Í anda endurreisnarinnar sem á sér nú stað á huga eftir margra ára lægð vefsins þar sem notendur festust í nær endalausu sukki, volæði og hringavitleysum ákvað foringi vor, hinn háskólamenntaði Fróðleiksmoli og ritstjóri huga.is að bjalla í mig og spyrja hvort ég vildi ekki gangast við því að skrifa einhverskonar greinadálk og freistast með því að vekja upp von og baráttuhug fólksins á ný.

Fyrri hluta bréfsins eyddi hann í að skjalla mig (ánægjulegt að fá einkaskilaboð sem felst ekki í morðhótunum svona til tilbreytingar) og talaði um hversu ánægjulegt væri að fá að ausa úr ótæmandi brunnum visku minnar yfir hinn ófrædda lýð. Í seinni hlutanum renndi hann sér svo í skilyrðin og sagði að ég yrði að sjálfsögðu að gera það án þeirra háðsglósna, persónulegu árása og leiðinda sem almennt tíðkast í samskiptum mínum við aðra hugara.

"Er maðurinn heimskur?" spurði ég sjálfan mig, eru ófétin niður í HÍ búnir að krukka í hausnum á honum? Var hann að koma heim úr tveggja vikna dvöl í Njarðvík og endanlega búinn að missa vitið? Þetta er svolítið eins og að Churchill myndi segja óbreyttum þöngulhaus að hann yrði að fara að sigra Þýskaland einn síns liðs en vegna fjárskorts og bjúrókratísks hálfvitaskaps yrði hann að gera það með vatnsbyssum og sérþjálfuðum naggrísum.

En ég er auðvitað með of stórt egó til að hafna hverju tækifæri sem ég fæ til að upphefja mig (ég fékk 9 í heimspeki í haust btw) þannig að ég fór að íhuga hvað ég gæti skrifað um. Ég vissi auðvitað hvers var ætlast af mér af yfirvaldinu; eintómum hvolpum og sólskinsgeislum, þannig að ég leit inn í þennan sviðna svarta kolamola sem ég kalla hjarta og komst að því að ég er svona álíka tómur af samhug og velvild í garð náungans og fjárhirslur ríkisins.

Ég er hinsvegar fínn í því að segja fólki hvað það á ekki að gera, ekki endilega af velvild í garð þess heldur einfaldlega vegna þess að það sem ég er að segja þeim að forðast eru hlutir sem pirra mig. Án frekari málalenginga kemur fyrri hluti lista Saidin yfir hluti sem þú átt að hætta að gera á árinu 2010 – hér á huga sem og annarstaðar.

1) Hættu að væla yfir skaupinu.

Alltaf svona á slaginu fimm mínútur eftirskaup laumast nokkrir vesalingar í tölvuna sína í staðinn fyrir að fara út og sprengja peninga eins og við hin og gera sig stóra og fara að væla yfir því hversu ömurlegt skaupið var.

Kvartanir eru jafn fjölbreyttar og þær eru leiðinlegar og ganga yfirleitt út á það hversu mikið þú hatar Jón Gnarr eða hversu mikið þú vilt sjá meira af Jón Gnarr eða hversu leiðinlegt umfangsefnið var. Ef þú ert á annað borð einn af þeim sem skilur bara ekki sjitt hvað var í gangi legg ég til að þú skríðir út úr doritospokafylltu tölvuholunni þinni, andir að þér ferska loftinu, gangir á Esjuna og áttir þig svona almennt á því hvað er í gangi í samfélaginu (ef 10 ára systir mín fattar brandarana þarna ættir þú að geta það).

Hafðu líka í huga að þetta er eina sjónvarpsefnið á klakanum sem er hannað fyrir jafn stórtækan og breiðan áhorfendahóp, nefnilega svona 98% af Íslensku þjóðinni. Ekki öfunda ég neinn mann sem hefur það að vinnu að matreiða skemmtun ofan í jafn mislyndan hóp heimskingja.


2) Hættu að senda inn myndir af þér á /tiska og væla svo yfir því hvað allir eru vondir við þig.

Ég er ekki að réttlæta illkvittni hérna, trúðu mér. En ef þú ert á annað borð búinn að stunda huga í að lágmarki fimm mínútur veistu vel hve leiðinlegt fólk getur verið hérna.

Svo ég vitni í Penny Arcade‘s Greater Internet Fuckwad theory: Venjuleg manneskja + nafnleysi + áhorfendur = Riðilstuska (ég tók mér það bessaleyfi að beinþýða orðið Fuckwad, ég veit, sniðugt).

