Hvað er að gerast hér á landi? Er lögreglan vitstola? Er ekki löngu kominn tími á innra eftirlit lögreglunnar?

Ég sjálfur hef oft þurft að þola valdahroka og valdamisbeitingu frá lögreglu en eitthvað mega þær sagnir sín lítils á miðað við það sem ég var að lesa.

Hver kannast ekki við að vera t.d. stoppaður á stöðvunarskildu vegna þess að “hjólin voru ennþá að snúast, við sáum það” eða þá að vera tekinn á einhverjum af 70km/klst köflunum á leið til keflavíkur á 89km/klst. Hver kannast ekki við það að lögreglan sé á einn eða annan hátt að misbeita valdi sínu í hluti sem ég kýs að kalla tittlingaskít á meðan svona mikið er að?

Núna kunna sumir að spyrja sig, hvað er að? Um hvað er maðurinn að tala? Hér á eftir fer grein sem tekin var af visir.is miðvikudaginn 29. ágúst.


Mér finnst lífi mínu ógnað
“Ég fer ekki lengur einn í bæinn af ótta við hvað kunni að gerast,” sagði Olufela Teddy Owolabi 25 ára gamall Nígeríumaður sem hefur verið búsettur hér á landi í tæp fjögur ár.

Hann segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við lögregluna í Reykjavík og segist vilja koma skoðunum sínum á framfæri fyrst og fremst vegna tveggja sona sinna, 2ja ára og níu mánaða, sem fæddir hér á landi.

“Ég vil ekki að þeir upplifi það sama og ég síðastliðinn sunnudag. Ég vil að þeir geti tjáð sig frjálslega í sínu heimalandi og sagt hug sinn án þess að eiga það í hættu að lenda í fangageymslum fyrir þær sakir einar að vera dökkir á hörund.” Olufela eða Teddy eins og hann kýs að kalla sig er að vísa til atviks sem varð á Hverfisgötunni síðastliðinn sunnudagsmorgun þegar hann segir að ráðist hafi verið á sig og nígeríska félaga sína vegna þess að þeir eru dökkir á hörund. Segir Teddy lögreglu hafa lagt á sig hendur og látið sig dúsa handjárnaðan í fangageymslu dágóða stund.

Teddy sagðist vilja vekja máls á þessu í fjölmiðlum þar sem þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hann lenti í útistöðum við lögregluna. “Hlutirnir eru stöðugt að versna með hverju degi sem líður og slagsmál eru orðin mun tíðari. En eins og lögreglan meðhöndlar hlutina gefur það fólki til kynna að það sé allt í lagi að stofna til slagsmála við fólk af öðrum kynþætti því afleiðingin sé sama og engin. Mér finnst sem lífi mínu sé ógnað og er kominn á það stig að vilja ekki hringja í lögregluna því það hefur hingað til ekki komið mér til hjálpar. Kýs ég frekar að kalla vini mína til aðstoðar og þegar málin eru komin á það stig getur það leitt til óeirða milli hópa af mismunandi kynþáttum.”

Teddy sagði ofbeldi og fordóma ekki hafa verið svona áberandi þegar hann kom fyrst til Íslands. “Þetta fer stigvaxandi og m.a. út af því að það er ekki rétt haldið á málunum og aðgerðum ekki rétt stjórnað.” Teddy sagði að ef ekkert yrði að gert ætti ofbeldið að fara úr böndunum og að endingu mundi einhver láta lífið í átökunum. “Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé það sem íslenska þjóðin vill og því verður að grípa í taumana strax. Ísland á að vera fyrirmynd annarra þjóða þar sem allir eiga að geta lifað saman í sátt og samlyndi. Ég græt innra með mér þegar ég hugsa til strákanna minna því ég vil ekki að þeir séu að lenda í því sama og ég,” sagði Teddy að lokum.

Fréttablaðið hafði samband við lögregluna en gat ekki fengið nánari upplýsingar þar sem málsatvik voru enn í skýrsluskrá. Þar er málið skráð sem átök tveggja hópa.


Er ekki allt í lagi með strákana þarna á Hverfisgötunni? Getur það verið að þessi maður sé að segja satt og rétt frá? Ég ætla rétt að vona ekki!

Hvernig var það með rónann sem fannst dáinn í fangageymslum lögreglunnar? Þeir segja hann hafa verið illa leikinn og að það hefði blætt úr honum þegar hann kom. Daginn eftir var hann dáinn. Ég var að spá, skildi hann hafa lent á milli hæða í lyftunni á hverfisgötu þar sem óprúttnir spilltir lögreglumenn lömdu úr honum líftóruna og hentu honum svo inn í klefa? Svo skrifuðu þeir smekklega í skýrslu sína að hann hefði verið illa leikinn, afhverju fóru þeir þá ekki með hann á sjúkrahúsið? Hvað var það sem þeir voru að fela?

En ég vil rétt vona það að ég sé að leggja kolrangan skilning í hlutina og að þetta sé einhver misskilningur. Ég veit að löggur geta verið litlar smásálir, oftar en ekki er þetta minnsti bróðirinn sem verður lögga, allir bræður hans búnir að níðast á honum og nú ætlar hann að ná sér niður á heiminum, en auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og þarna inn á milli eru toppklassalöggur sem skammast sín þegar svona umræða er í gangi.

Hvernig var svo með stóra fíkniefnamálið? Þar var einhver óhugnaleg rýrnun á efnum sem gerð voru upptæk og eins og einn góður maður sagði innan lögreglunnar, það er eðlilegt að efni rýrni við geymslu við það að missa raka o.þ.h. en þetta er orðið óhugnalega mikið og ólíklegt að það eigi sér eðlilegar skýringar.

Mín skoðun er, að innan lögreglu eigi að vera starfrækt innra eftirlit, helst mannað útlendingum 1-2, sem hefðu það verkefni að gagnrýna störf lögreglu á hlutlausan máta. Þessir menn gætu náttúrulega aldrei verið íslenskir vegna ótta við hefndaraðgerðir vinnufélaganna ef þetta er svona slæmt eins og skilningur minn á þessum málum vill segja mér. Kannzki er ég svona takmarkaður og þetta er ekki svo slæmt, en hvað veit ég og það sem meira er, hvað vitið þið?

Á að koma á innra eftirliti lögreglu? Af því sem ég hef talið upp verð ég að segja já, kannzki er þetta svona, kannzki ekki. Það er á ábyrgð stjórnvalda að koma þessu á og mér finnst að lögreglan ætti að hafa frumkvæði í þessu til að hreinsa nafn sitt, en kannzki hafa þeir ekki enn gert það því þeir hafa eitthvað að fela.