Reyndar var engin mamma með í þessu dæmi, en mér tókst að kveikja í vaskinum mínum áðan. Þið megið klappa fyrir mér núna. *ímyndar sér klapp* Vííí!

Allavega, ég var semsagt nýbúinn að læra fyrir morgundaginn, klukkan var rúmlega fimm og ég einfaldlega nennti ekki að fara að sofa því ég myndi líklegast sofa yfir mig. Ég rak augun í kveikjarann minn, hann lá þarna á gólfinu, ósköp saklaus eitthvað. Allt í einu fékk ég þvílíka brennihvöt og ákvað að finna mér eitthvað til að kveikja í. Fyrsta fórnarlambið var grein af vínberja-svona-dóteríi. Það vildi ekki kvikna í henni en það kom hinsvegar glóð sem vildi alls ekkert slokkna en slokknaði að lokum.

Næst fann ég mér Mars-bréf, fór að vaskinum, kveikti í því og sleppti því svo í vaskinn. Þar brann það út, allt í lagi með það.

Næst fann ég mér bréfið sem er utan á popppokum áður en maður tekur það af og stingur popppokanum í örbylgjuofninn. Kveikti í því yfir vaskinum, það fór fyrir því eins og Mars-bréfinu.

Næst fann ég mér gamalt skólaverkefni, eitt A4-blað og kveikti í því, setti svo í vaskinn og shit, þá kom sko alvörueldur! Það sem sagt brann þar til ösku og allt í fína. Fann svo annað og það brann eins.

Síðan var ég orðinn stórhuga, ákvað þá að finna mér þrjár opnur af Fréttablaði gömlu. Braut saman þannig að hver opna var jafnstór og A4-blað og lagði tvö í vaskinn og kveikti í einu, beið þangað til að það var kominn góóóóður eldur á þetta og setti svo ofan á hin. Í leiðinni missti ég einnota rakvél á eldinn, hafði enga möguleika á að endurheimta hana, hún brann með. Tók síðan upp símann minn og tók upp video.

Og vá hvað þetta brann! Eldurinn náði um allan vaskinn og hátt uppfyrir kranann, það var orðið svo heitt þarna að mér leið eins og ég væri á áramótabrennu. Ég hafði notað vaskinn til að ég gæti örugglega slökkt aftur, en þarna gat ég engan veginn slökkt með krananum, ég hefði ekki komist að fyrir eldi. Var hinsvegar reiðubúinn með fötu og eldhúsvask ef allt færi á versta veg.

Allt í einu fóru neistar að skjótast út um allt og ég var orðinn smá smeykur um að eitthvað þarna inni gæti fengið neista í sig og kviknað í því, eins og til dæmis klósettrúllan. Það hinsvegar gerðist ekki og er ég feginn.

Síðan þegar eldurinn var alveg að deyja út, var sem sagt orðinn mjög lítill og ég var búinn að skrúfa frá og slökkva næstum allan eld, nema þann sem vatnið náði ekki til, þá fór reykskynjarinn í gang. Fokk.

Skellti strax inná klósett, skvetti vatni úr fötu á eldinn sem eftir var, skolaði síðan vaskinn mjög vel, bleytti að lokum handklæði og þurrkaði alla ösku af öllu baðherberginu. Tók smástund að klára það. En það tókst og nú eru nánast engin ummerki um neinn bruna. Reykskynjarinn hætti að pípa eftir hálfa til eina mínútu og enginn varð var við neitt, sem betur fer.

Eitt slæmt gerðist reyndar, ég kastaði símanum svolítið kæruleysislega frá mér þegar reykskynjarinn fór í gang og hann lenti í einhverri bleytu. Núna kveikir hann á sér sjálfur og stimplar inn alls kyns númer og ýtir á “ok”. Ef mér tekst að fá hann til að þegja nógu lengi til að ég geti kveikt á honum og stimplað inn PIN-númerið þá fer hann að senda tóm SMS til Alexander Jarls, þar sem hann er efstur í símaskránni minni. Tókst reyndar að stoppa öll áðan, en tek ekki áhættuna á að kveikja á símanum aftur. Þurfti að henda honum í gólfið áðan því að hann vildi ekki slökkva á sér, þá datt batteríið úr og ég gat hætt að hafa áhyggjur af honum.

En, ég á video af þessu seivað inn á símakortið, verður spes að horfa á það.

The morale of this story is: Alls ekki kveikja í gömlum fréttablöðum heima hjá ykkur, það er bara silly …