Stór hluti hugara vill styrkja alþjóðleg glæpasamtök. Grein um lögleiðingu fíkniefna

Það að halda framleiðslu, pökkun, flutning og dreifingu fíkniefna í höndum glæpamanna neyðir fólk sem tekið hefur þá ákvörðun að nota fíkniefni til að styðja við ólöglega starfsemi. Sérfræðingar á þessu sviði á borð við Milton Friedman og Andreas von Bülow halda því fram að hvert einasta alvarlega hryðjuverk sé fjármagnað með sölu eiturlyfja.1 Þeir segja að bannið áorki fáu öðru en að gera smygl arðvænlegt, neyslan minnki lítið. Fyrrverandi alríkisfíkniefnalögreglumaðurinn Michael Levine sagði eftir að hafa unnið leynilega í Kólumbiu fyrir kókaín auðhring:

„Ég komst að því að ekki eingöngu hræddust þeir ekki baráttuna gegn fíkniefnum, þeir treystu á það til að hækka markaðsverð og sigta út minni, óskilvirkari dópsala. Þeim fannst inngrip Bandaríkjanna hlægilegt. Eina gjörð Bandaríkjanna sem þeir hræddust var skilvirk áætlun til að minnka eftirspurn. Á einni leynilegri upptöku heyrist hátt settur foringi innan auðhringsins, Jorge Roman, tjá þakklæti sitt fyrir stríðið gegn fíkniefnum, og kalla það „látalæti sett upp til fyrir bandaríska skattgreiðendur“ og að það væri í rauninni „gott fyrir viðskiptin“ “2

Þarna er rætt um Bandaríkin, en er Ísland eitthvað öðruvísi? Við fáum efnin, jú frá sömu stöðum og við heyjum einnig stríð gegn fíkniefnum undir formerkjum á borð við „Vímulaust Ísland” og dælum pening í þessa baráttu, sem Jorge Roman hlær að. Sem er svosem gott og blessað sé það þannig sem við viljum hafa það.

Antonio Maria Costa, framkvæmdastjóri fíkniefna- og glæpadeildar Sameinuðu Þjóðanna sagði að eiturlyfjaágóði væri féþúfan sem skipulögð glæpastarfsemi nærðist á og notaði til fjármögnunnar á hryðjuverkum, til að breiða út starfsemi sína, til annarra ólöglegra athafna og til að styrkja stríð, ofbeldi, stjórnleysi og lögleysu.3 Það að velja þennan valkost fram yfir að styrkja ríkið, okkar eigið samfélag, hljómar eilítið rangt. Er það virkilega sá kostur sem við veljum af ásettu ráði í staðinn fyrir að taka þetta í eigin hendur?

Fíkniefnaheimurinn á Íslandi veltir miljörðum, dópsalar græða miljónir, fyrirhafnarlaust og skattalaust. Þeir þurfa ekki að mæta í vinnu heldur þurfa þeir bara að hitta fólk úti í næstu sjoppu fyrir tugi klukkutíma vinnu. Þeir vilja að fíkniefni séu áfram ólögleg. Viljum við það sem þeir vilja?


1Wikipedia: skoðað 15. febrúar 2008 á http://en.wikipedia.org/wiki/Arguments_for_and_against_drug_prohibition
2 After Prohibition. An Adult Approach to Drug Policies in the 21st Century. p92. ISBN 1-882577-94-9, hægt að skoða á http://books.google.is/books?id=tWQigjXtK3UC&dq=After+Prohibition.+An+Adult+Approach+to+Drug+Policies+in+the+21st+Century&printsec=frontcover&source=bl&ots=QKJ6adQ_I6&sig=S-WRx4xluFJjzpnX2KEkWvDJUZk&hl=is&ei=q3-XSb65ApKJ-gapksjvCA&sa=X&oi=book_result&resnum=2&ct=result#PPA92,M1 (15. febrúar 2008)
3 UNODC – Drugs: Cash Flow for Organized Crime: skoðað 15. febrúar 2008 á http://www.unodc.org/unodc/en/about-unodc/speeches/speech_2005-02-1.html