Nauðgunardómar Nauðgunardómar á Íslandi eru sagðir vera hlægilega lágir og gerendur þurfa oft ekki að afplána allan tímann sem þeir fá.
Markmiðið með þessari grein er ekki að koma með neikvæða umræðu eða eitthvað að því tagi, heldur ætla ég að koma með eins ítarlegt yfirlit og ég get og horfa á allar hliðar málsins.

Flestir byrja á því að gagnrýna refsirammann og krefjast þess að hann verði gerður strangari en skilja ekki að það er bara ekki hægt að gera það eins og að kremja flugu. Það verður að gera það hægt og bítandi, því það gengur ekki upp að dæma mann í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart t.d. barni og svo ári síðar eftir að refsiramminn hafi verið gerður strangari að dæma mann, fyrir samskonar brot í sex ára fangelsi.
Það er óréttlæti og það er ekki tilgangur dómstólanna.
Kíkjum snöggvast á núverandi lög um þetta mál.

Brot úr 12. kafla Almennra hegningalaga.
Kynferðisbrot.

194. gr. Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
*Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

195. gr. Þegar refsing fyrir brot gegn 194. gr. er ákveðin skal virða það til þyngingar:
a. ef þolandi er barn yngra en 18 ára,
b. ef ofbeldi geranda er stórfellt,
c. ef brotið er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.
202. gr. Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.
*Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að [6 árum].
*Hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tælir barn yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi allt að 4 árum.
Eins og sjá má, er refsiramminn nógu strangur. 16 ár er það hæsta sem hægt er að fá fyrir tímabundinn dóm. Ævilangt fangelsi væri kannski aðeins of gróft fyrir kynferðisafbrot að mínu mati.

En af hverju nýta dómarar ekki allan refsiramman, og dæma gerendur oft í almennt skilorð?

Oft er það þannig að þetta er fyrsta brot geranda, og/eða áfengi eða önnur vímuefni hafa verið við sögu og þannig skert dómsgreind geranda og margt fleira. Ég er ekki að réttlæta þetta því gerandi var undir áhrifum, heldur aðeins að benda á það að það verður að líta á allt og taka allt með í reikninginn.
Ætla að taka eitt dæmi. Þann 14. Desember féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness um kynferðisbrot gagnvart tveim stúlkum. B og vinkonu hennar C. Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember 2009, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 29. maí 2009 á hendur A, kt. […], fyrir eftirtalin kynferðisbrot, framin árið 2008 í sumarbústað í […], Grímsnes- og Grafningshreppi:
1. Gagnvart dóttur sinni, B, og vinkonu hennar, C, báðum fæddum árið 1996, með því að hafa í eitt skipti um sumarið, lagst á milli stúlknanna, þar sem þær lágu saman í rúmi, strokið C um rassinn og síðan B um rass, maga og bak, í báðum tilvikum innanklæða.
2. Gagnvart ofangreindri dóttur sinni, B, með því að hafa, síðar sama sumar eða um haustið, lagst upp í rúm til hennar þar sem hún lá sofandi og sett hönd hennar á beran lim sinn, en við það vaknaði stúlkan.

Þetta er talið varða við 2. málsgrein 202. gr. almennra hegningarlaga.
Dómsorðin voru að ákærði, A, sæti fangelsi í tíu mánuði og greiði B 450.000 krónur og C 200.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 20. febrúar 2009 til greiðsludags.
10 mánuðir í fangelsi er rosalega langur tími, sérstaklega í fangelsi. Svo er þetta líka mjög hár dómur, því maðurinn hafði ekki mök við stelpurnar. En hámarkstíminn sem hægt var að dæma fyrir brot svipuð þessu er 6 ár samkvæmt annari málsgrein 202. grein almennra hegningalaga. Maðurinn var undir áhrifum áfengis þegar hann framdi verknaðinn skv. dómnum.
Sumum finnst líka að það ætti að dæma svona menn á sérstaka réttargeðdeild. En aðeins ein réttargeðdeild er á Íslandi og þar eru aðeins sex pláss.
Hluti af vandamálinu er auðvitað líka að fangelsin eru yfirfull og það er ekki neinn peningur til að byggja annað. Þess vegna þurfa gerendur oft ekki að afplána allan dóminn og sleppa fyrr út eða fá litla dóma í fyrsta lagi.