Ef þú ákveður í þessari vitneskju að senda inn mynd af þér að, ég veit ekki hvað, tjútta í MCR bolnum þínum eða inni á einhverju grunnskólaballi í Grundafirði með Aviator sólgleraugun þín á þér þá veistu alveg við hverju þú mátt búast. Fólk mun manna fleimbyssurnar og skjóta eins og Vitringur á KFUM-veiðum ("GUÐ ER EKKI TIL, MAMMA ÞÍN KEMUR ALDREI AFTUR, BWAHAHAHAHA").
Internetið er mean staður og það eru ekki allir jafn indælir og ég.


3) Hættu að stelast inn á kynlíf 18+ á stolnum kennitölum

Ég veit það ert þú, ekki neita því, það er enginn að skamma þig hérna. Ég meina það, þetta segi ég af minni mestu einlægni og velvild, það er ekkert þarna sem þú vilt sjá.


4) Hættu að koma með sorpið yfir á önnur áhugamál

Einn góðan veðurdag leit guð niður á jörðina sína og brast samstundis í grát. Hann sá að heimurinn hafði fyllst af hálfvitum, slefandi niðursuðudósum sem ganga um segjandi sína einkahúmorsbrandara sem eru álíka fyndnir og dauðir hvolpar og skrifa greinar sem minna mann helst á þriðjubekkinga í sögutíma á einhverjum skæðum ofskynjunarlyfum..

Allaveganna, guð örvænti! Hann vissi að eftir seinni heimstyrjöldina og allt það fiasco var orðið frekar taboo að fara með þroskahamlað fólk bara eitthvert út á heiði og skilja það þarna eftir þannig að hann sá sér engra annarra kosta völ en að búa til sorpið. Þar gæti þetta fólk svamlað í sínu eigin rugli og vonandi, einhvern daginn litið aftur yfir allt það sem það hafði afrekað og í einu hræðilegu augnabliki læknast samstundis af heimskunni.. það eða fært sig yfir á moggabloggið.

Já börnin góð, þetta er ekkert hate á ykkur, ég veit þið eruð þarna – mér er sama. Ég fer ekki inn á sorpið, ég les nóg af rugli á degi hverjum sem fær mig til að vilja gráta og henda saur, en ef þið farið að laumupokast yfir á mínum áhugamálum með þennan óheilaga fáránleika þá vekjiði kölskann í mér: SKAMM.


5) Hættu að dissa huga og væla yfir „gömlu góðu dögunum“

Ég er alltaf að lesa einhver hrygg vælukommnt hjá ýmsum aðilum um hvernig hugi sé að fara í hundana og hvernig hann var totally mikið betri í gamla daga… Kommon. Ég veit að góður hluti af fólkinu sem telur sig vera geðveika old-timera hérna er á mínum aldri ef ekki yngri (nema foringi Fróðleiksmoli, sagnir herma að hann sé eldri en bæði Alþingi og Vestmanneyjar) og ég man hvernig hugi var í gamla daga – ég var svona 11 ára og skrifaði greinar um Zelda, félagi minn Birkir H hét Sora og elskaði Kingdom Hearts meira en hann elskar viskí og vændiskonur núna.
Við vorum semsagt ekki menningarelítan sem við erum í dag.

Hugi var tölvuleikjasíða mönnuð af unglingspiltum sem spiluðu Quake og Counter, þessir gaurar eru annaðhvort fluttir til Japan eða dánir úr hárri elli núna og síðan hefur hugi tekið á sig talsvert almennra snið. Nýtt og yngra fólk kemur inn daglega og heimskulegar umræður eiga sér stað, alveg eins og hefur alltaf verið og þori ég að fullyrða á næstum öllum almennum spjallborðum og vefsíðum.

Hættið að væla og hljóma eins gamalmenni að horfa á sjónvarpið og verið ánægð að þið fáið stað til að tappa af, þetta er allavega skárra en spjallborðið á doktor.is ("hæ, ég er 12 ára, ég fór í sund með kærastanum mínum til þriggja daga og ég held að ég sé ólétt ;d;P").

PS Annar hluti kemur seinna ef og þegar ég nenni.
PPS Skítköst æskileg.
PPPS Ef þú ert ósáttur með að ég hafi notað nafnið þitt í greininni minni geturðu hringt í ritarann minn, Gexus, og vælt í honum í tíu mínútur. Hann mun síðan segja þér að hann muni skila kvörtuninni beint til mín en í rauninni förum bara á fyllerí og hlæjum að þér eins og við gerum öll kvöld.