Hugsanir Í dag er margt breytt frá því sem áður var.
Ég sækist eftir upplifun, einhverju sem breytir hugarástandinu sem ég er í, einhverju sem blæs burt skýinu sem plagar mig.
Að upplifa fegurð. Fegurð, eitthvað raunverulegt, eitthvað óraunverulegt. Eitthvað sem opnar nýjar dyr og færir mér undrun yfir því sem ég sé fyrir innan.
Allt er breytingum háð, allt sem fer upp kemur aftur niður og því hærra sem það fer því harðari verður lendingin.
Ég var að lenda.
Mig langar aftur upp.
Að halda áfram er ekkert mál, en það er erfitt að horfa á eftir því sem maður skildi eftir.
Hlutir eru annað hvort að dafna, vaxa og ná árangri, eða visna, brotna niður og deyja. Þannig er það með allt, okkur sjálf, náungan og allt sem við sjáum í kringum okkur. Ef maður á erfitt með að sætta sig við breytingar þá á maður eftir að eiga ansi erfitt með að sætta sig við tilveruna.
Ég get ekki breytt því sem gerðist, en það sem gerðist breytti mér.
í dag sá ég sjálfan mig. Ég hef ekki séð mig lengi. En ég hef séð mig áður. Ég þekkti ekki mannin sem ég á í dag. Mér líkaði ekki við mannin sem ég á í dag, hann horfði á mig til baka og það skein fyrirlitning úr augunum hans. Hann leit á mig og var eflaust að hugsa; “hver er þessi viðbjóðslegi maður”. Það var allavega það sem ég hugsaði.
Hann hefur falið sig svo lengi. Hann hefur falið sig svo vel að ef hann ætlaði að finna sig aftur vissi hann ekki hvar hann ætti að byrja að leita.
Hann varð eftir á leiðinni, var skilinn eftir, þótti ekki æskilegur ferðafélagi, ekki æskilegur farangur. Sem slíkur var honum fleygt út á ferð og liggur sem hráviði í vegkantinum, svo illa leikinn að ég er viss um að hann mundi ekki þekkja sig aftur, löngu látinn, en ekki gleymdur.
Mín kenning er að hann hafi gengið aftur, risið upp laus við líkamlegt form og kemur þegar kalt er og dimmt til þess að minna á sig, minna á hvernig sér var komið fyrir, nagar samviskuna , ýtir út svita, kreistir fram tár og leggst á sálina.
Maðurinn sem ég sá í dag hafði afturgöngu á sálinni.
Maðurinn sem ég sá í dag hafði gengið í gegnum breytingar, en hann var ekki sáttur við útkomuna. Hann hafði ekki orð á því, hann þurfti engin orð til að greina frá því, allt sem ég vildi vita sá ég í augunum, þreyttum, votum, augunum. Augu sem virtust eldri en líkaminn sjálfur. Augu sem virtust hafa séð meira en þau vildu sjá. Augu sem þögðu yfir leyndarmálum sem þau vildu ekki sjálf vita. Svo uppfull af leyndri angist sem virtist vera farin að flæða yfir.
Breytingarnar höfðu farið illa með hann, en hann verður að sætta sig við þær. Hann veit að þær eru hluti af tilverunni, hann veit að þær eru tilveran.
Og það að vera til er það eina sem hann gerir.
Bulletproof & bound for glory.