Ég hef aðeins verið að pæla í okkur mannfólkinu, þó náttúrulega sérstaklega Íslendingum, að því að ég er einn slíkur. Innri ró er eitthvað sem við erum orðin svo örvæntingarfull eftir að við erum komin með eina heila útvarpsstöð sem hefur þan eina tilgang að róa okkur aðeins niður. Mest megnis er landið byggt upp af vinnutýpunni, þessari sem líður aldrei betur en þegar hún vaknar svo snemma að ælan situr í hálsinum fram að morgunkaffi og verkirnir í bakinu gefa aðeins samviskunni smá frið því verkur í baki er jú vott um vinnusemi og góðan vilja.
Þessar týpur mæla innri ró í milljónum, eftir fyrstu milljónina þá færist svona örlítið titrandi glott yfir andlitið og týpan andar einu sinni djúpt og segir “jæja elskan þá er milljónin komin, nú getum við haldið áfram því næstu þrjár verða okkur erfiðari”
“Hvað er sett á þessa íbúð?” “Er hann á lánum?” “Já já það vantar bara að húða eldhúsinnréttinguna og láta setja John Smith flísar á baðið því það verður eiginlega að vera í stíl við barnaherbergið því við erum mikið að spá í að eignast barn eftir næstu milljón”
Þessar týpur gefa lítið fyrir slakandi útvarpsstöðvar og sljóvgandi jóganámskeið, þær trúa því að ef maður fær bara nóg af kaffi og yfirvinnu að þá slaki maður betur á í framtíðinni.
En síðan eru það týpurnar, sem vinna yfirleitt snyrtilegri og auðveldari vinnu en fá kannski ekki neitt sérstaklega margar milljónir þannig að þær verða líka að fá svolitla yfirvinnu. Þessar týpur verða þó að passa sig því þær eiga það til að fitna svolítið því að innivinna er oft á tíðum fitandi og erfið taugakerfinu. Þessi týpa öðlast innri ró á svipaðan hátt og sú fyrri nema í stað þess að safna milljónunum með spasli og erfiðispuði þá vinna þær inni en þurfa þess vegna að eyða svo um munar í alls konar anorakka og skíði, gönguskó, lapplandera og landkrúsera, leigja sumarbústaði fara til Ibiza og Andesfjalla til Tæland og í Tívolíið.
Síðan komast allir í þrot því það sér að heimurinn er fullur af alls konar dóti og drasli og alls konar fólki og skoðunum, það sér líka að heimilið er fullt af fólki og dóti og það sér líka að vasarnir eru fullir af allsk konar seðlum, kortum, víxlum og dóti en það finnur að hjartað er tómt.
Þá fer það út í búð og kaupir eitthvað austurlenskt, pantar einhvern ávöxt sem að er ógeðslega sjaldgæfur og reynir að komast í tæri við fólk frá fjarlægum heimsálfum og biður það að kenna sér að hugleiða í takt við þessa austrænu og fjarlægu, heimspekilegu ró.
Það fer á runknámskeið og matreiðslunámskeið, hættir að borða mjólk og brauð, lætur börnin á jurtatekúr og kaupir sér reykelsi og nálastungur.
En fyrir kærleikan gefst svo lítill tími, því hann er bara fyrir einfeldinga og þá sem að eru blankir. Síðan græðir maður svo lítið á honum.