Frelsi einstaklingsins til neyslu vímuefna. Frelsi einstaklingsins

Árið 1859 var ritið “Frelsið” (e. On Liberty) eftir John Stuart Mill gefið út í fyrsta sinn. Þar leitaði hann eftir því að setja fram eina ofureinfalda reglu til að skera úr um hvenær samfélaginu leyfist að hlutast til um málefni einstaklingsins, hvort sem viðurlögin eru líkamlegt ofbeldi í mynd lagarefsinga eða siðferðileg þvingun almenningsálitsins. Reglan er þessi:

Því aðeins er öllu mannkyni, einum manni eða fleirum, heimilt að skerða athafnafrelsi einstaklings, að um sjálfsvörn sé að ræða. Í menningarsamfélagi getur nauðung við einstakling helgazt af þeim tilgangi einum að varna þess, að öðrum sé unnið mein. Heill og hamingja einstaklingsins sjálfs til líkama eða sálar er ekki næg ástæða til frelsisskerðingar. Það er óréttlætanlegt að neyða mann til að gera nokkuð eða láta ógert af þeim sökum, að hann verði sælli fyrir bragðið, eða hinum, að aðrir telji skynsamlegt eða rétt að breyta svo. Ástæður sem þessar eru góðar og gildar í fortölum eða rökræðum. Til þeirra má höfða, vilji maður telja öðrum hughvarf eða biðja hann einhvers. Þær réttlæta ekki, að aðrir neyði mann eða meiði, ef hann skyldi breyta öðruvísi en til er ætlazt. Nauðung réttlætist af því einu, að verknaður sá, sem komið er í veg fyrir, sé öðrum til tjóns. Maður ber einungis ábyrgð gagnvart samfélaginu á þeim athöfnum sínum, sem aðra varða. Hann hefur óskorað frelsi til allra gerða, sem varða hann sjálfan einan. Hver maður hefur fullt vald yfir sjálfum sér, líkama sínum og sál

Tel ég að flestir geti séð skynsemina sem fólgin er í þessari reglu. Auðvelt er að yfirfæra hana á neyslu vímuefna er engan samslundis skaðar, nema mögulega, neytandann. Ekkert fórnarlamb kemur við sögu er þarfnast réttlætis við. Þegar kemur að sölu á efninu eiga í hlut tveir aðilar sem sjálfviljugir gera með sér beinan viðskiptasamning. Hvorki annar né hinn vill afskipti yfirvalda. Aftur, ekkert fórnarlamb. Því má spyrja um siðferðislegt réttmæti þess af löggjafanum að gera þessi viðskipti að glæp sem uppræta skal með öllum ráðum tiltækum.

Og af hverju er þetta málefni undantekning í forræðishyggju stjórnvalda? Af hverju er ekki barist gegn þessu með fordómalausri fræðslu heldur lygaáróðri og löggjöf? Ef rökin eru að þetta sé fólki fyrir bestu, af hverju ekki að setja löggjöf gegn offitu, of mikilli kaffidrykkju, of miklu sjónvarpsglápi, hættulegum íþróttum, því að borða of lítið af ávöxtum? Löggjöf um skylduhreyfingu, lágmarksvítamíninntöku, og skylduþáttöku í hugarleikfimi á borð við tafl? Eftir allt þá er það okkur fyrir bestu.

Hver er það líka sem við höfum svona miklar áhyggjur af? Er það fólkið sem er í mesta áhættuhópnum að byrja í neyslu? Fólk í erfiðum félagslegu umhverfi, með brotna sjálfsmynd og gæti ómögulega stýrt neyslunni? Því miður byrjar margt af því fólk í harðri neyslu í dag, og svo virðist sem öll okkar barátta geti ekki komið í veg fyrir það. Fræðslu um skaðsemi og forvörnum væri ekkert hætt við lögleiðingu, heldur væri frekar aukið við hana, fólki þætti ekkert á svipstundu allt í lagi að neyta sterkra fíkniefna.

Þú, til dæmis, ert gott dæmi um einstakling. Ef þú notar það ekki núna, myndirðu byrja að taka kókaín ef það væri löglegt? eða heróín? Þar sem svarið er nei, er þá komið upp vandamál? En myndi fólkið sem þér stendur næst gera það frekar eftir lögleiðingu, fjölskylda og vinir? Þar sem svarið er nei, er þá komið upp vandamál? Meirihluti fólks í þjóðfélaginu? Börn á grunnskólaaldri, menntaskólanemar, kokkar, slökkviliðsmenn, læknar, kennarar, iðnaðarmenn, ræstitæknar og ellilífeyrisþegar, sem öll eru meðvituð um hættuna? Flest þeirra myndu taka þá ákvörðun að gera það ekki, ekki frekar en þau gera það núna, örfáir myndu ákveða það fyrir sig að gera það, vafalaust án þess að það væri neitt vandamál, og þeir sem gera það nú þegar væru ekki lengur glæpamenn.

Flest okkar geta tekið meðvitaða ákvörðun um hvað við gerum í lífi okkar, það er alltaf okkar eigið val hvort við yfir höfuð ákveðum að nota vímugafa, og flest okkar geta líka neytt þeirra á gáfulegan máta, rétt eins og flestir nota alkóhól í dag. Áfengi er sterkur vímgjafi, en samt geta langflestir neytt þess án þess að missa á neinn hátt, stjórn á lífi sínu. Sama máli er að gegna með mörg þeirra efna sem eru núna ólögleg, eins og alsælu og amfetamín.

Þú getur notað vímuefni við sérstök tækifæri til að brjóta upp hversdagsleikann. Þú getur notað þau á hverjum degi, jafnvel varanlega misst allt samband við raunveruleikann. Þú getur sleppt því alfarið að neyta þeirra. Þegar allt kemur til alls, er sú ákvörðun einskis nema eigin, hvernig maður kýs að haga sínu lífi.