Ætli það sé ekki við hæfi að hefja þessa stuttu umfjöllun mína á broti úr gömlu:

“Á skjánum birtast myndir
við fáum af því fréttir að…”


Nýi Kaupþing banki (hér eftir Kaupþing) hafi skipað tvo menn í stjórn 1998 ehf, sem er móður félag Haga, sem reka margar af verslunarkeðjum landsins. Kaupþing hefur skipað tvo menn í stjórn félagsins og fært heimili þess í höfuðstöðvar sínar. Þar með sést bersýnilega að Kaupþing er farið að pressa á eigendur 1998 ehf, um útistandandi skuldir.

Nú halda margir fjölmiðlar því fram að ætlunin sé að afskrifa háar upphæðir sem félagið skuldar bankanum. Því hefur verið kastað fram að Jón Ásgeir einn aðal eigenda 1998 ehf þurfi að greiða 7 milljarða króna upp í alls 48 milljarða króna skuld félagsins við bankann. Ef þetta reynist rétt þá verða afskrifaður um 41 milljarður króna.

Það sem ég hef hugsað mér að velta upp hér eru ástæður þess, að þessi leið er valin frekar en að ganga frekar að fyrirtækinu. Ætli fyrsta spurningin sé ekki einfaldlega sú, af hverju að afskrifa þessa skuld í stað þess að láta fyrirtækið fara í gjaldþrot? Svarið við þessar spurningu liggur reyndar nokkuð í augum uppi. Það er vissulega betra fyrir Kaupþing, sem kröfuhafa í 1998 ehf, að fá 7 milljarða upp í sína skuld, en ekki neitt. Nú þekki ég ekki raun virði 1998 ehf og eigna þess, en ég ímynda mér það að félagið standi það illa að lítið sem ekkert kæmi upp í skuldir bankans við það að senda félagið í gjaldþrot.

Það sem mér sýnist á öllu að sé í gangi, er það að 1998 ehf er að gera nauðasamning (27. gr. gjaldþrotalaga) við Kaupþing um sínar skuldir. Lögaðili sem stendur illa fjárhagslega getur hvenær sem er óskað eftir því að gera nauðasamning við lánadrottna sína á grundvelli 34. gr. gjaldþrotalaga (nr. 21 frá 1991) ef meirihluti kröfuhafa fellst á það.

Í nauðasamningum fellst það einfaldlega að reyna að koma skipulagi og reglu á fjármál sin. Til þess að geta þetta þarf vissulega aðstoð kröfuhafans. En af hverju ætti kröfuhafinn að vilja þetta? Jú eins og ég hef nefnt hér fyrr þá gerir kröfuhafinn þetta í þeim tilgangi að takmarka tjón sitt af þessum löggerningi.

Þannig að ef maður skoðar þetta nánar þá má segja að þessi aðferð sem verið er að fara í þessu máli, sé ekki alls kostar vitlaus. Hér er verið að taka meiri hagsmuni yfir minni, með því að takmarka það tjón sem Kaupþing verður af þessu.

Ég trúi því að það séu eflaust mjög margir sem eru algjörlega á móti því að þetta sé gert með þessum hætti, en þeir verða að skoða málið út frá sjónarhóli bankans, sem er m.a. lánastofnun, þar er tekin áhætta við að lána lögaðilum, það getur farið á báða vegu og menn meta stöðuna. Vissu lega er markmiðið að fá meira inn en þeir lánuðu, en þegar slíkur valkostur er ekki lengur til boða, þá er spurning hvort hagsmunir bankans séu meiri eða minni í því að hafa fyrirtækið gjaldþrota og jafn vel þurfa að afskrifa allt, eða fá hluta kröfunnar greiddan og láta fyrirtækið starfa áfram.

Mitt álit er það að taka meiri hagsmuni yfir minni og takmarka tjónið með því að afskrifa hluta og halda fyrirtækinu starfandi. Ekki eingöngu fyrir Kaupþing heldur þjóðfélagið í heild, því við getum ekki vitað hvaða afleiðingar það hefði ef fyrirtækið væri keyrt í gjaldþrot.