fengið betri útskýringar hjá sálfræðingnum
•Nú getur þú áræðanlega hætt að taka töflurnar

Munið að þunglyndi er engum að kenna og að engar einfaldar sálfræðinlegar skýringar eru til.
Það er mikilvægt að benda á að þunglyndi er sjúkdómur og er ekki það sama og að vera sturlaður eða geðveikur. Engu að síður getur sjúklingi liðið mjög illa.

Þunglyndi er sjúkdómur sem verður að taka alvarlega.


Mig langaði að gera þessa grein svo fólk skilji sjúkdóminn þunglyndi aðeins betur, og hafa upplýsingar fyrir fólk um hvernig best er að styðja þunglynda manneskju.