Ólympíuleikarnir í Peking 2008 Nú styttist óðum í að hinir stórfenglegu Ólympíuleikar hefjist í Peking í Kína. Opnunarhátíðin hefst nákvæmlega 8 mínútur og 8 sekúndur í 8 þann áttunda ágúst 2008 (08.08.08) en 8 er happatala Kínverja.

Það er ljóst að við erum að verða vitni að stórum atburði sem mun að öllum líkindum vera skráð í söguna en leikarnir hafa ekki verið jafn umdeildir síðan á 4. áratugnum þegar Nasistarnir yfirtóku þá og Hitler neitaði t.d. að gefa svörtum manni verðlaunagrip.

Milljónir manna hafa verið reknir af heimilum sínum til að rýma fyrir Ólympíuþorpinu og mengun er ennþá stórt vandamál þrátt fyrir að búið sé að banna 50% bíla í borginni og þúsundir verksmiðja hafa annað hvort flutt tímabundið úr borginni eða hætt starfssemi. Auk þess er búið að banna geðsjúka, fólk með kynsjúkdóma og Tíbverja að koma á keppnina og listinn yfir hluti sem er bannað að gera er mjög langur.

En margt er svo sannarlega til fyrirmyndar hjá þjóðinni. Allar byggingar voru tilbúnar á réttum tíma og má þar nefna stækkun á neðanjarðarlestakerfi og flugvöll borgarinnar auk sjálfs Ólympíuþorpsins. 100.000 hermenn munu sjá um öryggisgæslu ásamt öðrum eins fjölda sjálfboðaliða. Ensku og kurteisiskennsla hefur verið efld og verða borgararnir að brosa framan í erlenda ferðamenn. Þeir mega ekki ganga í fötum sem innihalda fleiri en þrjá liti og stranglega bannað er að skyrpa á götunni. Allar biðraðir verða að vera þráðbeinar og handartök mega ekki vera lengur en þrjár sekúndur hvert.

Já, reglur, reglur og aftur reglur. Aldrei hefur verið jafn erfitt fyrir íslenska hópinn að taka þátt og pappírsvinnan hefur aldrei verið meiri. Ákvörðun Forsetans að mæta á opnunarhátíðina hefur verið gagnrýnd harðlega og þannig hefur það eflaust verið út um allan heim. Margir eru harðákveðnir í að horfa ekki á Ólympíuleikana en við hinir skulum njóta þess að horfa og styðja íslenska hópinn okkar til sigurs(eða..já..allavega áfram).
Veni, vidi, vici!